Birt þann 6. janúar, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Kvikmyndarýni: Stalker [Svartir Sunnudagar]
Það er ekki á hverjum degi sem kvikmyndasalur fyllist þegar sýna á rússneska kvikmynd frá 1979. Mynd sem er tveir og hálfur tími að lengd. Það gerðist þó í gærkvöldi þegar Stalker eftir Andrei Tarkovsky var sýnd í sal 1 í Bíó Paradís. Mætingin kom undirrituðum á óvart því verk rússneska leikstjórans eru ekki allra. Til að mynda hafa nokkrir gagnrýnendur bent á að Solaris eftir Tarkovsky sé mesta áskorun sem kvikmyndaáhorfandi geti staðið frammi fyrir. En haldi hann hana út verða launin margföld.
Sögusvið Stalker er óræður heimur, dystópía, og söguþráðurinn er í stuttu máli einfaldur. Myndin fjallar um mann sem starfar sem Stalker eða leiðsögumaður. Hann fer með fólk inn á stað sem kallast Svæðið eða Zone. Staður sem flestir forðast og sem verndað er af vopnuðum hermönnum. Tveir menn hafa greitt fyrir leiðsögn inn á svæðið, kallaðir ekkert annað en Prófessorinn og Rithöfundurinn. Stalker fer með þá inn á Svæðið til að vísa þeim leiðina að Herberginu eða Room þar sem allar dýpstu óskir verða að veruleika. Ferðalagið þangað og samskipti mannanna er stærsti hluti myndarinnar.
Tarkovsky er þekktur fyrir langar tökur og atriði. Það eru nokkur í Stalker, eiginlega mjög mörg. Þó svo að mörgum gæti fundist lengdin plagandi þá er tilgangur með löngu tökunum því þær undirstrika tímann sem líður. Áhorfandinn á að finna fyrir tímanum. Annað einkennandi stef í kvikmyndum leikstjórans er notkun lita enda skipta þeir miklu máli. Dystópían er í brúnum lit framan af en þegar komið er inn á Svæðið er allt í lit, kannski vísbending um að Svæðið sé hinn raunverulegi heimur eða hin gleymda útópía.
Margir vilja meina að Stalker sé besta mynd Tarkovskys, það má deila um það. Persónulega finnst mér Solaris betri. Kannski er það vegna þess að áhorfendur þurfa sjálfir að túlka myndir hans, rétt eins og ljóð getur verið túlkað á marga vegu er hægt að túlka myndir Tarkovsky á marga vegu. Eins og hvert einasta orð í ljóði skiptir máli þá skiptir hvert einasta skot í myndinni máli og í Stalker má finna einhver fallegustu skot kvikmyndasögunnar.
Stalker fjallar um margt og í raun verður áhorfandinn sjálfur að ákveða það. Myndin vekur meðal annars upp spurningar um trú, siðferði og tilgang lífsins. Haft var eftir Tarkovsky sjálfum að hann útskýrði aldrei neitt í kvikmyndum sínum. Þess í stað ætti að sýna áhorfendum lífið sjálft og hver og einn áhorfandi getur túlkað myndirnar á ólíkan hátt. Það voru því væntanlega margir áhorfendur sem gengu út úr kvikmyndasalnum með stórt spurningamerki í kollinum.
Stalker er meira en bara kvikmynd. Hún er krefjandi upplifun og staðfestir að kvikmyndir geta verið ótrúlega margbrotið listform. Það er því í raun ómögulegt að skrifa almennilega gagnrýni eftir eitt áhorf. Stalker er mynd sem ég verð að sjá aftur til að skilja hana betur og öðlast dýpri skilning á henni.
Höfundur er Ragnar Trausti Ragnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.