Bíó og TV

Birt þann 19. mars, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Dead Snow

Dead Snow, eða Død snø á móðurmálinu, er norsk gamanhrollvekja frá árinu 2009. Leikstjóri myndarinnar er Tommy Wirkola, sem skrifar auk þess handrit myndarinnar ásamt Stig Frode Henriksen. Það má segja að kvikmyndaferill Tommy hafi byrjað fyrir alvöru árið 2007 með myndinni Kill Buljo: The Movie (sem er hægt að horfa á hér á YouTube), sem er einskonar norsk grínútgáfa af Kill Bill. Síðan þá hefur Tommy meðal annars leikstýrt Dead Snow, Hansel & Gretel: Witch Hunters og núna Dead Snow: Red vs. Dead sem er væntanleg í kvikmyndahús á næstu dögum. Með aðalhlutverk fara Vegar Hoel, Stig Frode Henriksen, Charlotte Frogner og Lasse Valdal.

Í Dead Snow er sagt frá hressum vinahópi á þrítugsaldri sem leggur leið sína í sumarbústað að vetri til. Vinahópurinn samanstendur af fjölbreyttum hópi fólks – kvikmyndanördið í hópnum er sérstaklega skemmtilegur með endalausar tilvitnanir í kvikmyndir og klæðist auk þess eitursvölum bol merktum The Icelandic Killer Sheep. Allavegana, það sem hópurinn veit ekki er að á meðan Seinni heimsstyrjöldin geysti var landsvæðið fullt af blóðþyrstum og gullóðum Nasistum frá Þýskalandi. Og það sem verra er, þeir eiga eftir að rísa upp frá dauðum!

Dead Snow

Myndin á stórt hrós skilið fyrir að ná góðri samblöndu og jafnvægi milli gamans, hryllings og splatter. Það skal tekið strax fram að þetta er ekki mynd sem á að taka of alvarlega, ég meina við erum að tala hér um norska splattermynd með nasistazombíum. Ég er einn af þeim sem hef haft lítið gaman af norrænum kvikmyndum. Jú vissulega eru til flottar myndir þarna inn á milli á borð við Fucking Åmål og I Kina Spiser De Hunde, en þessi hefðbundni Norðurlandastíll hefur yfir höfuð ekki náð mikið til mín. Dead Snow er allt annar tebolli og brýtur upp á kvikmyndahefðina í nágrannalöndum okkar, líkt og Troll Hunter.

Myndin er varla sprenghlægileg en það er nóg af kjánalega fyndnum atriðum og handfyllir af brútal splatter atriðum. Strax í byrjun nær myndin að fanga mann en á heildina litið er sagan samt sem áður bara ein blóðblaut bullskvetta sem þjónar nánast eingöngu þeim tilgangi að ýta undir kjánaskap myndarinnar. En líkt og margar aðrar splatter myndir tekur Dead Snow sig ekki mjög alvarlega – sem er bara gott og passar vel við stemningu myndarinnar. Það má svo bæta því við að myndin er furðuvel gerð og tæknibrellurnar í myndinni, sem eru fyrst og fremst splatter atriðin, koma ansi vel út. Líka skemmtilegt að sjá hvernig kontrastinn er notaður í myndinni þar sem svartur og hvítur eru í aðalhlutverki ásamt blóðrauðum og heilakögglableikum.

Dead Snow

Helsti ókosturinn við myndina eru zombíarnir. Ekk misskilja mig, ég elska zombía, og finnst hugmyndin um nasistazombí ótrúlega fyndin og áhugaverð, en þeir voru bara ekki alveg nógu ógnvekjandi í Dead Snow. Hræðslan við zombíana er fljót að dvína í myndinni og undir lokin er þetta bara djók. Samt skemmtilegt djók. Trúlega er þetta vísvitandi gert, en með þessu missir myndin hægt og rólega tökin á áhorfandanum. Annað sem dregur myndina aðeins niður eru að hún inniheldur nokkra langdregna kafla, aftur á móti eru fæstir þessara kafla mjög langir og oftar en ekki stutt í næsta blóðdropa eða næsta aulabrandara.

Á heildina litið er Dead Snow ein af skemmtilegri myndum sem hafa komið frá Norðurlöndunum undanfarin ár. Myndin nær að hrista aðeins upp í hinni norrænu kvikmyndamenningu og alltof sjaldan sem góður splatter frá Norðurlöndunum birtist á hvíta tjaldinu. Myndin er full af aulahúmor, splatter, nasistazombíum og norskri náttúru. Dead Snow er hiklaust möst fyrir þá sem elska splatter- og zombímyndir.

 

Höfundur er Bjarki Þór Jónsson,
ritstjóri Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑