Leikjarýni

Birt þann 1. nóvember, 2016 | Höfundur: Steinar Logi

Leikjarýni: XCOM 2 (PS4)

Leikjarýni: XCOM 2 (PS4) Steinar Logi

Samantekt: Snilldarleikur sem dregst niður vegna tæknilegra vandamála á PS4

3.5

Gamli skólinn


XCOM 2 kom út fyrir PC, OS X og Linux febrúar þetta ár en í september sl. kom  hann fyrir PS4 og Xbox One. XCOM serían hefur langa sögu en var endurvakin með góðum árangri árið 2012 með XCOM: Enemy Unknown sem undirritaður spilaði mikið á PS3.

XCOM 2 er erfiður leikur, rétt eins og fyrri leikurinn, sem lætur mann fá Stokkhólms-heilkenni; því meira sem hann refsar manni því meira lærir maður á hann og því meira gaman hefur maður af honum. Maður getur samt valið erfiðleikastigið og það er hægt að gera hlutina auðveldari með því að vista leikinn reglulega. „Rétta“ leiðin til að spila hann er samt að treysta ekkert á að endurhlaða leikinn og ef liðsmenn deyja eða verkefni mistekst þá er bara haldið áfram þangað til maður vinnur sig upp eða hreinlega tapar stríðinu (og margra klukkutíma vinnu). En fyrst þarf maður að læra á hann því það er heill aragrúi að ákvörðunum sem þarf að taka. Heppni hefur mikil áhrif á leikinn því að hann byggist á líkum (reiknaðar eru líkur fyrir hvert skot eða árásartilraun). En einnig býr tölvan til borðin af handahófi og sum geta verið svínslega erfið, sérstaklega þar sem maður hefur takmarkaðan fjölda umferða til að klára verkefnið.

xcom2_01

Fyrir þá sem ekki þekkja til þá er þetta taktískur leikur af gamla skólanum.

Fyrir þá sem ekki þekkja til þá er þetta taktískur leikur af gamla skólanum. Þú ert með lið af hermönnum sem allir sinna ákveðnum hlutverkum sem skiptast í laumuskyttu (sniper), drónasérfræðing (specialist), handvörpuhermann (grenadier) og… leiðsögumann (ranger – en látið ekki íslensku þýðinguna plata ykkur, þetta er svalasta hlutverkið. Þú færð sverð sem þróast í hálfgert geislasverð og gerir mikinn skaða). Seinna í leiknum er svo hægt að þjálfa hermenn með hugarmátt sem hafa mun fjölbreyttari möguleika en áður. Hæfileikar hermannana eru vel gerðir og í góðu jafnvægi gagnvart liðsmönnum og óvinum.

Liðið þitt og tölvan skiptast á að gera og hafa til þess ákveðinn fjölda hreyfinga og aðgerða þannig að þetta er ekki í rauntíma. Í hverjum bardaga þá ertu á afmörkuðu svæði og hefur ákveðið takmark. Þetta felur í sér bardaga við geimverur en einnig vélmenni, skot-turna og brynvarða hermenn. Óvinirnir eru fjölbreyttari en áður en til að vega á móti því þá hefur liðið þitt mun fleiri hæfileika en í fyrri leiknum og þar spila t.d. drónarnir stórt hlutverk. Þeir geta flogið á svipstundu til annarra liðsmanna og læknað þá eða reynt að hakka vélmenni eða varðturna.

xcom2_02

Þetta er aðeins hluti af leiknum því að líkt og áður þá ertu með þína eigin bækistöð sem er líka einhvers konar geimskip og svífur yfir heiminum. Þar safnarðu verkfræðingum, hermönnum og vísindamönnum sem hjálpa þeir til að þróa ýmis konar vopn og varnir sem hermennirnir nota svo á jörðu niðri. XCOM 2 er tvískiptur leikur; hann er þessi hernaðarstrategíuleikur lýst hér að ofan en einnig er þetta framkvæmdarstjóraleikur þar sem þú þarft að ákveða í hvað þú átt að eyða, hvaða lönd þú átt að hafa samband við, hvernig er best að hægja á framgangi geimveranna o.s.frv.

Eftir margar erfiðar baráttur þá verða liðsmennirnir þér kærir eins og maður fann út í fyrri XCOM leikjum. Það er mikið spilað upp á þetta núna því að ekki bara er hægt að skíra hermennina heldur skapa þá nær alveg frá grunni rétt eins og í mörgum hlutverkaleikjum. Andlit, rödd, tatóveringar, vopn, föt og margt fleira eru hlutir sem hægt er að breyta. Einnig er hægt að vista útlit á hermönnum svo maður þurfi ekki að búa til Rambo-inn sinn alveg aftur.

XCOM 2 er alveg einstaklega skemmtilegur og frumlegur leikur rétt eins og fyrri leikir í þessari seríu. Þess vegna er synd hversu mikil vonbrigði PS4 útgáfan er því að tæknileg vandamál draga leikinn niður um heila stjörnu.

XCOM 2 er alveg einstaklega skemmtilegur og frumlegur leikur rétt eins og fyrri leikir í þessari seríu. Þess vegna er synd hversu mikil vonbrigði PS4 útgáfan er því að tæknileg vandamál draga leikinn niður um heila stjörnu. Borð eru einfaldlega of lengi að hlaðast og hleðslutíminn hjá Bloodborne sem var mikið kvartað yfir í fyrstu fölnar í samanburði. Einnig hikstar leikurinn stundum hrikalega mikið og ég var í mestu basli með að klára eitt borð þar sem óvinir voru margir og fleiri bættust við hverja umferð. Leikurinn krassaði nokkrum sinnum. Eins mikið og það var gaman af þessum leik þá spila ég hann ekki aftur fyrr en það er búið að laga þessa vandamál (sem þeir vonandi gera). Ef hann hefði ekki þessa vankanta þá væri þetta 4,5 stjörnu leikur og kannski er hann það í öðrum tölvum en PS4.

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑