Retró

Birt þann 11. maí, 2016 | Höfundur: Kristinn Ólafur Smárason

RetroUSB kynnir nýjan og glæsilegan NES klón

RetroUSB er þekkt fyrirtæki meðal Retro tölvunörda fyrir bæði framleiðslu á leikjum og margskonar íhlutum fyrir gamlar leikjatölvur. Fyrir stuttu kynnti fyrirtækið að þeir munu gefa út nýja NES klóntölvu sem gengur undir heitinu AVS. AVS mun ekki notast við hermitækni (emulation) eða lélegar NOAC lausnir eins og flestir klónar samtímans, heldur er hún samsett úr svipuðum tölvuíhlutum og gamla NES tölvan nýtti. AVS mun geta spilað alla NES og Famicom leiki, og mun geta tengst öllum þeim gömlu aukahlutum sem komu út fyrir þær tölvur á árum áður, til að mynda Famicom Disk System viðbótinni sem flestir klónar hafa hingað til ekki getað tengst. Með tölvunni verður hægt að fá þráðlausan stýripinna og einnig mun RetroUSB meðfram útgáfu tölvunnar gefa út nokkra nýja Homebrew leiki.

AVS4

Rúsínan í pylsuendanum er að AVS mun styðja HDMI tengingu við sjónvörp og því geta notendur hennar spilað gömlu leikina í allt að 720p upplausn, en munu þó geta valið um að tóna grafíkina niður ef nostalgían kallar á það. AVS mun kosta 185$, eða um 23.000kr miðað við núverandi gengi. Það er nokkuð dýrara en Retron5 sem er sennilega frambærilegasta klóntölvan á markaðnum í dag, en á móti kemur að sú klóntölva notast við hermitækni og getur ekki spilað allra flóknustu leikina.

Það verður spennandi að fylgjast með hvort RetroUSB geti staðið við alla eiginleika AVS, en tölvan er væntanleg á markað í sumar.

Deila efni

Tögg: , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑