Birt þann 15. júlí, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins
Sjónvarpsþáttarýni: Life on Mars
Samantekt: Stórskemmtilegir þættir, enda ekki langt í húmorinn.
3.5
Skemmtilegt
Jósef Karl Gunnarsson skrifar:
Bresku þættirnir Life on Mars hófu göngu sína árið 2006 og úr þeim urðu tvær seríur saman settar af 8 þáttum hvor. Vinsældir þessa þátta urðu til þess að bandarísk endurgerð fór í loftið árið 2008 og fékk aðeins eina seríu saman setta af 17 þáttum. Árið 2008 kom einnig beint framhald af bresku Life on Mars þáttunum í formi Ashes to Ashes en sú þáttaröð varð ansi lífseig og komst upp í þrjár seríur. Bresku þættirnir eru klukkutími hver en þeir bandarísku eru þessar stöðluðu 42 mínútur eða svo.
Rannsóknarlögreglumaðurinn Sam Tyler (John Simm) er að reyna góma einn raðmorðingja í borginni Manchester í Bretlandi þegar hann verður fyrir bíl. Þetta gerist á versta tíma þar sem unnustu hans var rænt af raðmorðingjanum, en þau unnu saman að rannsókninni. Sam vaknar og stendur upp, nema hvað umhverfið hefur allt breyst og svo virðist sem árið sé 1973. Hann hefur enga hugmynd hvað er að gerast, hvers vegna hann er þarna og hvernig á að komast til baka. Ekki nóg með það, þá eru þrír möguleikar í stöðunni hjá honum: hann hefur ferðast aftur í tímann, er í dái og þetta er allt ímyndun eða hann hefur misst vitið.
Á þessu ári er Sam ekki yfirfulltrúi eins og hann var árið 2006, heldur er hann með yfirmann sem heitir Gene Hunt (Philip Glenister). Þeir eru algjörar andstæður, Sam fylgir sönnunargögnunum og lögunum en Gene innsæi sínu og handalögmálum. Aðrir rannsóknarlögreglumenn eru þarna og vinnur hann aðallega með Chris (Marshall Lancaster) og Ray (Dean Andrews). Svo kynnist Sam henni Annie (Liz White) sem er í kvennadeildinni í lögreglunni og þar hefur hann einhvern til að tala við um sitt óvenjulega vandamál.
Þessir þættir eru stórskemmtilegir, enda ekki langt í húmorinn, og fullt af litríku slangri sem löggurnar þylja upp í hverjum þætti. Tónlistin er líka stór hluti af þáttunum, enda fá þessar þáttaraðir nöfn sín frá samnefndum David Bowie lögunum og þau notuð mjög vel. Persónurnar Chris og Ray virðast í fyrstu ekki þeir gáfuðustu og eru þarna bara til að grínast en þeir fá nokkur augnablik hér og þar sem sýnir okkur að það er meira á bakvið þá. Samband Sam og Annie er meðhöndlað á ótrúlega þroskaðan hátt, hún er ekki einhver skutla sem er þarna bara til þess að þjóna ástarlífi Sam. Hún er þarna til þess að veita honum stuðning og veita honum ráð þótt hún sé ekki að kaupa þetta tímaflakk. Senuþjófurinn er án efa Gene Hunt, sérstaklega þegar líður á seríuna, ef hann er ekki að rífa kjaft eða kýla einhvern þá er hann á barnum. Þrátt fyrir það þá er hann með sín prinsipp og Sam með sín og það er mjög gaman að fylgast með þeim reyna að vinna saman og læra hvor af öðrum. Hvað varðar tímaflakkið þá herjar þetta mjög á sálarlif hans Sam í gegnum þáttaröðina og þegar ég hugsa um það þá minna þessir þættir mig á aðra góða þætti, Awake (2012), sem notuðu vísindaskáldskap sem vandamálið en í raun eru þetta bara lögguþættir, bara aðeins öðruvísi lögguþættir.
Um DVD diskinn
• Útgáfan af fyrstu seríunni sem ég á er skandinavísk útgáfa og nældi ég mér í hana á aðeins 200 kr í Perlunni þegar það var DVD-og geisladiskamarkaður þar síðast.
• Bæði mynd-og hljóðgæðin eru nokkuð góð á þessum tveim diskum, það er 4 þættir á hvorum diski. Myndin er í breiðtjaldsforminu 1.78:1, endurkóðuð fyrir öll sjónvörp, og með henni fylgir upprunalega enska Dolby Digital 2.0 hljóðrásin.
• Þættirnir voru teknir á 16 mm filmu og það sést hér og þar í hvíta flekki en þar sem þetta gerist á árinu 1973 gefur það því bara aukinn lit. Í sumum senum sést að það hefur verið skerpt á myndinni en það er ekki yfirdrifið svo það er lítið hægt að kvarta yfir myndgæðunum. Hljóðið er gott í þáttunum en tónlistin kemur líklegast best út enda nóg af slögurum frá 8. áratugnum sem fá að hljóma.
• Þættirnir eru textaðir á dönsku, sænsku, norsku, finnsku og íslensku.
• Íslenski textinn kom vel út að mestu leyti nema maður tók eftir því hér og þar að textinn annað hvort var ekki eða að hann fór um leið og hann kom. Allt slangur kom bara hreint og beint út og það var gott að vita hvað sumt þýddi án þess að vera fegra hlutina. Það var tvennt sem mér fannst athugavert, einn uppáhalds tónlistarmaðurinn minn, Gary Numan, var titlaður Gary Newman í fyrsta þættinum. Seinna í seríunni var vísað í Deliverance og nafn myndarinnar nefnt og þar fékk það þýðinguna Frelsun. Maður var ekki viss hvort að þýðandinn hafi vitað um þessa vísun eða ekki, þrátt fyrir að þetta sé alveg rétt þýðing en við Íslendingar yfirleitt þýðum ekki titlana á myndum nema þá helst Mogginn í sjónvarpsdagskránni. En við nánari athugun á hinum tungumálunum þá komu upp þýðingar á titlinum frá hverju landi og hinir vissu hver Gary Numan var.
• Það er ekkert aukaefni á þessari skandinavísku útgáfu en á bresku útgáfunni er að finna aukaefni á borð við umtal frá handritshöfundunum og um gerð þáttanna.