Leikjarýni

Birt þann 15. október, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: Middle-earth: Shadow of Mordor

Middle-earth: Shadow of Mordor er ný viðbót við Miðjörð, ævintýraheim J. R. R. Tolkien. Í þessum þriðju persónu ævintýraleik frá Monolith Productions og Behaviour Interactive fer spilarinn með hlutverk hetjunnar Talion. Sagan gerist mitt á milli The Hobbit og Hringadróttinssögu þar sem Sauron hefur snúið aftur með her sinn til Mordors og handsamað eða drepið flesta sem á vegi þeirra urðu – meðal annars eiginkonu og son Talions. Í hefndarhug ferðast Talion um Mordor ásamt minnislausum álfi sem fylgir honum hvert skref. Í leiknum fær spilarinn að vita meira um uppruna töfrahringsins Ring of Power og verður fljótt ógnarlegasti bardagakappinn í Mordor.

 

Fjölbreyttur ævintýraheimur

Leikurinn býður upp á opna spilun, þ.e.a.s. spilarinn þarf ekki fylgja línulegri sögu út leikinn heldur getur hann valið hvaða verkefni hann vill leysa og í hvaða röð. Heimurinn skiptist í tvö nokkuð stór svæði þar sem spilarinn getur valið milli þess að halda áfram með söguþráðinn, velja sér aukaverkefni eða ráfa um og leika sér. Í söguþræði leiksins er Talion í hefndarhug og eltist við óvini sína á meðan aukaverkefnin eru nokkuð fjölbreytt; allt frá því að safna plöntum yfir í að læðast um stór svæði og drepa óvini í laumi áður en tíminn rennur út

Shadow_of_Mordor_02

Að drepa – með látum eða í laumi

Spilarinn getur valið hvaða aðferðir hann notar til að leysa hin ýmsu verkefni. Til dæmis getur hann farið í bardaga með látum með því að ráðast á óvini strax í byrjun – eða hann getur læðst um og beðið eftir rétta augnablikinu áður en hann lætur til skara skríða. Í einstaka tilfellum er nauðsynlegt að velja eina aðferð yfir aðra, til dæmis getur reynst nauðsynlegt að læðast um í varnarvirki óvinarins þar óvenju margir óvinir og foringjar eru saman komnir. Ef svo óheppilega vill til að sést til Talion þá getur spilarinn auðveldlega flúið með því að hlaupa í burtu eða með því að fela sig en þrátt fyrir þungan búnað Talions er hann léttur á sér og klifrar auðveldlega upp turna og byggingar.

Shadow_of_Mordor

Valdaþyrstir og minnugir óvinir

Hver óvinur er einstakur, þ.e.a.s. hver og einn þeirra er með sitt eigið útlit, persónuleika, styrkleika og veikleika. Út leikinn eru óvinirnir í stöðugri mótun og geta afskipti spilarans haft margskonar afleiðingar. Sem dæmi ef þú lendir í bardaga við foringja og flýrð af vettvangi styrkist hann og man eftir þér. Í leiknum er einstaklega vel heppnað valdakerfi (Nemesis System) þar sem spilarinn fær gott yfirlit yfir stöðuna og getur aflað sér upplýsinga um æðstu foringjana. Stundum verða foringjarnir valdaþyrstir og ráðast á aðra foringja til að efla sín eigin völd og getur myndast flókin valdabarátta milli foringa. Þegar foringjar eflast hækka þeir í tign og verða sterkari. Einnig getur spilarinn séð hvort einhver tengsl séu á milli foringja, til dæmis eru sumir háttsettir foringjar með lífverði og getur verið góð taktík að stúta lífvörðunum áður en ráðist er á þann háttsetta. Til að safna upplýsingum um foringjana getur Talion lesið hugsanir óvina og þannig safnað upplýsingum og komist að veikleikum og styrkleikum óvinarins (sem getur komið að góðum notum).

Uppfærslur, vopn og bardagakerfi

Talion er vopnaður sverði, hnífi (sem er í rauninni brotið sverð sem sonur hans átti) og boga. Út leikinn verður Talion öflugri og lærir nýja hluti og lærir meðal annars að ná stjórn á óvinum sínum sem getur reynst vel í stórum bardögum. Með tímanum getur spilarinn bætt rúnum við vopnin sem gera þau enn öflugri. Uppfærslukerfið getur mögulega virkað svolítið flókið fyrir suma til að byrja með en leikurinn nær að halda hlutunum notendavænum og útskýrir þá vel fyrir spilaranum. Í gegnum álfinn sem fylgir Talion öðlast hann ákveðna krafta, þar á meðal að hægja á tímanum og stökkva langar leiðir, en það getur verið mjög hentugt að hægja á tímanum þegar nokkrum örvum er skotið úr boganum á fjölda óvina á stuttum tíma.

Bardagakerfi leiksins er mjög vel heppnað og nær einstaklega góðu flæði. Eftir því sem hetjan eflist og því fleiri brögð sem spilarinn lærir því betri verða bardagarnir. Líkt og áður sagði getur hetjan flúið bardaga og getur það verið nauðsynlegt í sumum stærri bardögum ef spilarinn ætlar að halda lífi. Þó svo að Talion deyji þá lifnar hann við og byrjar upp á nýtt, en foringjar leiksins muna þá eftir þér og muna að þú þorðir ekki að berjast við þá eða að þú tapaðir bardaganum.

Grafík og hljóð

Leikurinn var spilaður á PlayStation 4 leikjavélina en leikurinn er einnig fáanlegur á PC og Xbox One og væntanlegur á PS3 og Xbox 360 í nóvember. Grafík leiksins er flott og hún sést best þegar óvinaforingjar eru skoðaðir í nærmynd í valdakerfi leiksins þar sem smáatriðin fá að njóta sín. Hljóðið er gott og fylgir flæði leiksins mjög vel.

Shadow_of_Mordor_03

Hvað hefði mátt gera betur

Leikurinn er mjög góður en það eru einstaka minniháttar þættir sem hefði mátt gera betur. Þar ber að nefna klifurtæknina hjá Talion en það kom nokkrum sinnum fyrir að hann fann ekki stein eða sillu til að klífa upp og festist á kjánalegum stöðum. Þetta gerðist þó ekki oft. Einnig varð leikurinn svolítið einhæfur á köflum en þó aldrei þannig að hann yrði leiðinlegur. Þetta átti sérstaklega við um seinni hluta leiksins þar sem sama taktík virðist virka á alla óvini óháð því hvaða styrkleika og veikleika þeir hafa.

Hvað segja lesendur?

Við spurðum lesendur okkar á Facebook-síðunni okkar hvað þeim fannst um leikinn og fengum þessi svör:

Shadow_of_Mordor_FB

Niðurstaða

Á heildina litið er Middle-earth: Shadow of Mordor frábær leikur þar sem opinn ævintýraheimur, bardagakerfi og valdakerfi óvina standa upp úr. Leikurinn býður upp á marga möguleika þó án þess að vera óþarflega flókinn sem gerir spilunina enn skemmtilegri. Það tók undirritaðann tæpa 22 klukkutíma að klára söguhluta leiksins ásamt nokkrum aukaverkefnum og má reikna með að það taki hátt í 30 til 40 klukkutíma að klára allan leikinn. Leikurinn er fjölbreyttur og flæðið mjög gott. Þeir sem halda sérstaklega uppá þriðju persónu ævintýraleiki ættu ekki að verða fyrir vonbrigðum með þennan!

 

Höfundur er Bjarki Þór Jónsson,
leikjanörd og ritstjóri Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑