Birt þann 17. febrúar, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins
Spilarýni: King of Tokyo
Samantekt: Það er engin undrun að King of Tokyo hefur unnið fjöldann allann af verðlaunum, því spilið er frábært í því sem það gerir.
4.5
Skemmtilegt!
> Spilarar: 2-6 > Spilatími: 30mín > Aldur: 8+ > Útgefandi: iello > Hönnuður: Richard Garfield
Daníel Páll Jóhansson skrifar:
Í King of Tokyo tekur þú ham risaskrímslis sem hefur það markmið að verða kóngur yfir rústum Tokyo með því að sigra öll önnur skrímsli. Til að bera sigur af hólmi þarf spilarinn að vera sá fyrsti til að ná 20 stigum, eða vera eina skrímslið sem eftir stendur.
Til að ná fram vilja sínum þurfa spilarar að kasta teningum, hver spilari kastar sex teningum og hver teningur hefur sex mismunandi tákn. Árás (kló), Hjarta, Orka (elding), Þrír, Tveir, Einn.
Eftir fyrsta kast fær spilarinn tækifæri, ef hann vill, til að endurkasta teninginum tvisvar sinnum og ræður spilarinn hvaða teningum hann endurkastar, áður en ráðið er í táknin. Fjöldi teninga með Árásar tákninu benda til hversu mikinn skaða skrímslið veldur. Hjörtun lækna skaða sem önnur skrímsli hafa ollið á spilaranum. Orkan gerir spilaranum kleift að kaupa spil til að gera skrímslið sitt öflugra, og til að safna stigum með teningum þarf að fá þrennu, eða fleiri, af sama tölustafnum, t.d., Ef þrír teningar sýna táknið 2, þá fær spilarinn 2 stig.
Mynd: BoardGameGeek
Aðeins eitt skrímsli getur verið inn í Tokyo í einu og hefur það bæði kosti og galla. Að vera skrímslið inn í Tokyo er gott að því leyti að þegar verið er að gera árásir þá gerir skrímslið árásir á öll önnur skrímsli og einnig fær skrímslið stig fyrir að endast lengi inn í Tokyo. Ókostirnir við að vera inn í Tokyo eru að öll skrímslin fyrir utan borgina gera bara árásir á þig, og að skrímslið getur ekki notast við Hjörtu sem koma upp á teningunum til að lækna skaða. Ef skrímsli sem er inn í Tokyo verður fyrir skaða getur það gefið eftir og farið út úr borginni, en þá fer skrímslið sem gerði árásina inn í Tokyo og fær stig. Þá fær skrímslið sem fór úr Tokyo tækifæri til að reyna að fá Hjörtu á teningana til að laga skaðann.
Með Orku er hægt að kaupa spil sem eru á borði. Fyrir hvern tening með Orku tákninu fær spilarinn Orkukubb og safnast þeir upp. Stokkur af sérstökum spilum er stokkaður og settur á borðið og efstu þrjú spilin eru dregin og lögð á borðið. Hvert spil hefur mismunandi eiginleika og kosta spilin mis mikla Orku. Það eru tvær tegundir af spilum, ein tegundin kallast Henda (e. Discard) og þegar það spil er keypt þarf að spila því út strax, en hin tegundin kallast Halda (e. Keep) og tekur skrímslið þá spilið og setur hjá sér. Spil af Halda tegundinni hafa oft öflug áhrif, eins og t.d. að gera alltaf 1 meiri Skaða, fá fleiri Orkukubba, eða geta breytt teningum hjá andstæðingum. Þegar spil er keypt er nýtt spil dregið úr spilastokknum og sett á borðið, þannig að þrjú spil eru alltaf í boði.
Gagnrýni
King of Tokyo er æðislegt borðspil sem spilast skemmtilega, er með frábært útlit og fær spilara til að hafa gaman saman. Maður fær að velja um að spila Gigazaur (risaeðlu), Meka Dragon (véldreka), Alienoid (geimveru), Kraken (sæskrímsli), The King (tæknigórillu) eða Cyber Bunny (brjálaða kanínu sem stýrir risa vélmenni). Hvað er ekki til að líka við? Allir hlutir sem koma með spilinu eru vel gerðir og virðast endingargóðir. Stórir og flottir teningar, plaststandar fyrir skrímslin, stiga og lífteljarar fyrir hvert skrímsli, spilin, orkukubbarnir og spilaborðið er allt úr góðu efni og allir litir skærir og bjartir.
Spilið spilast best með fjórum eða fleiri spilurum, en þrátt fyrir að hægt sé að spila með aðeins tveimur spilurum get ég ekki mælt með því. Ég myndi segja að þrír spilarar séu lágmarkið fyrir leikinn til að vera skemmtilegan. Þar sem leikurinn býður upp á það að vera laminn í döðlur af risa véldreka, þarf að hafa í huga að í sumum leikjum getur verið að einn eða fleiri spilarar detti út og þurfi því að bíða þangað til að sigurvegari rís upp úr rústum Tokyo. Í mörgum borðspilum getur þetta verið leiðinlegt, en King of Tokyo spilast oft frekar hratt þannig að þetta er ekki stórt vandamál.
King of Tokyo er frábært spil til að hoppa í með vinum og fjölskyldu. Þar sem spilið spilast á frekar stuttum tíma, þá er hægt að nota það til að ná einum snöggum leik áður en yfir í annað er haldið, eða jafnvel taka nokkur spil í röð. Sem ég mæli algjörlega með. Þrátt fyrir að spilið sé byggt aðallega á teningakasti sem er handahófskennt, þá hefur spilarinn oftast nokkra valmöguleika í hvert skipti sem hann gerir, þannig að spilið hefur einhverja dýpt.
Ég mæli eindregið með King of Tokyo. Spilið er skemmtilegt, krefst ekki mikillar hugsunar en samt hefur val spilara áhrif í leiknum. Það er engin undrun að King of Tokyo hefur unnið fjöldann allann af verðlaunum, því spilið er frábært í því sem það gerir.