Tækni

Birt þann 7. febrúar, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

UTmessan 2014: Tækniþróun og úrelt UT kennsla

Ráðstefna UTmessunnar var sett í morgun og var það Sigrún Gunnarsdóttir, formaður Ský, sem fór með setningarræðuna. Í kjölfar hennar steig Lars Mikkelgaard-Jensen frá IBM í Danmörku upp á svið og fór yfir tækniþróun undanfarinna ára og spáði í framtíðina.

Hröð tækniþróun

Lars Mikkelgaard-Jensen tók skemmtilegt dæmi af dóttur sinni sem er fædd árið 1993, en þá voru tímarnir aðrir; internetið var að stíga sín fyrstu skref, snjallsímar voru ekki til og GPS tækni eingöngu tengd við hernað. Í dag, aðeins 21 ári síðar, getur dóttir hans pantað flugmiða af netinu og sótt app sem sýnir staðsetningu flugvélarinnar. Þegar hún lendir hinu megin á hnettinum getur hún talað við kærastann í gegnum Skype og deilt myndum í rauntíma með vinum og vandamönnum á samfélagsmiðlum.

Sömuleiðis hefur tæknin gert mönnum kleyft að betrumbæta líf fjölda fólks. Heyrnalausir hafa öðlast heyrn á ný og nefndi Lars sérstaklega dæmi um ungan danskan dreng sem fékk nýlega heyrnina aftur þökk sé tækniframfara síðustu ára. Snjalltækjaeigendur geta jafnvel greint sjúkdóma með sérstökum forritum og getur slík tækni skipt sköpum á svæðum þar sem mikill skortur er á læknum og sérþekkingu.

UTmessan2014 - Lars

Hvert stefnir tæknin?

Þrívíddarprentun hefur orðið áberandi og gaf Lars dæmi um að í dag er hægt að kaupa 39 cm. þrívíddarprentun af sjálfum sér (og hver myndi ekki vilja eiga slíkan dýrgrip?!) með auðveldum hætti. Þrívíddarprentun mun umbylta verslun og viðskiptum, hvernig við nálgumst hlutina og verðlagi þeirra í náinni framtíð. Sömuleiðis má gera ráð fyrir breyttum viðskiptaháttum þar sem C2C (consumer to consumer) verslun verður sífellt aðgengilegri, t.d. með stafræna gjaldmiðlinum bitcoin og skiptidílum.

Gagnagnótt (big data) er annar hluti sem Lars talaði um. Upplýsingar hafa alltaf verið verðmætar, en verða enn verðmætari á komandi árum að sögn Lars, og þá sérstaklega hvernig fyrirtæki ákveða að notfæra sér umrædd gögnin. Fyrir ekki svo löngu voru upplýsingar geymdar á einum stað, til dæmis í pappírsformi inni í læstum skáp, en í dag er magn upplýsinga mun aðgengilegra en áður og vistað í skýjum. Á sama tíma og rætt er um upplýsingaflæði nútímans minnir Lars réttilega á ólöglegar persónunjósnir á netinu (á borð við NSA).

Lars telur að á komandi árum beinist tækniþróunin að skilningarvitunum fimm; sjón, heyrn, snertingu, bragð og lykt. Þá verði til að mynda hægt að fá tilfinningu fyrir efninu í flíkinni sem verslað er á netinu. Snjalltæki munu senda frá sér boð og titring þannig að notandinn upplifi sambærilega tilfinninginu og að koma við sjálft efnið. Einnig eiga rafræn viðskipti eftir að aukast til muna og enn meiri áhersla verði lögð á stafræn samskipti.

Að lokinni ræðu hófst almenn dagskrá þar sem gestir gátu flakkað á milli fjölda fjölbreyttra fyrirlestra sem var skipt niður í tíu þemu (eða messur); Stjórnunarmessu, Forritunarmessu, Rekstrarmessu, Fjarskiptamessu, Menntamessu, Framtíðarmessu, Verkefnastjórnarmessu, Gagnamessu, Öryggismessu og Opinberamessu.

Spegluð kennsla og þróun í skólastarfi

TolvaHlíf Böðvarsdóttir frá Keili kynnti speglaða kennslu í Menntamessu. Með speglaðri kennslu er tæknin notuð til að snúa kennslunni við og á sama tíma gera námið skilvirkarar og einstaklingsmiðaðra. „Hefðbundin“ kennsla hefur lengi vel innihaldið það sama ár eftir ár, þar sem kennarinn stendur fyrir framan töfluna og fer yfir námsefnið á meðan nemendur sitja, hlusta og glósa og í lok tímans leggur kennarinn fram heimavinnu fyrir næsta tíma. Í speglaðri kennslu er dæminu snúið við og stuttur fyrirlestur settur á netið sem eiga nemendur að horfa á þann fyrirlestur fyrir næsta tíma. Þannig er hægt að nýta kennslutímann í uppbyggilegra nám, eins og umræður og verkefnavinnu, þar sem kennarinn er til staðar og getur leiðbeint nemendum.
Hægt er að kynna sér málið betur á slóðinni www.keilir.net/flipp.

Bjarndís Fjóla Jónsdóttir frá Lágafellsskóla og UT-torgi hélt áfram umfjölluninni um þróun í skólastarfi og fór sérstaklega í UT-torgið, en markmið þess er að „styðja við notkun upplýsingatækni í námi og kennslu, símenntun skólafólks og upplýsingamiðlun um tækni- og skólaþróun“ eins og fram kemur á heimasíðu UT-torgsins, www.uttorg.menntamidja.is.

Úrelt UT og tækniskilningur barna

Ragnar Þór Pétursson frá Skema fjallaði um stöðu UT kennslu í íslenskum skólum. Hann tók dæmi um kennara sem hreinlega hreykja sig af því að útiloka alla upplýsingatækni úr kennslutímum, tungumálakennara sem tala Google Translate niður og vilja eingöngu styðjast við bækur og prentuð gögn. Aftur á móti er Ísland UT samfélag og upplýsingatækni er komin til að vera, en því miður virðist UT kennsla í íslenskum skólum vera úrelt og úr því þarf að bæta að mati Ragnars. Ragnar nefndi jákvæða þróun í Menntaskólanum á Tröllaskaga, Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ og Norðlingaskóli, en að UT kennsla sé yfir höfuð úrelt í flestum skólum. Þegar skólar einblína um of á bóknám og loka um leið á UT verður námið línulegt og ýtir ekki undir sköpun og drepur þúsund góðar hugmyndir að sögn Ragnars.
Hægt er að fylgjast með skrifum Ragnars á Eyjunni; www.blog.pressan.is/ragnarthor.

Angry-Birds2Nói Kristinsson, nemandi við Háskóla Íslands, undirstrikaði mikilvægi UT menntunar með fyrirlestri sínum „Börn, tækni, mýtur og raunveruleikinn“ þar sem hann fór yfir hvernig börn upplifa tæknina í kringum sig. Nauðsynlegt er að kenna börnum á tæknina og að nota hana í stað þess að gera alltaf ráð fyrir því að þau finni úr öllu sjálfkrafa að sögn Nóa. Að sama skapi skiptir máli að fá börnin til að líta á sig sem jafningja, þannig séu meiri líkur á því að börnin hlusti á kennarann og læri innihaldið. Nói sagðist hafa rætt við börn á aldrinum 5-9 ára og var áhugavert að heyra að hvert eitt og einasta barn þekkti rauða fuglinn úr Angry Birds (ætli hann verði jafn táknrænn og Pac-Man var fyrir eldri tölvuleikjakynslóðina?). Í lokin var minnst á mikilvægi kennsluaðferða og sérstaklega á að tölvuleikir séu góður kostur við nám og kennslu þar sem þeir örva nemendur og um leið gera námið skemmtilegra.

Sýningarsvæði UTmessunnar opnað

Sýningarsvæði Utmessunnar verður opnað almenningi laugardaginn 8. febrúar og verður meðal annars hægt að prófa EVE: Valkyrie sem CCP er að þróa fyrir Oculus Rift, láta mynda sig með Svarthöfða (og mögulega vinna geislasverð!) hjá Reiknistofu Bankanna, gamlar tölvur verða til sýnis á sýningu Öldungadeildar Ský, Forritunarkeppni framhaldsskólanna verður kynnt og margt fleira. Dagskrána í heild sinni má nálgast hér á www.UTmessan.is.

UTmessan2014 -EVE VR

Mynd af tölvu: Wikimedia Commons

 

Höfundur er Bjarki Þór Jónsson,
ritstjóri Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑