Leikjarýni

Birt þann 12. apríl, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: Dark Souls 2

Dark Souls kom út í október 2011 á PS3 / Xbox360 og u.þ.b. ári seinna á PC en hann hefur alltaf verið ofarlega í huga leikjaunnenda. Undirritaður hefur verið að hlusta á nokkur leikjahlaðvörp (podcasts) síðastliðin ár og það líður varla vika án þess að minnst sé á Dark Souls í einhverju samhengi. Samfélag Dark Souls spilara, t.d. á Reddit, er enn mjög virkt, jafnvel eftir útgáfu Dark Souls 2.

Sjálfur tel ég leikinn einn af þeim bestu sem ég hef spilað en það er einn munur á mér og þessum sem halda áfram að spila hann ár eftir ár en það er að ég hef aldrei fundið mig í fjölspilunarhlutanum. Förum nánar í hversu vel Dark Souls 2 (PS3) stendur sig í þessum efnum og öðrum.

 

 

Allar rósir hafa þyrna

Fyrst skulum við afgreiða það slæma. Það helsta er andrúmsloftið sem er ekki eins gott og í fyrri leikjum. Demon’s Soul var alveg einstaklega lunkinn í að skapa þrúgandi andrúmsloft og ákveðna hryllingsmyndastemmningu. Kunnugir muna t.d. vel eftir Tower of Latria með sínum Mind Flayers. Mér rann alltaf kalt vatn milli skinns og hörunds þegar þeir hlupu að manni með klingjandi bjölluna sína og reyndu að lama mann áður en þeir stungu mann á hol.

Dark_Souls_2_04

Dark Souls náði líka að skapa mjög mikilfenglegan heim. Hver man ekki eftir að sjá Hellkite Dragon í fyrsta skipti eða þegar maður kemur fyrst í borgina Anor Londo, hvað þá þegar maður loksins náði að sigra aðalbardagann á því svæði (sem er einn alræmdasti „boss fight“ seríunnar). Það vantar svona eftirminnileg augnablik í Dark Souls 2 og stundum fer maður frá einu svæði til annars án þess að það skilji mikið eftir sig.

Motoi Sakuraba sá um tónlistina í bæði DS1 og DS2 (ásamt Yuka Kitamura) og gerði það vel í fyrri leiknum en hérna finnst mér tónlistin ekki spila eins mikið hlutverk sem er synd því að það var stór hluti upplifunarinnar fyrir mig í fyrri leiknum. Til dæmis var Firelink Shrine tónlistin í DS1 yndisleg; það var eins og að góðleg amma tæki á móti manni með mjólk og smákökur eftir erfiði dagsins. Í DS2 hverfur hún nánast í bakgrunninn þar sem hún er frekar lágstemmd og ófrumleg. Hvert stórskrímsli (léleg þýðing á „boss monsters“) hefur sitt eigið þema rétt eins og í fyrri leiknum en tónlistin í DS2 er ekki að virka, hún er eins og léleg afritun.

Hafa ber í huga að Hidetaka Miyazaki þ.e.a.s. leik(ja)stjóri fyrri leikjanna er ekki lengur við stjórnvölinn en það var talað um að hann væri sérstakur ráðgjafi. Maður veltir því fyrir sér hvort að það hafi haft áhrif hvað varðar listræna stjórnun. Stórskrímslin hafa verið mjög eftirminnileg í gegnum tíðina en mörg hver hérna eru frekar óeftirminnileg en þó með undantekningum.

Síðasta atriðið sem ég ætla að kvabba aðeins yfir eru stýringarnar. Þetta eru kannski smáatriði en það eru einstaka atriði sem pirra mann s.s. það að hoppa (ónákvæmt og stundum er „hlaupa“ takkinn ekki að virka mjög vel, sérstaklega ef þolið (endurance) endurnýjast á meðan maður heldur niðri takkanum). Einnig er eins og maður geti ekki gert sumar aðgerðir of fljótt; maður þarf að gera þá fyrri, bíða og svo þá seinni (t.d. skipta um vopn og fara strax í árás / galdur á sem skemmstum tíma).

Dark_Souls_2_01

 

Lof sé sólinni!

Vindum okkur í lofgjörðina. Gagnrýnandi er búinn að spila í kringum 100 tíma og er langt kominn í nýjum leik (sem kallast New Game Plus eða NG+) þannig að leikurinn, rétt eins og hinir fyrri, grípur mann algerlega. Unnendur seríunnar hafa haft áhyggjur af því hvort þessi sé of auðveldur. Svarið er ekki einfalt. Það er búið að draga mikið úr óþarfa tímaeyðslu og hlaupum fram og til baka. Núna fær maður að ferðast strax á alla staði (bonfires) sem maður hefur uppgötvað, þetta þýðir að leikurinn spilast ekki alveg eins og beint strik og fljótlega hefur maður aðgang að nokkrum svæðum. En hvað varðar andstæðingana þá er þetta álíka erfiðleikastig en samt eru stórskrímslin auðveldari, það er enginn bardagi á við Ornstein og Smough sem beinlínis stoppaði leikinn fyrir marga í fyrsta Dark Souls. Harðkjarna spilarar ættu samt að geta fundið áskoranir, t.d. eru verðlaun fyrir að drepast aldrei í gegnum allan leikinn! Hvað varðar erfiðleikastig þá er samt einn hlutur sem dregur talsvert úr hræðslunni við að missa sálir (gjaldmiðill leiksins eins og áður) sem ég kann illa við en það er hægt að velja að nota hann ekki.

Dark_Souls_2_05

Nú er hægt að breyta styrkleikum (stats) hjá karakternum með því að nota ákveðna hluti (soul vessel) Þetta er ánægjuleg breyting fyrir fjölspilun og líka ef það hentar að breyta áherslum innan leiksins (geta notað betri skjöld eða klæði í stað galdra t.d. í ákveðnum bardögum).

Það má líta á leikinn sem tvíþættan; þegar maður spilar hann í fyrsta sinn og svo við endurspilun. Við fyrstu spilun hafa margir reynt að forðast alla spilla eða vídeó af leiknum, eins og undirritaður, til þess að fá þessa einstöku Dark Souls upplifun þar sem hættan getur leynst við hvert fótatak. En ef maður, eins og margir gera, virkilega sekkur í leikinn þá þyrstir mann í að vita meira og því leitar maður á vefsíður og youtube rásir. Þá fer maður í áðurnefnt New Game Plus (og áfram, sumir spila allt að NG7+) eða dembir sér í fjölspilunarhlutann. NG+ er líka fjölbreytilegri en var í DS1 þar sem það bætast við nýjir óvinir (rauðir innrásaraðilar sem maður getur fengið nýja hluti frá); betri fjársjóðir og andstæðingarnir haga sér öðruvísi ásamt því að vera sterkari og með meira líf.

Dark_Souls_2_02

 

Bræður munu berjast

Reynsla mín af fjölspilun í fyrri Dark Souls var ekki skemmtileg enda hef ég aldrei verið mikill PvP spilari. Í þau fáu skipti sem ég tók þátt í fyrri leiknum (ég var nær allan tímann í þannig ástandi að ég gat ekki tekið þátt í PvP en fórnaði til þess smá heilsu) þá notuðu reyndir spilarar ákveðna taktík þannig að maður hafði nær engan séns (svokallað stunlock og backstab).

Fjölspilun í DS2 er mun fjölbreyttari og skemmtilegri og þau tengjast bandalögum (covenants). Sem dæmi byggist eitt bandalagið á því að geta kallað til síns leikjaheims aðra spilara til að aðstoða með innrásaraðila (sem er líka spilari). Svo eru ákveðin svæði þar sem það eru stórar líkur á því að einhver ráðist í þinn heim til að hindra takmark þitt innan sjálfs leiksins (t.d. hindra að þú getir hringt ákveðinni bjöllu). Í sumum af þessum svæðum er hægt að leggja margar gildrur fyrir andstæðinginn og svona mætti lengi áfram telja. Þannig að fjölspilunarhlutinn er fjölbreyttur og skemmtilegur. Einn galli á gjöf Njarðar er sá að fyrir svona leik þar sem bardagar geta unnist á 1-2 góðum höggum þá getur hið alræmda hökt í nettengingu (lag) ráðið úrslitum.

Dark_Souls_2_06

Ólíkt Dark Souls þá er ekki hægt að komast undan fjölspilun þ.e.a.s. innrásum eða tja… útrásum (summoning) annarra spilara nema að stilla PS3 á að tengjast ekki netinu. Þetta truflaði mig ekki við spilun fyrsta leiksins (nema á ákveðnum svæðum) en ágerist í NG+. Fyrir þá sem vilja er hægt að gera hluti til að auka innrásir og líka er hægt að nota ákveðinn hlut til að stöðva innrásir tímabundið (fyrir þá sem þekkja: Þetta hefði hjálpað mér í DS1 þegar ég var að reyna að sigra Ornstein og Smough með Solaire. Ég varð á endanum að gefast upp á að nota þetta vegna fjölda innrása). Eins og áður geta leikmenn skilið eftir hjálplegar vísbendingar (eða svínslegar) á jörðinni sem allir aðrir geta séð og þetta birtist bara ef maður er nettengdur.

Dark_Souls_2_03

 

Niðurstaða

Það er eitthvað við þennan leikjaheim, fyrir utan erfiðleikastigið, sem gerir hann svo ólíkan öllum öðrum leikjum og tel ég að það sé að miklu leyti dulúðin og hvernig maður þarf að púsla saman hvað er í raun að gerast ásamt því hvernig hann blandar saman austrænum og vestrænum áhrifum. Upplýsingarnar sem maður fær um söguna leynast í litlum vísbendingum á víð og dreif um heiminn. Þrátt fyrir að andrúmsloftið í DS2 sé ekki eins gott og í fyrri leikjum þá er samt mjög forvitnilegur bakgrunnur (lore) ef maður sekkur sér í hann. Þrátt fyrir örfáa annmarka þá er Dark Souls 2 snilldarleikur og sómir sér vel sem sá nýjasti í þessari seríu (sem verður vonandi langlíf). Hann er aðeins aðgengilegri en þeir fyrri, sérstaklega hvað varðar endurspilun og fjölspilunarhlutann.

 

Höfundur er Steinar Logi Sigurðsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑