Leikjarýni

Birt þann 9. nóvember, 2018 | Höfundur: Steinar Logi

Leikjarýni: Red Dead Redemption 2 – „gallað meistaraverk“

Leikjarýni: Red Dead Redemption 2 – „gallað meistaraverk“ Steinar Logi

Samantekt: Einn besti opni leikjaheimur sem gerður hefur verið. Býður upp á yfir 100 klst. í spilun.

4

Góður


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Red Dead Redemption 2 er besti opni leikjaheimur sem ég hef spilað í og margt í honum sem hrífur mann. En hann er gallað meistaraverk og því meira sem þú spilar hann því meira koma gallarnir í ljós. Sagan byrjar vel, þú ert hægri hönd Dutch Van der Linde sem leiðir gengi sem minnir meira á stóra fjölskyldu. Nýlega hafði ránstilraun klúðrast og þið eruð á flótta í snjóbyl. Með þrautseigju lifið þið af, komist á hlýjari slóðir og heimurinn opnast. Fljótlega er hægt að gera það sem maður vill í þessum stóra, flotta heimi og halda áfram með söguna þegar maður vill.

besti opni leikjaheimur sem ég hef spilað í en því meira sem þú spilar hann því meira koma gallarnir í ljós

Ég skrifaði um fyrstu hughrif mín, hvað RDR2 væri glæsilegur leikur og að áherslan á smáatriði gerði mann stundum agndofa. Það helst út allan leikinn og mælt er með að spila þennan leik í mestu mögulegu gæðum. Hann virkar svo lifandi að það hálfa væri nóg; það er alltaf eitthvað að gerast í kringum þig og fólk hefur alltaf eitthvað nýtt að segja. Aukaverkefnin eru skemmtileg og oft skemmtilegri en meginsagan. Tölum aðeins um hana.

Undirritaður fór auðveldlega yfir 60 tíma bara á meginsögunni. Þar af tók um 6 tíma að klára eftirmálann. Það hefði mátt skera söguna niður um einhverja tugi tíma því að mörg verkefnin þjóna litlum tilgangi (líklega hugsuð til að kynna þig fyrir nýjum stað eða kynnast einhverjum persónum betur því að það er alltaf eitthvað skrafað á leiðinni á staðinn) og fylgja of oft sömu formúlu: Það er plan til að ræna einhverju, planið klikkar, þið skjótið einhverja tugi af „vondum“ gaurum. Nær hvert einasta sinn.

Undirritaður fór auðveldlega yfir 60 tíma bara á meginsögunni

Þrátt fyrir að sum atriðin hafi verið skemmtileg þá var þetta yfir heildina frekar lýjandi og samskonar verkefni endurtekin aðeins of oft. Eitt vandamálið er að maður nær ekki samkennd með aðalsöguhetjunum, fólkið þitt er bara ekki nógu viðkunnanlegt. Sú ákvörðun að byggja RDR2 á atburðum sem gerðust fyrir RDR1 virðist valda því að það er ekki eins mikið frelsi í að segja söguna því að við vitum hverjir lifa í RDR1 og nokkurn veginn hvaða stefnu hlutirnir þurfa að taka til að RDR1 gangi upp. Sjálfur var ég löngu búinn að gleyma sögunni í RDR1 og þurfti að rifja hana upp en kannski voru það mistök.

Arthur Morgan, sem þú spilar, er ótrúlega góð skytta, tryggur, duglegur og hjálpsamur þegar kemur að fólkinu í lífi hans. En það er ekkert vandamál fyrir hann að plaffa niður hundruðir manna þ.á.m. löggur og hermenn fyrir kannski nokkra dollara. Þetta lið getur varla skroppið til nágrannans að fá lánaða mjólk án þess að drepa 20 manns á leiðinni. Það er þetta ójafnvægi milli þess sem gerist í leiknum sjálfum og því sem við sjáum í myndskeiðunum sem hráir marga leiki og þ.á.m. þennan. Maður nær aldrei samúð með þessum glæpamönnum sem eiga að vera glæpamenn með hugsjón og vilja bara lifa af í hörðum heimi. Það er samt ákveðin þróun í þessum efnum í átt að aflausn eða „redemption“ söguhetjunnar rétt eins og fyrir John í fyrri leiknum.

Foringi gengisins, Dutch, virkar sem athyglisverð persóna í byrjun, krimmi með hugsjón, fer fljótlega að endurtaka sig og maður verður hreinlega þreyttur á honum og sagan er ekki að standa sig vel í að láta áhorfandann skilja hann betur (og af hverju hann breytist). Sem er synd því hann er í stóru hlutverki í sögunni. Það vantar líka aukapersónur sem stela senunni, kannski sér maður fyrri leikinn í einhverri nostalgíumóðu en ég hafði meira gaman af flestum karakterunum þar.  Tökum „Uncle“ sem dæmi í RDR2, hann á að vera pirrandi gamli gaurinn en fyrir okkur þá er hann bara pirrandi, það er ekkert fyndið eða athyglisvert við hann.

Það vantar líka aukapersónur sem stela senunni

Það eru sams konar vandamál með spilun og í fyrri leiknum, það er of auðvelt að skjóta niður heilu herina með því að hægja á tímanum og það er alltaf nóg af hlutum til að lækna mann eða hlaða „dead eye“ eiginleikann sem leyfir manni að hægja á öllu. Ýmsir möguleikar til að stilla af miðun og fleira hjálpar samt til en stjórnun er samt þunglamaleg. Það hefði verið gaman að sjá Rockstar taka meiri áhættur með spilun og koma með eitthvað nýtt. Kannski leggja meiri áherslu á ótrúlega flótta heldur en að þurfa drepa heilu þorpin.  

Fæstir munu nokkurn tímann klára söguna (hérna er athyglisverð grein frá Forbes um það en fyrri leikurinn var kláraður af aðeins 10%) . Þetta skiptir líklega ekki máli því að maður fær nóg úr leiknum bara með því að klára nokkur verkefni, skoða heiminn og dunda sér (en ef maður heldur áfram með söguna þá eru sumir hlutir sem verða aðgengilegir).

Þó að ég sé harður við söguna sjálfa þá eru flest aksjón-atriðin mjög vel uppbyggð. Tónlistin í þessum senum er mjög góð, flæðið og stílsetningin í verkefnunum lætur manni líða eins og algjörum „badass“. Síðan fær maður einstaka sinnum drápsskot í bíómyndastíl eins og úr gömlu Sam Peckinpah myndunum sem greinilega hefur haft áhrif á Red Dead leikina 

flest aksjón-atriðin mjög vel uppbyggð

Stutt um tónlistina. Leikurinn nær ekki alveg að endurskapa tilfinninguna úr fyrri leiknum þegar maður fer til Mexíkó í fyrsta sinn og undir syngur og spilar Joze Gonsales með lag sitt Far Away því að þá var svona augnablik í leik alveg einstakt, en hann reynir og með fínasta árangri. Það eru mörg góð lög hérna og fólkið í genginu þínu syngur ósjaldan. Raddleikur allra er til fyrirmyndar eins og áður (það sem ég elska rödd Rob Wiethoff sem talar fyrir John Marston) og ekkert við hann að sakast.

Aðeins aftur að stjórnun spilarans. Það er fáránlegt að lenda í vandræðum með að tjóðra hestinn sinn í hvert sinn sem maður kemur í bækistöðvarnar. Einnig hoppar maður ósjaldan yfir staði sem maður ætlaði að fela sig bak við. Þetta er eitthvað sem Rockstar leikirnir þjást af því miður, leikmaðurinn byrjar á einhverju setti af hreyfingum og á erfitt með að bakka úr þeim. Efnahagurinn í leiknum er líka í ójafnvægi, mjög fljótlega fær maður mikinn pening og þarf ekki að hafa áhyggjur af neinum kostnaði eftir það.

Það er fáránlegt að lenda í vandræðum með að tjóðra hestinn sinn í hvert sinn sem maður kemur í bækistöðvarnar

RDR2 hefur það að takmarki að hafa leikinn sem raunverulegastan. Að mörgu leyti er þetta góð ákvörðun og eykur innlifun en þetta getur ollið óþarfa tímaeyðslu. Tökum sem dæmi það að ferðast um. Fljótlega geturðu ferðast samstundis á ákveðna staði frá bækistöðvunum. En þú getur ekki farið til baka, þú verður að ríða til baka eða nota sérstaka vagna sem eru í bæjunum eða farið með lestum á milli staða. Það er mjög algengt að þú sért einhvers staðar á víðavangi, t.d. eftir verkefni, og þarft að koma þér á næsta stað. Maður sættir sig við þetta lengi vel því að heimurinn er svo flottur en svo þegar líður á þá gerir maður sér grein fyrir að mestur tíminn fer oft í að koma sér á milli staða í mjög stórum heimi. Það er hægt að auðvelda sér lífið aðeins með því að fara á veg og virkja „cinematic mode“ og þá fer hesturinn þinn sjálfkrafa á þann stað sem þú merkir. En það er vel hægt að lenda í vandræðum á leiðinni þannig, þú getur komið til baka úr eldhúsinu og séð að hesturinn þinn er dauður og það er einhver að skjóta á þig.

Nóg tuð, það er margt gott um leikinn. Ég hef áður talað um hversu raunverulegur þessi heimur er og áhersluna á smáatriðin. Það er greinilega gífurleg vinna þar á bak við. Það er hrein unun bara að vera í þessum heimi og ríða um eða veiða dýr (útrýmingarhætta var ekki í neinni orðabók á þessum tíma). Það er líka alltaf eitthvað að gerast, hvar sem maður er. Maður fær ekki aðra eins innlifun nema að vera með VR dót á hausnum á sér. Sem dæmi þá er hægt að leita af sjaldgæfum hestum og vopnum, leita uppi dýrafeldi fyrir ný föt eða tösku til að geyma hluti í, eltast við glæpamenn sem mannveiðari, gera verkefni fyrir brjálaða vísindamenn, klára áskoranir sem er mikið af, eltast við fjársjóði og áræðanlega fullt af fleiri hlutum.

Það er greinilega gífurleg vinna á bak við leikinn

Þrátt fyrir alla gallana þá finnst mér þessi leikur mjög góður og það vantar bara aðeins herslumuninn til að hann teljist meistarastykki. Þú færð óneitanlega mjög mikið úr honum, vel yfir 100 tíma ef þú ákveður að nýta allt sem leikurinn hefur upp á að bjóða og sú tala gæti margfaldast fyrir suma þegar Red Dead Online hlutinn opnast (mér skilst að beta-prófanir byrji í þessum mánuði).

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑