Leikjarýni

Birt þann 29. maí, 2016 | Höfundur: Steinar Logi

Leikjarýni: Homefront: The Revolution

Leikjarýni: Homefront: The Revolution Steinar Logi

Samantekt: Tæknileg vandamál kaffæra sæmilegan skotleik

2.5

Pirrelsi


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Stundum veit maður ekki hvort maður á að gráta eða hlæja yfir Homefront: The Revolution. Það er alla vega ekki annað hægt en að klóra sér á hausnum yfir því hvað svona leikur er að gera á markaðinum núna, þegar stórleikir eins og Doom, Uncharted 4 og Overwatch eru seldir á sama verði. Þetta eins og að þriggja stjörnu hótel færi að rukka það sama og Waldorf Astoria.

Homefront: Revolution er framhald af Homefront sem kom út árið 2011. Sá leikur sló ekki í gegn en vakti samt athygli. THQ sem bjó hann til varð síðan gjaldþrota, Crytek eignaðist réttindin og seldi þau til Koch Media sem lét fyrirtækið Deep Silver búa hann til. Þannig að hann gekk í gegnum það sem kallast “development hell” á ensku sem skýrir að hluta til af hverju hann er svona mikið klúður.

Í leiknum þá erum við í einhverri endurímyndaðri tímalínu þar sem sameinuð Kórea er tæknifrumkvöðull og leidd af nokkurs konar kóreskum Steve Jobs. Bandaríkin höfðu lent í gjaldþroti eftir stríðsbrölt og keyptu tækni í massavís af Kóreu á spottprís. Síðan kemur í ljós að það eru bakdyr í hverju einasta tæki og Kórea hreinlega slekkur á öllu batteríinu og yfirtekur Bandaríkin nánast á einni nóttu. Leikurinn sjálfur gerist svo í Philadelphia þegar Kórea er búið að hneppa landið í ánauð. Þetta er skotleikur með nánast hverri einustu klisju í bókinni bæði hvað varðar sögu og spilun. Hann tekur mest frá leikjum eins og FarCry, Saint’s Row og Infamous (frelsa svæði smátt og smátt og byggja upp andspyrnuher) og hann minnir líka á Resistance: Fall of Man en þá helst út af því að grafíkin er u.þ.b. 10 árum eftirá (R:FoM kom út 2006). Það er hreinlega ekkert frumlegt við þennan leik nema að það er hægt að breyta vopnum úr einu í annað (á einhvern óskiljanlega hátt er hægt að breyta t.d. lásboga í eldvörpu) en það klikkar algerlega fyrir hraðan skotleik því að þessi breyting tekur of langan tíma í miðjum skotbardaga.

Þetta er skotleikur með nánast hverri einustu klisju í bókinni bæði hvað varðar sögu og spilun

Tæknileg vandamál eru hlægilega mörg en manni skilst að hann sé aðeins skárri á PC heldur en PS4. Maður var bara farinn að yppa öxlum yfir því að sjá einhvern kall hálfan ofan í jörðinni eða að maður festist einhvers staðar út í horni. Vandamálið er að leikurinn reynir að gera svo mikið þegar grunnurinn er ekki til staðar. Við erum með þennan staðlaða byssuleik (FPS) en svo bæta þeir við mótorhjólum, myndavél, hakk-græjum, fjarstýrðum bílum, pallaspilun (platforming) og alls konar aukadrasli sem maður þarf að safna, stundum bara til að halda áfram með söguna. Mótorhjólin eru algerlega afleit, þau eru á víð og dreif og eftir nokkrar sekúndur þá er maður fastur einhvers staðar í geómetríunni meðan óvinirnir fylla mann með blýi því að það er algerlega ómögulegt að stýra þeim.

Tæknileg vandamál eru hlægilega mörg

Þetta er allt of löng gagnrýni þegar en ég verð að lýsa einu atviki sem er algerlega lýsandi fyrir leikinn. Það að frelsa svæði í leiknum er stundum eins og litlar þrautir og í einu tilfellinu þá þurfti ég að setja rafmagn á eina bygginguna. Ég læðist inn á svæðið framhjá óvinunum og finn rafstöðina og fylgi svo leiðslunni upp nokkrar hæðir og alveg upp á þak. Þar er búið að raða einhverjum tunnum lárétt saman í holu, tengja leiðslur við og svo er mynd af mótorhjóli. Semsagt við eigum að finna hjól einhvers staðar (já, þessum sem er ómögulegt að stýra) keyra þeim upp nokkra þrönga stigaganga og láta reyna á. Undirritaður gerir það, keyrir hjólið upp stigana með tilheyrandi pirringi aðeins til að vera uppgötvaður á efstu hæðunni. Þá skil ég hjólið eftir og hleyp í næsta horn bak við kassa. Þar sem óvinirnir eru hálfvitar þá finna þeir mann aldrei ef maður nær að fela sig sama hversu ömurlegur felustaðurinn er (og þeir fara aldrei upp stiga eða inn í íbúðir). Eftir nokkra bið þá gefast þeir upp en ég sé einn óvin að væflast eitthvað um, stenst ekki mátið og sting hann í bakið. Samstundis fer aðvörunarkerfið allt í gang þó að enginn annar hafi verið nálægt. Núna hleyp ég inn í gám þar sem ég sést en ég einfaldlega plaffa niður tugi óvina þaðan því að gervigreindin í þessum leik er algerlega afleit og þeir labba beint í skotlínuna áður en þeir reyna að skjóta sjálfir. Á endanum er þetta farið að minna á Omaha-strandar atriðið úr Saving Private Ryan. Því næst fer ég upp og get loksins prófað hjólið. Þegar ég fer með hjólið á tunnurnur stendur að ég eigi að halda niðri R2 til að framleiða rafmagnið sem ég geri, hjólið snýst yfir sig, lendir lóðrétt og ég get akkúrat ekkert gert, hvorki ýtt við því, kýlt það niður eða notað það. Bless, hálftími sem fór í ekki neitt og þetta var ekki í fyrsta sinn.

Reynum að klára þetta; það er hægt að spila leikinn á netinu líka en þar sem allir sem keyptu hann er búnir að gefast upp þá fann ég hreinlega engan til að spila með! Það virtist samt eitthvað hafa verið lagt í þann hluta en þetta var nokkuð staðlað, maður gat farið upp í styrkleika, valið mismunandi klæði og aukahluti, bætt byssurnar smátt og smátt o.s.frv.

þrátt yfir allt þetta sem skrifað er að ofan þá var þetta ekki algerlega leiðinleg spilaupplifun

Það kemur líklega á óvart að þrátt yfir allt þetta sem skrifað er að ofan þá var þetta ekki algerlega leiðinleg spilaupplifun. Ég get alls ekki mælt með honum á nokkurn hátt, sérstaklega á fullu verði, en það voru augnablik þar sem ég var bara nokkuð sáttur, hvort sem það var vegna þess að það var dáldið síðan að ég tók í svona skotleik eða að kannski er eitthvað gott við leikinn undir öllu þessum göllum. Alla vega nóg til að lyfta honum upp í tvær og hálfa stjörnu sem er rausnarlegt fyrir svona leik á þessum tíma þar sem PS4 og Xbox One eru að taka stökk áfram sb. Uncharted 4.

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑