Bækur og blöð

Birt þann 22. desember, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

Bókarýni: Freyju saga – Múrinn eftir Sif Sigmarsdóttur

Bókarýni: Freyju saga – Múrinn eftir Sif Sigmarsdóttur Nörd Norðursins

Samantekt: Forsendur Sifjar náðu aldrei að sannfæra mig, alla bókina var ég full efasemda, ég náði ekki að ganga inn í þennan heim Freyju, hann var ekki nógu sannfærandi.

2


Einkunn lesenda: 2.9 (17 atkvæði)

Védís Ragnheiðardóttir skrifar:

Múrinn er fyrsta bókin í sagnabálknum Freyju sögu eftir Sif Sigmarsdóttur sem áður hefur sent frá sér tvær unglingabækur; Ég er ekki dramadrottning og Einu sinni var dramadrottning í ríki sínu. Auk þess er Sif þekkt fyrir pistlaskrif sín. Bókin kemur út undir merkjum Máls og menningar og hefur fengið gríðarlega góðar viðtökur, er ofarlega á metsölulistum, hefur fengið góða dóma og verið tilnefnd bæði til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna í flokki barna- og unglingabóka.

„Borgin Dónol er í heljargreipum einvaldsins Zheng og lífvarðasveita hans. Freyja elst þar upp hjá ömmu sinni og veit ekki betur en að þær séu ósköp venjulegir íbúar en þegar hinir Utanaðkomandi taka skyndilega að birtast innan borgarmúrsins fer tilvera hennar á hvolf. Hverjir eru hinir Utanaðkomandi? Og hvað vilja þeir Freyju?“ [Forlagið.is]

Freyja er ósköp venjuleg 15 ára stelpa sem býr hjá ömmu sinni eftir að hafa misst foreldra sína. Freyja er í 9. bekk og eins og allir 15 ára krakkar Dónol mun hún brátt fá að vita hvert framtíðarstarf hennar verður. Í Dónol færðu nefnilega ekki að velja þér starfsvettvang sjálfur, þér er úthlutað honum. Þetta er algeng hugmynd í fantasíum, hún var til að mynda notuð í nýlegri bók Kjartans Yngva Björnssonar og Snæbjörns Brynjarssonar, Hrafnsauga, en þar eru krakkar einmitt líka 15 ára þegar þeim er úthlutað framtíðarhlutverki sínu. Tilgangurinn virðist þó nokkuð annarlegri í Freyju sögu, í stað þess að snúast um að nýta sem best hæfileika allra innan ættbálksins eins og í Hrafnsauga, virðist úthlutun hlutverks í Múrnum meira snúast um vald Zheng, einvalds Dónolborgar, yfir íbúunum.

Freyju saga - MúrinnÍ Dónol ríkir fastistastjórn þar sem Zheng er einvaldur. Zheng, eins og margur annar einvaldurinn, er mjög upptekinn af sjálfum sér og notar hvert tækifæri til að setja upp nýjar styttur af sjálfum sér í hlutverki bjargvættar Dónol auk þess sem bókasafn Dónol er fullt af bókum um hetjudáðir hans og annað lesefni er ekki í boði. Engin samskipti við heiminn utan Múrsins eru leyfð svo íbúar Dónol búa í algjörri einangrun og hata allt sem kemur utan frá.

Múrinn er dystópísk framtíðarfantasía sem gerist á Íslandi eftir rúmlega 100 ár. Á þessum hundrað árum hefur margt breyst á Íslandi. Í kringum 2033 hóf Ísland að sökkva í sæ og strandlengjan hvarf, Íslendingar fluttu því upp á miðhálendið, í kringum eldfjallið Ginnunga. Sjötíu árum eftir landflutningana gaus Ginnunga og Íslendingar skiptust í níu ættbálka sem stofnuðu níu borgir sem nú eru kallaðar lönd og Ísland heimsálfa. Ættbálkur Freyju stofnaði borgina Dónol og var fljótlega byggður feiknarstór múr kringum borgina alla sem hamlar ferðafrelsi íbúa borgarinnar og kemur í veg fyrir að utanaðkomandi komist inn. Borgin er kynt með kolum, er grá og hrörleg og öll þægindi nútímans eru horfin. Hér er því ljóst að ansi miklar breytingar eiga að hafa átt sér stað á 100 árum.

Þessar forsendur Sifjar náðu aldrei að sannfæra mig, alla bókina var ég full efasemda, ég náði ekki að ganga inn í þennan heim Freyju, hann var ekki nógu sannfærandi. Í lýsingum hennar á Íslandi fyrir landflutningana var augljóst að Ísland árið 2013 er það Ísland sem við þekkjum í dag. Örar breytingar á sjávarföllum, líklega í kjölfar loftslagsbreytinga þótt það hafi ekki verið sagt beint út, hafa valdið því að íbúar urðu að flytja inn á miðhálendið. Miðhálendi Íslands er ekki beint byggilegt í dag en Sif gerði enga tilraun til að útskýra hvað það var sem gerði það byggilegt í þessum dystópíska framtíðarheimi, var það hnattræn hlýnun, sem samkvæmt svartsýnustu spám verður um fjórar gráður á næstu 100 árum? Hvað gerðist með Golfstrauminn, hann hefur væntanlega haldist jafn sterkur og í dag því annars hefði snarkólnað. Hvaðan koma kolin sem notuð eru til upphitunar Dónol? Eru þau innflutt frá útlöndum? Eru þetta viðarkol framleidd af Dónolbúum? Ef svo er, hvaðan kemur þá viðurinn? Hvernig gleymdist öll sagan á 30 árum eftir skiptingu Íslendinga í 9 ættbálka, af hverju veit Freyja ekki hvað Ipod hefur verið þegar fyrir nokkrum áratugum var enn rafmagn í Dónol? Af hverju skiptust Íslendingar, þessi tiltölulega samheldna þjóð, í 9 ættbálka á einungis 70 árum?  Þessar spurningar runnu í gegnum huga minn stanslaust við lesturinn og komu í veg fyrir að ég gæti notið bókarinnar. Grundvallarforsenda fyrir mig til að njóta fantasía er að ég geti gengið inn í samkomulag við bókina um að heimurinn sem ég er að lesa um sé raunverulegur innan bókarinnar, hann þarf að vera raunsær miðað við gefnar forsendur bókarinnar. Hér mistókst það, í það minnsta fyrir mig. Fyrir vikið hafði ég ekki nógu mikla ánægju af lestri bókarinnar.

Greinileg áhrif frá fyrri unglingabókum Sifjar mátti sjá í vandræðalegum unglingaskotum og lýsingar af tilfinninganæmi Freyju voru helst til algengar og ýktar. Freyja er til að mynda mjög gjörn á að grípa í stólbök, sæti og veggi þegar hún fær óvæntar fréttir. Bókin hafði þó sína kosti, hún var spennandi á köflum, sérstaklega undir lokin, það spennandi að ég geri ráð fyrir að kíkja á framhaldið og sjá hvað gerist næst. Sif fór stundum aðrar og óvæntar leiðir, leiðir sem eru óalgengar í barna- og unglingabókum en ég get ekki farið út í án þess að spilla söguþræðinum fyrir lesendum. Hugmyndin um að skrifa um slíkt fasistaríki og afleiðingar þess var svo einnig góð og vel unnin en þótt breytingar sem þessar geti vissulega átt sér stað á ógnarhraða, eins og við þekkjum úr sögu 20. aldar, skorti mig aðeins meiri baksögu til að vera fullkomlega sátt. Vegna þess er ég nokkuð hörð í dómnum, sem skýrist aðallega á því að ég náði aldrei að sættast við forsendur bókarinnar og þar með ekki að lifa mig nógu vel inn í söguþráðinn.

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Efst upp ↑