Birt þann 3. maí, 2016 | Höfundur: Ingunn Jóna Þórhallsdóttir
Spilarýni: Splendor
Samantekt: Hjá mér fær Splendor næstum því fullt hús stiga. Eini mínusinn sem þetta spil hefur er það hversu fljótt það er búið.
4.5
Frábært!
Í Splendor bregða leikmenn sér í hlutverk gimsteinakaupmanna á endurreisnartímanum. Sem kaupmenn þá fjárfesta leikmenn í gimsteinanámum, senda skip til nýja heimsins og fá til liðs við sig fræga handverksmenn svo eitthvað sé nefnt.
Leikmenn byggja upp viðskiptaveldi og fá heimsóknir frá hinum ýmsu göfugmennum sem gefa af sér auðlindir sínar og verðlauna leikmenn fyrir að skara fram.
Splendor gengur út á að leikmenn safni gimsteinum (spilapeningum) til að geta keypt sér námur og fleira (spil) til að byggja upp viðskiptaveldin sín. Yngsti spilari byrjar alltaf fyrsta leik. Þegar leikmaður á leik hefur hann um þrennt að velja.
Splendor gengur út á að leikmenn safni gimsteinum (spilapeningum) til að geta keypt sér námur og fleira (spil) til að byggja upp viðskiptaveldin sín.
Í fyrsta lagi getur hann tekið gimsteina (spilapeninga). Þá velur leikmaður sér þrjá spilapeninga í mismunandi litum eða tvo af sama lit og leggur fyrir framan sig. Í öðru lagi getur hann keypt sér spil. Þá borgar leikmaðurinn uppsett verð sem stendur á viðkomandi spili og skilar inn þeim spilapeningum sem spilið kostar. Svo er nýtt spil sett á borðið úr viðeigandi bunka.
Í þriðja lagi getur leikmaður tekið frá spil, annað hvort til að sjá til þess að geta keypt það sjálfur seinna eða koma í veg fyrir að aðrir spilarar geti keypt það spil. Þegar spil er tekið frá fær leikmaðurinn gullpening sem hefur það hlutverk að vera jókerpeningur, s.s. hann virkar sem allir aðrir litir. Leikmaðurinn tekur þá umrætt spil og leggur það á hvolf fyrir framan sig og notar þá aðra umferð í að kaupa spilið. Ekki er leyfilegt að hafa fleiri en þrjú spil á hendi í einu.
Spilin sem leikmenn kaupa eru í sömu litum og spilapeningarnir. Þau þjóna sama tilgangi og spilapeningarnir, nema með þeirri undantekningu að þau eru varanleg, þeim er ekki skilað til baka. Þegar leikmenn telja fjölda spilapeninga í tilteknum lit teljast spilin með og þegar líður á leikinn og leikmenn eru farnir að byggja upp sín stórveldi verður auðveldara að kaupa dýrari og dýrari spil.
Flest spil gefa af sér stig. Eftir því sem spilið kostar meira þeim mun fleiri stig gefur það. Sá vinnur sem er fyrstur að ná 15 stigum. Önnur leið til að fá stig er að vera fyrstur til að byggja upp vissar litasamsetningar. Þegar spilið byrjar eru settar á borðið nokkrar flísar með mismunandi litasamsetningum. Þegar leikmaður hefur safnað réttum fjölda spila í þeim litum sem stendur á flísinni fær hann hana að gjöf. Þessar flísar gefa allar 3 stig hver. Það kemur ekki önnur flís í stað þeirrar sem er tekin svo leikmenn verða að vera fljótir og útsjónasamir til að fá sem flestar.
GAGNRÝNI
Ég uppgötvaði Splendor á spilakvöldi í Spilavinum, féll svo harkalega fyrir því að um leið og ég gat fór ég og keypti mér eintak. Það var ein besta ákvörðun sem ég hef tekið, enda spilað það mjög mikið síðan. Splendor er mjög fljótlært og auðvelt spil. Það er ekki langt, meðal spilatími er á milli 30-40 mínútur, fer samt allt eftir aldri leikmanna og hversu hratt eða hægt fólk spilar.
Það sem mér finnst svo heillandi við Splendor er það hversu mikillar skipulagningar og útsjónarsemi það krefst af manni. Það þarf að geta hugsað aðeins fram í tímann og velja sér liti eftir því, forgangsraða og plana eftir bestu getu. Hins vegar getur það líka verið óútreiknanlegt því mótspilararnir eru mögulega með auga á sama spili og maður sjálfur og það getur verið auðvelt að sjá hvaða spili fólk er að safna fyrir. Þá er gott að geta hugsað hratt. Á að taka spilið frá, næ ég því á undan eða á ég að fara að safna fyrir öðru?
Hjá mér fær Splendor næstum því fullt hús stiga. Eini mínusinn sem þetta spil hefur er það hversu fljótt það er búið. 15 stig er frekar lítið, sérstaklega því það er um það leyti sem fólk er að geta keypt sér sitt fyrsta eða annað spil úr dýrasta bunkanum, sumir ná jafnvel ekki einu sinni svo langt. Ef Splendor væri spennumynd mætti líkja því við að myndin kláraðist við fyrsta höggið í lokabardaganum. Þegar ég spila Splendor við mína vini þá hef ég þær húsreglur að spila upp í 20 stig.
Eitt annað sem mér finnst æðislegt við Splendor er hversu fljótt það tekur að ganga frá því. Sum borðspil er hræðilegt að setja upp og ganga frá, mjög tímafrek í uppsetningu og með allt of mikið af auka glingri sem þarf að koma fyrir, en það er Splendor ekki. Svo er kassinn alls ekki of stór, hann er mjög þægilegur og meðfærilegur.
Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér þetta tiltekna spil en hafa ekki aðgang að því er hægt að fá að spila það, ásamt svo mörgum öðrum, í Spilavinum í Skeifunni. Mæli eindregið með því.