Birt þann 16. september, 2021 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson
Tröll og íslensk náttúra í nýrri stiklu úr Island of Winds
Íslenska tölvuleikjafyrirtækið Parity sendi frá sér nýja stiklu úr tölvuleiknum Island of Winds sem hefur verið í þróun hjá fyrirtækinu í nokkur ár. Island of Winds er ævintýraleikur sem gerist á Íslandi á 17. öld og sækir leikurinn innblástur til íslenskrar náttúru, þjóðsagna og sögu. Söguhetja leiksins er – Brynhild the Balance Keeper – sem fer á flakk eftir að ráðist er á býli hennar og lærimeistara rænt.
Island of Winds er ævintýraleikur sem gerist á Íslandi á 17. öld og sækir leikurinn innblástur til íslenskrar náttúru, þjóðsagna og sögu.
Parity segir að áhersla er lögð á söguríka nálgun í leiknum, fróðleik og áhugaverðar þrautir þar sem sérstök áhersla verður lögð á samkennd. Í leiknum koma galdrar og þjóðsagnaverur einnig við sögu.
Hingað til hefur útgáfudagur eða útgáfuár ekki verið staðfest en með stiklunni var staðfest að leikurinn er væntanlegur á næsta ári, árið 2022, á PC og PlayStation 5. Hægt er að skoða fleiri skjáskot úr leiknum og kynnast baksögu Brynhildar, lærimeistarans og hlutverk Balance Keepers á heimasíðu Island of Winds.
… horft hefur verið á stikluna yfir 28.000 sinnum á fyrstu fjóru klukkutímum eftir birtingu.
Hægt er að horfa á stikluna hér fyrir neðan og til gamans má geta er hún öll á íslensku. Stiklan var birt á YouTube-rás Parity og á YouTube-rás tölvuleikjasíðunnar IGN þar sem horft hefur verið á stikluna yfir 28.000 sinnum á fyrstu fjóru klukkutímum eftir birtingu. Nörd Norðursins fékk að prófa leikinn á Midgard 2019 og tók viðtal við Maríu Guðmundsdóttur hjá Parity þar sem hún sagði frá leiknum.