Menning

Birt þann 19. september, 2018 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Íslenskur ævintýraleikur og sýndarveruleiki til umfjöllunar í kvöld

Leikjasamfélagið Game Makers Iceland stendur fyrir röð kynninga á íslenskum leikjafyrirtækjum. Að þessu sinni munu leikjafyrirtækin Myrkur Games og Aldin kynna starfsemi sína og verkefni. Kynningarnar hefjast kl. 19:00 í kvöld, þann 19. september, í Innovation House (Eiðistorgi) og eru opnar öllum sem hafa áhuga á því að kynnast íslensku leikjasenunni betur.

Halldór S. Kristjánsson, framkvæmdastjóri og meðstofnandi Myrkur Games mun fjalla um The Darken, sem er ný leikjasería sem fyrirtækið vinnur að um þessar mundir. Fyrirtækið hefur meðal annars fjárfest í motion capture búnaði sem verður notaður við gerð leiksins. Í leiknum The Darken fer spilarinn með hlutverk hetjunnar Ryn sem þarf að taka afdrifaríkar ákvarðanir í leiknum sem hafa bæði áhrif á gang sögu leiksins og leikjaseríunnar í heild sinni. Þeir sem voru á Midgard ráðstefnunni um helgina gátu í fyrsta sinn fengið að prófa brot úr leiknum, en hann er væntanlegur árið 2021.

Hrafn Þorri Þórisson, framkvæmdastjóri og Steinn Valgarðsson framkvæmdastjóri tæknisviðs og meðstofnendur Aldin munu kynna fyrri verk fyrirtæksins og segja frá sýndarveruleikatitli sem er væntanlegur. Aldin er íslenskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í sýndarveruleika og var stofnað árið 2013.

Við hvetjum alla áhugasama til að mæta í kvöld og fjölmenna! Nánari upplýsingar má finna á Facebook-svæði viðburðarins.

Mynd: Game Makers Meetup

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑