Birt þann 2. febrúar, 2018 | Höfundur: Magnús Gunnlaugsson
Leikpeð mánaðarins – Kristín Guðmundsdóttir „eftirminnilegast að spila með Richard Garfield“
Kynning
Hvað gerir þú í daglegu amstri?
Ég er tölvunarfræðingur og vinn við vefforritun. Ég er líka sjálfstæður þýðandi fyrir fyrirtæki sem sér um texta fyrir DVD, BluRay og Netflix. Auk þess að vera hluti af Kvasir Games, sem hannar og þróar borðspil og tölvuleiki í frístundum.
Hver voru þín fyrstu kynni af borðspilum?
Ætli það hafi ekki verið eitthvað eins og Ludo eða Slönguspilið? Ég veit bara að ég hef alltaf sóst í að spila spil og þegar ég var yngri elskaði ég Escape from Atlantis, Trivial Pursuit og Cluedo. Spilaði einmitt Cluedo með bestu vinkonu minni svo gott sem á hverjum degi eftir skóla í heila önn. Ég og þessi sama vinkona spiluðum svo Catan heilt kvöld og heila nótt bara tvær saman þegar það var gefið út á Íslandi. Og tókum ekkert eftir því að kassinn sagði spilið einungis vera fyrir 3-4 leikmenn!
Ég fór ekki að líta á borðspil sem stóran hluta af áhugamálum mínum fyrr en ég flutti út til Danmerkur til að læra leikjahönnun. Þar var ég skyndilega umkringd fólki sem hugsaði um leiki og spil eins og ég og þá fyrst fóru hjólin að snúast.
Hvar namstu nám í leikjahönnun, hvað felst í slíku námi og út á hvað gengur leikjahönnun?
Ég lærði við IT-University of Copenhagen, frekar lítinn háskóla í Kaupmannahöfn. Námið sem heild heitir bara Games og skiptist í leikjahönnun, leikjaforritun og leikjagreiningu. Ég var á leikjahönnunarlínunni þar sem áherslan er augljóslega lögð á hönnun leikja, en einnig heildstæða mynd af tölvuleikjagerð. Námið sem slíkt er miðað að tölvuleikjum, en það er auðvitað ótrúlega margt sem er sameiginlegt með hönnun hvoru tveggja stafrænna og ‘analog’ leikja. Við gerðum allt frá því að forrita litla leiki frá grunni, vinna leiki í hópum með fólki af hinum línunum, skoða og greina gamla sem nýja leiki og læra að prófa leiki og læra af niðurstöðunum.
Leikjahönnun sem svið er afskaplega breitt og þýðir eiginlega bara það sem hver telur það þýða, en í grófum dráttum snýst hún um að búa til grind að leik á einhvern hátt. Það er hægt að gera á margan hátt, t.d. að taka eitthvert gangverk og byggja á því, að finna eitthvað þema og tvinna gangverk saman út frá því, taka uppáhaldsleikinn sinn og breyta því sem manni finnst vanta og hinn heilagi gral – að finna upp nýja tegund af gangverki eða í það minnsta nýta gangverk á alveg nýjan hátt.
Leikvenjur
Uppfærirðu spilin þín á einhvern máta. T.d með því að setja spil í plastavasa, uppfæra leikmuni eða annað slíkt. Endilega nefndu dæmi.
Ef að spilið inniheldur mikið af spilum sem oft þarf að stokka er algjör nauðsyn að setja þau í plastvasa. Ég hef verið á höttunum eftir nýjum honor tokens fyrir Ascension, það voru mikil vonbrigði að Collector’s Edition innihélt bara sömu gömlu standard leikmunina.
Planið er að setja alvöru tölur í Patchwork, svo dreymir mig stundum um að búa til einhverja flotta leikmuni sjálf, en það er einn af þessum hlutum sem ég finn aldrei tíma fyrir.
Hversu oft spilarðu í viku/mánuði. Skráirðu spilanirnar þínar t.d hvort þú sigraðir eður ei?
Það er rosalega breytilegt en ég reyni að spila eitthvað í hverri viku. Ég er ekki í neinum ákveðnum spilahópum en fer oft heim til vina að spila eða á Bastard Café, borðspilakaffihúsið hér í Kaupmannahöfn, með alls konar mismunandi fólki. Svo hittumst við í Kvasir Games í Tabletop Simulator til að spila, þar sem við búum í 5 mismunandi borgum. Ég skrái engar spilanir – það myndi ekki þjóna miklum tilgangi þar sem ég tapa nánast alltaf þegar ég spila!
Áttu einhver Print ‘n’ Play spil eða viðbætur við spilin þín?
Ekki print ‘n play, en ég á Return of the Fallen viðbótina við Ascension – auk fullt af promos sem fylgdu með spilinu. Svo á ég High Bohn og Napoleon Bohnaparte viðbæturnar við Bohnanza. Líka alls konar promos með öðrum spilum – svo margt slíkt í boði á Spiel í Essen.
Ertu meðlimur á Boardgamegeek, ef svo er, viltu deila með okkur spilsafninu þínu?
Ég er meðlimur þar en nota það svo sjaldan að ég man ekki einu sinni notendanafnið mitt. Nota síðuna oftast bara sem uppsláttarrit, ekki til að halda utan um mitt eigið safn, svo stórt er það heldur ekki.
Fékkstu einhver spil í jólagjöf?
Nei, ekki einu sinni frá sjálfri mér! Þvílíkur skandall.
Uppáhalds spil
Hvaða spil er mest í uppáhaldi/mest spilað þessa daga?
Champions of Midgard með The Dark Mountains og Valhalla viðbótunum. Sem stendur er þetta algjörlega skemmtilegasta worker placement spil sem ég hef prófað. Nýjabrumið hefur eflaust sitthvað um það að segja, en ég tifa alveg af tilhlökkun að fá að spila það meira. Ég á það reyndar ekki sjálf, en það er allra efst á óskalistanum.
Mér finnst fólk almennt ekki festast í þeirri stöðu að geta ekkert gert til að koma sér áfram – sem er viðvarandi vandamál í mörgum worker placement spilum.
Hvaða spil í safninu þínu værirðu til í að spila oftar en þú raunverulega gerir?
Eiginlega öll. Vandamálið við að hafa aðgang að Bastard Café og eiga vini sem eiga ofboðslega mörg spil er að ég spila sjaldnast mín eigin spil. Þau eru nefnilega alltaf þarna svo það er meira spennandi að spila þau sem ég á ekki þegar tækifæri gefst. En ætli Ascension standi samt ekki hæst – ég fæ bara ekki leið á því.
Hvaða spil finnst þér vera einstaklega vel hannað frá leikjahönnunarlegu (e. Game Design) sjónarmiði og hvers vegna?
Istanbul er það spil sem mér finnst standa upp úr öðrum spilum á þessu sviði, því það virkar svo vel á heildina. Það er hvoru tveggja gott fyrir fólk sem hefur ekki spilað mikið af worker-placement spilum og líka þá sem elska það gangverk. Það sem mér finnst sérstaklega skemmtilegt er að þú getur ekki bara sett peðin þín hvar sem er – þú verður að hugsa út hvaða leið þú ferð að þeim reitum sem þú vilt enda á, þar sem þú mátt ekki bara færa peðin stök. Þemað – sem gæti reyndar verið hvað sem er – er líka svo vel tvinnað inn í spilið og grafíkin passar mjög vel við það. Svo eru líka svo margar leiðir til að vinna spilið, sérstaklega þegar viðbæturnar eru með.
Besta umsögnin sem ég get gefið því – leikjahönnunarlega séð – er í rauninni það að ég er alltaf til í að spila það og fæ ekki leið á því. Það á alls, alls ekki við um öll spil.
Áttu þér uppáhaldsþema í borðspili?
Ekkert uppáhaldsþema svo sem, en mér finnst mjög mikilvægt að það þema sem spilið hafi sé gegnumgangandi í spilinu. Að það sé ekkert sem passar ekki inn í það og að grafíkin passi við þemað sem er valið.
Hvert er þitt uppáhalds gangverk (e. Mechanic) í borðspili?
Ég er mjög hrifin af worker-placement spilum, eins og sést eflaust á öðrum svörum mínum, hvort sem er samvinnu eða samkeppni.
Hefur þú kickstartað einhverjum spilum?
Ég hef ekki kickstartað neinu, en ég gaf út spilið Wanted: Igor! með Kvasir Games fyrir nokkrum árum. Það var ótrúlega lærdómsrík reynsla. En ég geng alltaf með einhverjar spilahugmyndir í höfðinu, hver veit nema kickstart á einni slíkri verði næsta tilraun.
Hraðaspurningar
Spurningar | Svör |
Þema eða gangverk? | Þema |
Samvinna eða samkeppni? | Samvinna |
Lárett eða lóðrétt geymsla á spilum? | Fer alveg eftir spilinu. Ef það eru spil í standard-stærð þá lóðrétt, en minni spil hef ég til dæmis lárétt í stafla. |
Eurospil eða Ameritrash? | Eurospil |
Stutt eða löng spil? | Meðallöng – frekar í áttina að stuttum en löngum. |
Codenames vs Codenames:Pictures? | Best að blanda saman |
Splendor vs Century Spice Road | Hef ekki prófað Century Spice Road en elska Splendor |
7Wonders vs 7Wonders: Duel? | 7 wonders: Duel |
Enn fleiri spurningar og svör!
Fylgistu með einhverjum youtube rásum sem fjalla um spil eða hlustar þú á spilatengd hlaðvörp?
Nei, er hvorki mikið fyrir youtube rásir né hlaðvörp almennt. En ég er svo heppin að ég fer bara í heimsókn til Tómasar vinar míns og ég fæ yfir mig allar þær upplýsingar um spennandi nýjungar í borðspilaheiminum sem ég gæti óskað mér. Það er afskaplega þægilegt og þýðir að meira af dýrmætum frítíma mínum fer í að spila spilin, frekar en að kynna mér þau.
Hver er eftirminnilegasta spilaupplifunin þín?
Það er þegar ég spilaði Mussades og Wanted: Igor – hvoru tveggja spil sem ég hannaði með Kvasir Games – með engum öðrum en Richard Garfield. Frekar súrrealísk en ótrúlega skemmtileg upplifun. Hann var hrifinn af þeim, sérstaklega Mussades, og hrósaði ýmsum ákvörðunum sem við höfðum tekið við gerð þess. Og svo áritaði hann ‘Magic Mirror’ spil úr Mussades-eintakinu sem hann spilaði og fannst nafnið mjög viðeigandi fyrir áritun.
Reiner Knizia stóð í bakgrunninum á meðan við spiluðum – en hann vildi ekkert spila, bara tala um sín eigin spil :D.
Í öðru sæti væri þegar ég spilaði Mussades með Eric Hautemont – stofnanda og forstjóra Days of Wonder – fyrir margt löngu. Honum fannst það mjög skemmtilegt en sagði að hans álit segði lítið því hann spilaði eiginlega aldrei nein spil. Ég á erfitt með að tengja höfuð Days of Wonder við enga spilalöngun!
Spurningar frá Emblu Vigfúsdóttir, síðasti Leikpeði
Hvað finnst þér um jafnvægi milli kynjanna í spilaheiminum í dag? (Bæði hvað varðar spilahönnun/grafík og sjálfa spilamenninguna)
Borðspilaáhugamálið sem heild er afskaplega opið fyrir hverjum sem er og þau sem það stunda eru yfirleitt mjög opin fyrir að hleypa nýju fólki inn. Það er t.d. ótrúlega gaman að horfa yfir salinn á Bastard Café og sjá fjölbreytnina. Fólk af öllum stærðum, gerðum, týpum og kynjum samankomið til að skemmta sér. Það er ekki í mörgum áhugamálum þar sem hægt er að sjá jafn ótrúlega ólíka hópa hlið við hlið, t.d. fjölskyldu með lítil börn, hóp af goth fólki og fólk í jakkafötum, í sátt og samlyndi við sömu iðju. Fólk er líka að verða opnara og opnara með óviðeigandi hegðun í spilahópum – hvort sem er lokuðum hópum eða opnum spilakvöldum. Og jafnframt duglegra við að tækla slíka hegðun – að segja þeim sem eru með hina sívinsælu farðu-bara-í-eldhúsið-og-búðu-til-samloku brandara og annað slíkt að halda sig á mottunni.
Á sama tíma eru ennþá fleiri karlmannsnöfn viðloðandi grafíkina og hönnunina – topp 25 hönnuða listinn á BGG árið 2017 – tekinn saman eftir mati á spilum – inniheldur til dæmis nákvæmlega 0 konur. Þar er heldur betur breytinga þörf.
Nú hefur þú tekið þátt í ófáum „GameJams“, geturðu sagt okkur aðeins frá þinni reynslu af því?
GameJams – eða leikjasamsuður – eru afskaplega skemmtileg fyrirbæri. Þar hittist fólk í ákveðinn tíma og býr til leiki saman: Tölvuleiki, borðspil eða bara hvoru tveggja. Vinsælasta tímalengdin er 48 klst, þá oft frá miðjum degi á föstudegi og til sunnudagseftirmiðdags. Spilin tvö sem ég hef gert með Kvasir Games gerðum við einmitt á Nordic Game Jam, Mussades árið 2012 og Wanted: Igor! Árið 2013.
Það er mjög hvetjandi að taka þátt í svona atburðum og að vera umkringd fólki sem er að gera það sama og þú. Loftið verður eiginlega mettað skapandi hugsunum og heilinn fer alveg á fullt með nýjar hugmyndir. Þetta þjálfar fólk líka í að nýta sér hraðfrumgerðir, ef það fær hugmynd er henni tjaslað saman þangað til hægt er að prófa hana og svo haldið áfram ef það virkar. Þetta kemur í veg fyrir að hópar hjakki í sama farinu, enda enginn tími til annars en að henda hugmyndum sem virka ekki alveg og snúa sér að næstu.
Það eru ýmis trikk notuð við slíkt, eins og að hafa eitthvað spil í plastvasa og setja bara litla miða með sem segja hvað spilið sé. Þá er lítið mál að breyta því sem stendur eða bæta við upplýsingum meðan prófað er og þróað áfram. Þetta er stærsti kosturinn við að velja að búa til borðspil frekar en tölvuleik – það er hægt að prófa hlutina svo miklu hraðar á pappír en í kóða.
Ég hef reyndar verið meira í að skipuleggja atburði en að taka þátt í þeim upp á síðkastið. Ég stýrði borðspilalínunni á Nordic Game Jam á árunum 2013 – 2016 og er einn stofnenda PapJam, sem er eingöngu fyrir gerð borðspila. Skemmtilegast finnst mér að vera skipuleggjandi og fylgjast með fólki sem aldrei hefur búið til borðspil áður uppgötva hvað það er skemmtilegt og lítið mál. Það skiptir engu máli hvort einhver þátttakendanna búi til næsta Spiel des Jahres, þetta snýst bara um að finna nýjan vinkil á áhugamálinu til að skemmta sér og öðrum við.
Að lokum
Það var skemmtilegt að fá tilefni til smá naflaskoðunar um áhugamálið! Ég tilnefni félaga minn og spilanörd Sigurstein J. Gunnarsson sem næsta Leikpeð. Og spyr að eftirfarandi:
- Nú hefur þú hvoru tveggja kickstartað borðspili og gefið út tölvuleik, hvað er líkt með hönnunar- og framleiðsluferlinu og hvað er ólíkt?
- Hvernig myndirðu lýsa borðspilahönnunarsenunni á Íslandi (ef einhver slík er til staðar)?