Fréttir

Birt þann 16. apríl, 2018 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Sumer kominn á Switch – „rétti platforminn fyrir Sumer“

Í desember síðastliðnum var tilkynnt á Facebook-síðu leiksins að Sumer væri væntanlegur á Nintendo Switch og þann 5. apríl lenti leikurinn svo á hina geysivinsælu leikjatölvu frá Nintendo.

Leikurinn Sumer eftir Sigurstein J Gunnarsson og Studio Wumpus er nú fáanlegur á Nintendo Switch leikjatölvuna. Leikurinn, sem hefur verið í vinnslu bæði í New York og á Íslandi, fór í gegnum Kickstarter fjármögnunarferli árið 2016 þar sem hundruði fjárfesta komu að fjármögnunni. Sumer var gefinn út á Steam Early Access í fyrra en verið er að vinna við að bæta netspilunarvirkni við leikinn og eftir það mun leikurinn teljast alveg útgefinn. Í desember síðastliðnum var tilkynnt á Facebook-síðu leiksins að Sumer væri væntanlegur á Nintendo Switch og þann 5. apríl lenti leikurinn svo á hina geysivinsælu leikjatölvu frá Nintendo.

Fyrir þá sem ekki þekkja til Sumer þá er um að ræða leik sem er hannaður eins og borðspil á borð við Catan eða Ticket to Ride en er tölvuleikur þar sem hraði og lagni helst í hendur við herkænsku og hugsun. Sumer er fyrir einn til fjóra leikmenn þar sem spilarar þurfa að safna byggi og geitum, fórna þeim til guðanna og þá mun gyðjan Inanna krýna klókasta prestinn sem leiðtoga hins forna Sumer.

„Um leið og við sáum auglýsingarnar fyrir Switch og áherslur þeirra á að spila saman með fjölskyldu og vinum þá vorum við vissir um að það væri 100% rétti platforminn fyrir Sumer.“

Það er sjaldséð að íslensk leikjahönnun rati á Nintendo leikjatölvu og spurðum við Sigurstein þess vegna að því hvers vegna Switch varð fyrir valinu. „Um leið og við sáum auglýsingarnar fyrir Switch og áherslur þeirra á að spila saman með fjölskyldu og vinum þá vorum við vissir um að það væri 100% rétti platforminn fyrir Sumer. Þegar einn í teyminu var síðan úti í Japan að sýna leikinn á hátíð þá vildi svo heppilega til að Nintendo básinn var á móti okkar bás. Þeir frá Nintendo komu og prófuðu leikinn og vildu endilega hjálpa okkur við að setja hann á Switch. Við settum þá strax pásu á vinnu í netspiluninni og byrjuðum vinnu á Switch útgáfunni.“ segir Sigursteinn.

Að sögn Sigursteins er ólíklegt að Studio Wumpus muni gefa út fleiri leiki í bili þar sem teymið er dreift út um allan heim. „Ég er hinsvegar að vinna með Torfa Ásgeirssyni í Tasty Rook. Við gáfum út Triple Agent í fyrra og svo er von á nýjum partíleik frá okkur snemmsumars. Síðan er stefnt á smá frí og fæðingarorlof, sem er kærkomið, enda mikið púl að gefa út leik, hvað þá tvo með svona stuttu millibili.“

Við óskum Sigursteini og Studio Wumpus til lukku með Switch útgáfuna.

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑