Leikjarýni

Birt þann 29. júlí, 2015 | Höfundur: Nörd Norðursins

Leikjarýni: LEGO Jurassic World

Leikjarýni: LEGO Jurassic World Nörd Norðursins

Samantekt: Óhætt er að mæla með þessum leik fyrir fólk á öllum aldri en hér er að ferðinni leikur sem tengir nokkrar kynslóðir saman.

4


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Helgi Freyr Hafþórsson skrifar:

Leikjaframleiðandinn Traveller´s Tales, eða Tt Games, hefur verið í bransanum síðan 1991 og fyrsti leikur þeirra bar nafnið Leander, þar sem spilarar áttu að berjast við vonda galdrakallinn Thanatos og bjarga prinsessunni  Lucanna. Þrátt fyrir að hafa búið til þann leik ásamt leikjum sem innihalda þekktar Disney persónur, tvo Sonic leiki og tvo aðra Crash Bandicoot leiki þá er Tt Games lang þekktast fyrir LEGO aðlögun sína á þekktum kvikmyndum, ofurhetjum og öðrum fígurum sem tengjast LEGO veröldinni. Því kom það lítið á óvart þegar tilkynnt var um að Jurassic World fengi sömu lagningu.

En það sem gerir þennan leik mögulega að einu metnaðarfyllsta verkefni Tt Games er að leikurinn nær yfir allar Jurassic myndirnar, Jurassic Park, Jurassic Park: The Lost World, Jurassic Park 3 og Jurassic World, og notast er við upprunaleg hljóð úr kvikmyndunum fyrir talsetningu leiksins. En hefur þessi leikur eitthvað fram yfir aðrar LEGO leiki eða hverfur hann í fjöldann?

LEGOJP_01

Spilunin á leiknum er eins og allir aðrir LEGO leikir, þar sem auðveld, en stundum krefjandi, verkefni bíða spilara sem tengjast söguþræðinu á einn eða annan hátt. Þessi formúla svínvirkar, þar sem einn af styrkleikjum leiksins er hversu ávanabindandi spilunin er. Þrátt fyrir að vera kjánalega einföld þá er svo auðvelt að gleyma sér við að brjóta og bramla á meðan farið er í gegnum söguþráðinn. Leikurinn spilast á þann veg að hann skiptist í fjóra hluta þar sem ein kvikmynd er tekin fyrir hverju sinni. Þannig vinna spilarar sig áfram frá fyrstu myndinni til þeirra nýjustu.

Spilunin á leiknum er eins og allir aðrir LEGO leikir, þar sem auðveld, en stundum krefjandi, verkefni bíða spilara sem tengjast söguþræðinu á einn eða annan hátt. Þessi formúla svínvirkar, þar sem einn af styrkleikjum leiksins er hversu ávanabindandi spilunin er.

Í leiknum eru vel yfir 100 persónur sem aflæsast eftir því sem spilarinn kemst lengra áfram í söguþræðinum og sem hægt er að kaupa með LEGO peningum sem safnast upp með því að brjóta og bramla. Eftir að hafa klárað borð í leiknum þá opnast fyrir þann möguleika að heimsækja það aftur í frjálsri spilun og þá er hægt að klára þau verkefni sem urðu eftir í fyrstu spilun, sem tengist mikið endurspilunar gildi leiksins þar sem sumar persónur hafa sérstakan hæfileika til að leysa verkefni sem ekki var hægt í fyrstu spilun. Því er eiginlega ógerlegt að spila leikinn bara einu sinni í gegn. Einnig verður að nefna að það sem kunna að vera lang skemmtilegustu verkefnin eru þau sem krefjast þess að spilarinn sé risaeðla, en það er algjör snilld að geta skipt á milli þess að vera Alan Grant og síðan yfir í að vera grameðla.

LEGOJP_02

Þrátt fyrir að hafa þetta LEGO útlit þá lítur leikurinn mjög vel út, þetta eru samt engin sláandi grafík en bæði umhverfið og persónur líta mjög vel út. Eins og áður var nefnt þá notast leikurinn við hljóðið úr kvikmyndunum, sem kveikir svo sannarlega í nostalgíunni. Mögulega þá kann þetta að vera smámunasemi en talsetningin er mjög slæm í þeim hluta leiksins sem notast við hljóð úr eldri kvikmyndunum og stundum er frekar erfitt að heyra hvað persónur leiksins eru að segja. Það skemmir reyndar ekki svo mikið en getur þó verið pínu pirrandi. Þrátt fyrir það þá tekst leiknum að nýta söguþráð kvikmyndanna á skemmtilegan máta og treður svakalega miklu magni af efni úr myndunum í leikinn.

LEGOJP_03

Af öllum þeim LEGO leikjum sem eru til þá er þetta mögulega einn sá skemmtilegast sem komið hefur út. Mögulega er hægt að kenna mínu innra barni um þessa staðhæfingu en er þetta hinn fullkomni leikur fyrir gamlan risaeðlu aðdáenda til að spila með krakkanum sínum. Það er svo mikið af efni í leiknum sem fær bæði fullorðna og börn til að brosa og hlægja yfir. Það er virkilega erfitt að spila leikinn án þess að brosa, bæði af barnalegum kjánaskap sem leikurinn spilar mikið inná og földum bröndurum sem skjótast upp í bakgrunni sem er oft svínslega fyndið.

Í heildina þá er LEGO Jurassic World sterk viðbót við alla LEGO leikina og er meðal þeirra betri í seríunni. Óhætt er að mæla með þessum leik fyrir fólk á öllum aldri en hér er að ferðinni leikur sem tengir nokkrar kynslóðir saman með risaeðlum, kubbum og ávanabindandi spilun.

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnEfst upp ↑