Leikjarýni

Birt þann 25. september, 2020 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Geislasverð og Svarthöfði í sýndarveruleika

Geislasverð og Svarthöfði í sýndarveruleika Bjarki Þór Jónsson

Samantekt: Flottur og áhugaverður Star Wars heimur sem nær ekki að blómstra vegna tæknilegra örðugleika.

3

Ágætur


Vader Immortal er sýndarveruleikaleikur frá árinu 2019 sem byggir á Star Wars söguheiminum fræga.

Upphaflega var leikurinn eingöngu gefinn út fyrir Oculus sýndarveruleikabúnaðinn en í ágúst síðastliðnum var hann einnig gerður aðgengilegur fyrir PlayStation VR og miðast þessi gagnrýni við síðarnefndu útgáfuna.

Magnaður heimur

Leikurinn gerist að mestu í virki Svarthöfða þar sem Svarthöfði er með plön til að ná yfirráðum yfir vetrarbrautinni og heldur spilarinn á lyklinum sem getur frelsað vetrarbrautina – eða tortímt henni.

Eftir að hafa tengst sýndarveruleikabúnaðinum og kveikt á leiknum er óhætt að fullyrða að leikurinn nær fljótt að heilla. Þrátt fyrir að PlayStation VR sé ekki jafn tæknilega fullkominn og Oculus nær umhverfið í leiknum að fanga mann fljótt. Persónurnar í leiknum eru líka vel útfærðar og tekur stuttan tíma að sökkva sér í söguheiminn.

Tæknilegir örðugleikar

Vader Immortal glímir við mörg vandamál sem varða tæknilega útfærslu fyrir PSVR.

Því miður tekur álíka stuttan tíma að aftengjast þessum töfrandi ævintýraheimi þar sem Vader Immortal glímir við mörg vandamál sem varða tæknilega útfærslu fyrir PSVR. Til að byrja með er boðið upp á sitjandi og standandi spilun og er alls ekki hægt að mæla með sitjandi upplifuninni þar sem stjórnun er erfið og á köflum ómöguleg.

Standandi upplifun virkar betur en reynir samt mjög mikið á þolinmæði spilarans. Hendurnar fylgja ekki alltaf höndum spilarans, vinstri hendi getur til dæmis birst skyndilega á öxl spilarans þrátt fyrir hönd hans sé niðri. Reglulega dettur karakterinn úr leikjaheiminum, til dæmis endaði ég inni í veggjum, inni í herbergjum sem voru ekki hluti af spilanlegu svæði og óþægilega oft ofan í gólfinu, þar sem höfuðið nær rétt svo upp yfir gólfið og útsýnið er líkt og hjá skordýri. Ofan á þetta gengur stór hluti leiksins út á að opna lása með lyklum eða öðrum hlutum og neitar leikurinn oft að hlýða spilaranum og stoppar hendin á miðri leið svo ekki er hægt að opna lásinn. Líklega tengist þetta takmörkunum PSVR búnaðarins og myndavélarinnar þar sem búnaðurinn nær ekki að skynja hreyfingarnar.

Geislasverðið og Svarthöfði hápunkturinn

Leikurinn er að stórum hluta til upplifun frekar en leikur. Það er að segja spilarinn er mikið í því að opna hurðir, opna lása, ganga á milli staða, hlusta á karaktera tala og skoða söguheiminn. Inn á milli leynist skemmtileg spilun og sker geislasverðið sig þar úr hvað skemmtanagildi varðar. Með geislasverðinu lærir spilarinn að verja sig og drepa óvini – svo er líka bara mjög skemmtilegt að kveikja á sverðinu og sveifla því um eins og brjálæðingur. Í leiknum lærir spilarinn einnig að nota Máttinn (the force) og getur kastað hlutum til og frá og þá er eins gott að passa vel upp á að blómavasi mömmu þinnar eða lítið systkini séu ekki nálægt.

Í leiknum lærir spilarinn einnig að nota Máttinn (the force) og getur kastað hlutum til og frá og þá er eins gott að passa vel upp á að blómavasi mömmu þinnar eða lítið systkini séu ekki nálægt.

Karakterarnir í leiknum eru vel útfærðir og mjög lifandi. Upplausnin í PSVR er ekki jafn góð og í Oculus eða mörgum öðrum sýndarveruleikabúnuðum, svo ef karakter birtist mjög nálægt þér eru dílar greinilegir (pixelated). Svarthöfði er klárlega stjarna leiksins og eru fundir spilarans við Svarthöfða mjög svo eftirminnilegir.

Þarfnast lagfæringar

Leikurinn hefur upp á margt að bjóða, bæði sem leikur og sem upplifun. Tæknilegir örðugleikar í PSVR draga leikinn þó niður og er erfitt að mæla með leiknum fyrr en sá hluti hefur verið lagfærður. Þrátt fyrir það hefur Vader Immortal eitthvað fyrir Star Wars aðdáendur og ef þeir eru að fullu meðvitaðir um áðurnefnda galla og eru tilbúnir að láta þá framhjá sér fara er þess virði að prófa geislasverð og heilsa upp á Svarthöfða.

Hægt er að nálgast ítarlegri umfjöllun um Vader Immortal í 15. þætti Leikjavarpsins.

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑