Birt þann 8. janúar, 2018 | Höfundur: Nörd Norðursins
Bestu tölvuleikir ársins 2017
Helstu tölvuleikjasérfræðingar Nörd Norðursins, þeir Bjarki Þór Jónsson, Daníel Rósinkrans, Steinar Logi Sigurðsson og Sveinn Aðalsteinn Gunnarsson, fóru yfir leikjaárið sem var að líða og tóku saman þá fimm leiki sem stóðu upp úr árið 2017 að þeirra mati.
Einnig er hægt að nálgast lista yfir topp 5 tölvuleiki árið 2017 að mati Nörd Norðursins, en hann byggir á neðangreindum niðurstöðum.
5. What Remains of Edith Finch
Stuttur en söguríkur leikur sem leggur áherslu á frásagnarformið frekar en hefðbundna tölvuleikjaspilun. Leikurinn er ljóðrænn og bíður upp á sögu sem nær að snerta á öllum tilfinningaskalanum. What Remains of Edith Finch nær að notfæra sér sérkenni tölvuleikja vel sem frásagnarform þar sem spilarinn fær að spila sig í gegnum söguna í heild sinni á frumlegan og skemmtilegan hátt.
> Lesa gagnrýnina
4. Little Nightmares
Little Nightmares er einstaklega drungalegur hopp- og skoppleikur sem minnir á leiki á borð við Limbo og Inside frá Playdead. Í leiknum spilar maður krakka sem hefur ekki roð í þann hrylling sem hefur umkringt hann. Spilun leiksins byggir að mestu á að fela sig og flýja ófreskjur, sem fá kalt vatn til að renna milli skinns og hörunds. Stíllinn í leiknum er skemmtilega öðruvísi og einkennist svolítið af höfundarverkum kvikmyndaleikstjórans Tim Burtons.
> Lesa gagnrýnina
3. Hellblade: Senua’s Sacrifice
Átakanlegur leikur sem kemur með ferskan blæ í leikjaheiminn. Söguþráður leiksins tengist norrænni goðafræði þar sem spilarinn fær meðal annars að berjast við Surt og Fenrir sem fólk ætti að þekkja úr Snorra Eddu. Það sem gerir þennan leik þó einstakan eru þau andlegu veikindi sem aðalpersóna leiksins glímir við í gegnum leikinn þar sem hún tekst meðal annars á við ofskynjanir og innri raddir. Algjört möst að spila þennan með góðum heyrnartólum.
> Lesa gagnrýnina
2. Resident Evil 7: Biohazard
Leikurinn sem ég elskaði og um leið kveið fyrir að spila. Einn besti hryllingsleikur sem ég hef spilað í langan tíma. Andrúmsloftið í leiknum er einstaklinga drungalegt og bregðuatriðin rosaleg. Þetta er leikur sem fékk mig til að taka reglulegar pásur eingöngu til að jafna mig og ná andanum. Leikurinn býður auk þess upp á upplifun í sýndarveruleika sem er skemmtileg viðbót, en ekki fyrir alla.
> Lesa gagnrýnina
1. The Legend of Zelda: Breath of the Wild
Ótrúlega vel heppnaður ævintýraleikur sem auðvelt er að gleyma sér í. Í nýjasta Zelda leiknum er að finna risavaxinn heim fullan af ævintýrum og áhugaverðum karakterum. Það sem heillaði mig sérstaklega við leikinn er stemningin sem leikurinn nær að skapa með einkennandi teiknimyndastíl og einfaldri, en þó krefjandi, spilun. Ofan á virkilega vel heppnaða útfærslu er leikurinn mjög endingargóður með tugi klukkutíma í spilun.
> Lesa gagnrýnina
Aðrir leikir sem vert er að nefna en komust ekki á listann: Horizon Zero Dawn og Night in the Woods og mögulega Assassin’s Creed Origins.
5. Horizon: Zero Dawn
Eftir að Guerilla Games hættu að einblína á Killzone leikjaseríuna og fóru að hanna Horizon: Zero Dawn gerðist eitthvað töfrum líkast. Horizon er klárlega einn fallegasti, ef ekki flottasti, leikurinn sem 2017 hafði upp á að bjóða. Ekki skemmir að hann skarti skemmtilega persónu, hana Aloy, sem gaman er að fylgjast með frá upphafi til enda. Frábært framtak hjá Guerilla Games! Vonandi fáum við að sjá meira úr Horizon heiminum.
> Lesa gagnrýnina
4. What Remains of Edith Finch
Frá þeim sömu og færðu okkur Unfinished Swan kom út hjartnæm saga er nefnist What Remains of Edith Finch. Leikurinn segir frá einum meðlimi úr Finch fjölskyldunni sem kemst að hrottalegum atburðum sem hrellir þessa einstaka fjölskyldu. Leikurinn er einstaklega vel hannaður og er söguþráðurinn í sérflokki þar sem allur tilfinningarskalinn er vel nýttur á einstakan hátt.
> Lesa gagnrýnina
3. Super Mario Odyssey
Super Mario er mættur aftur eftir langa fjarveru í nýju ævintýri. Odyssey er þrælskemmtilegur þar sem spilarinn heimsækir ólíka heima í leit að ofur-tunglum til þess að stöðva Krók kóng sem ætlar sér að giftast Peach prinsessu. Hér er á ferðinni einn skemmtilegasti leikur ársins sem svíkur enga aðdáendur 3D hopp og skopp leikja.
> Lesa gagnrýnina
2. Hellblade: Senua’s Sacrifice
Ef það er einhver leikur sem á eftir að hreyfa við spilurum þetta árið, þá gerir það enginn betur en Hellblade: Senua’s Sacrifice. Hér fara spilarar í hlutverk Senua sem glímir við alls kyns geðræn vandamál og er það hlutverk leiksins að tengja spilarann og Senua saman. Hann gerir það einstaklega vel og situr hann lengi eftir í huga manns eftir að leiknum er lokið.
> Lesa gagnrýnina
1. The Legend of Zelda: Breath of the Wild
Nintendo hafa tekist að skapa eina skemmtilegasta veröldina í sögu Nintendo sem vert er að skoða hvern einasta krók og kima. Breath of the Wild minnir mikið á einn stóran sandkassaleik þar sem spilurum er verðlaunað fyrir grandskoða allt og vill svo skemmtilega til að goðsögnin Zelda var þemað fyrir þetta frábæra ævintýri.
> Lesa gagnrýnina
Fleiri leikir sem eiga skilið athygli þína: Resident Evil 7, Nioh, Prey og Wolfenstein 2: The New Colossos
5. Resident Evil 7 / Evil Within 2
Ég byrja með smá svindli og set tvo leiki í 5. sæti því að þeir eru líkir að ýmsu leyti og þeir ná upp því andrúmslofti og spilun sem maður vonast eftir frá hágæða „survival horror“ leikjum. Góð grafík, sannfærandi raddleikur og tempó sem sleppir þér ekki við fyrstu spilun. RE7 gerir þetta á mjög góðan hátt en til að ná sömu upplifun í Evil Within 2 (sem vill gleymast í leikur ársins umræðunni vegna þess að sá fyrsti olli vonbrigðum) þarf maður að hafa erfiðleikann stilltan á a.m.k. „survival“. Eins og í mörgum fyrri Resident Evil leikjum þá er mikið af spennunni fólgið í því að vera við það að vera vopnlaus ef maður passar ekki uppá hverja einustu byssukúlu. Þú hefur minni stjórn á hvernig leikurinn þróast í RE7 en hann nær að halda þér í greipum sínum og það eru nokkur virkilega hræðileg augnablik. Síðan bjóða báðir leikirnir uppá það að vera algerlega óstöðvandi í „New game plus“ og virkilega hefna þín á skrímslunum sem hræddu þig svona illilega!
> Lestu gagnrýnina
4. Prey / Horizon Zero Dawn
Annað svindl! Ég set þessa saman því að þeir eru þeir bestu í sinni leikjategund þetta ár. Prey er Bioshock-tegund leiks þar sem þú ert í brengluðu samfélagi og lærir smátt og smátt hvernig það virkar með því að safna upplýsingum og fylgja söguþræðinum. Þú hefur ýmsa krafta, bæði veraldlega og yfirnáttúrulega. Horizon Zero Dawn er hins vegar Assassins Creed / Far Cry tegund leiksins þar sem þú ert í stórum og mjög svo fallegum heimi, iðandi af lífi og getur fylgt sögunni eða safnað alls konar hlutum og leyst aukaverkefni. Báðir leikirnir byggja á leikjategundum sem hafa reynst vel en með sínum eigin sérkennum og viðbótum sem gerir þá skemmtilega afspilunar.
> Lestu gagnrýnina
3. Nioh
Dark Souls leikirnir eru í miklu uppáhaldi hjá mér og því hallast ég að leikjum sem minna á þá. Nioh gerist á tímum japanskra stríðsherra og fangar þá stemmningu mjög vel á listrænan hátt. Leikurinn snýst um að berjast stanslaust í gegnum heri af skrímslum með ýmsum tegundum vopna og í sönnum Dark Souls stíl þá mætirðu eftirminnilegum stórskrímslum sem krefjast bardagakænsku til að sigrast á. Hérna er líka eitthvað fyrir spilara sem vilja áskorun.
> Lestu gagnrýnina
2. Hellblade: Senua’s Sacrifice
Það er alltof sjaldgæft að leikir taki áhættur og eins og sést á leikjum ársins þá fylgja þeir flestir ákveðnum formúlum. Hellblade tekur aðeins öðru vísi pól í hæðina og leggur áherslu á hvernig heimurinn lítur út með augum aðalsöguhetjunnar sem þjáðist af geðrofa. Til þess hafa þeir fengið til sín sérfræðinga í þessum málum og byggja sjónræna hlutann að miklu leyti á því. Hellblade lítur fáránlega vel út og ég myndi setja hann á sama stall og Horizon Zero Dawn en ólíkt honum er hann minni í sniðum þ.e.a.s. hann er uppbyggður eins og AAA leikur en kostar minna. Þetta endurspeglaðist í verðinu og Hellblade var seldur á 30$ í stað 60$ sem verður vonandi ekki einsdæmi því að það er alveg pláss á markaðinum fyrir svona leiki þar sem maður þarf ekki að safna hundrað aukahlutum eða sinna ótal aukaverkefnum. Hellblade er ekki fullkominn hvað varðar spilun en sagan, sjónræni hlutinn og frumleikinn setja hann ofarlega á lista hjá mér.
> Lestu gagnrýnina
1. Nier: Automata
Frumleiki er eitthvað sem er ofarlega á lista hjá mér þegar ég tek saman leiki ársins. Maður er búinn að spila tölvuspil í þó nokkur ár og maður vill spila eitthvað sem kemur manni á óvart. Nier Automata er leikur sem er ólíkur öllu öðru sem maður hefur spilað. Auðvitað fær hann lánað úr ýmsum áttum eins og allir leikir gera að einhverju leyti en það er hvernig þetta er sett saman og sú staðreynd að hann fær lánað úr svo mörgum tegundum leikja og setur saman í eina frábæra heild sem gerir hann einstakan. Eitt það merkilegasta við hann er að maður þarf að klára hann þrisvar sinnum til að fá alla söguna og á einhvern ótrúlegan hátt þá er hver spilun ný upplifun (vegna þess að maður spilar ólíkar persónur).
> Lestu gagnrýnina
Leikir sem rétt misstu af: Persona 5 sem er mjög einkennilegt því að líklega spilaði ég hann lengst af öllum leikjunum enda er leikurinn sjálfur góðar 100 stundir ef maður tekur sinn tíma. Frábær leikur en manni finnst maður hafa verið smá snuðaður í lokin þegar maður sér hversu langan tíma maður spilaði og óneitanlega líður manni dáldið eins og hamstri í hamstrahjóli. Wolfenstein 2 er mjög góður líka en of líkur fyrri leiknum til að komast hærra á listann. Star Wars Battlefront 2 (nei, djók).
Leikir sem ég spilaði ekki en hefðu kannski lent á listanum útfrá mínum smekk: What Remains of Edith Finch, Assassin’s Creed Origins. Kannski Cuphead.
5. What Remains of Edith Finch
Leikur sem ég lét fara fram hjá mér fara nærri allt árið 2017. Vegna spennandi gagnrýni hans Daníel Rósinkrans hérna á síðunni og áliti annara ákvað ég að hoppa á hann um jólin. Ég vissi lítið hverju ég átti von á og það var eimmit það sem maður þarf þegar svona leikir eru spilaðir. Að fara í gegnum dularfulla sögu og harmleiki Finch ættarinnar var sérstök leið að enda árið. Fyrir þá sem hafa haft gaman af leikjum eins og Dear Esther, What Happened to Ethan Carter, Everybody’s Gone to the Rapture ofl, þá ætti þessi að hitta í mark.
> Lestu gagnrýnina
4. Assassin’s Creed: Origins
Leikurinn er það spark í rassgatið sem AC serían þarfnaðist. Eftir að hafa nærri blóðmjólkað seríuna til bana ákvað Ubisoft að taka lengri tíma í vinnslu leiksins og ég vona að þeir hætti hinu árlega útgáfumódeli eftir þetta. Líkt og í nýja Zelda leiknum, þá var heimur AC opnaður upp með Origins. Að fara til Egyptarlands var eitthvað sem ég var búin að vonast eftir lengi, og að bæta við RPG hlutum við leikinn var vel þegið. Bayek var síðan viðkunnarleg persóna og að einblína á hans sögu og uppruna Assassin reglunnar var góð hugmynd. Hvað Ubisoft gerir næst eftir góða sölu og dóma Origins ætti að verða forvitnilegt.
3. The Legend of Zelda: Breath of the Wild
Þessi er eitthvað það óvæntasta sem ég hef séð Nintendo gera í langan tíma. Að opna upp heiminn og spilun leiksins fyrir fólk frá byrjun er eitthvað sem margir hefðu seint búist við. Leikurinn er erfiður, ergjandi, fyndinn, óvæntur, heillandi og hirti af mér klukkutímana eins og ekkert væri. Líklega eini gallinn sem ég fann var saga leiksins, sem var veikasti hlutur hans. Ég er spenntur að sjá hvaða ævintýri bíða Link í næsta leik.
> Lestu gagnrýnina
2. Horizon Zero Dawn
Ný leikjasería frá hollenska fyrirtækinu Guerilla Games sem hingað til hafa verið þekktir fyrir Killzone skotleikina. Svo þegar ég heyrði að það væri að koma opinn „sandbox“ RPGleikur frá þeim þá var ég mjög skeptískur. Ég þurfti ekki að hafa miklar áhyggjur vegna þess að leikurinn reyndist betri en ég þorði að vona. Hinn gullfallega og eyðilagða framtíð sem er í Horizon er eitt af því flottasta sem ég spilaði á árinu sem var að líða og saga leiksins um Aloy var virkilega góð. Raddleikkonan Ashley Burch á mikið hrós fyrir hennar leik.
> Lesa gagnrýnina
1. Hellblade: Senua’s Sacrifice
Leikur sem ég fylgdist með framleiðslunni í gegnum YouTube myndbönd framleiðandans Ninja Theory. Það heillaði mig strax að þeir voru að tækla efni sem tölvuleikir hingað til hafa lítið snert á. Ekki sakaði heldur að þeir voru að vinna með geðheilbrigðis samtökum í Bretlandi og fólki sem hefur upplifað slíka hluti. Þó að spilun leiksins var kannski einföld á köflum, var það persona Senua, sem Melina Juergens ljáði rödd og andlit sitt sem lét mig falla fyrir leiknum. Þetta er kannski ekki leikur fyrir alla, en fyrir þá sem hafa átt við geðræn vandamál eða þekkja fólk sem slíka sjúkdóma þá býður leikurinn upp á alveg sérstaka reynslu/upplifun
> Lestu gagnrýnina
Leikir sem rétt misstu af: Prey, Nier: Automata, Super Mario: Odyssey, Wolfenstein II: The New Colossus, Uncharted: The Lost Legacy, Football Manager 2018.
Leikurinn sem olli mér mestu vonbrigðum: Mass Effect: Andromeda.