Bíó og TV

Birt þann 14. nóvember, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Viltu smakka Bantha mjólk? – uppskriftir úr kvikmyndum

Hefuru einhvern tímann velt því fyrir þér hvernig bláa mjólkin í Star Wars: A New Hope smakkast? Mjólkin sem frænka Luke sullar í sig á Tatooine. Þessi blái drykkur kallast víst Bantha mjólk, enda kemur hann frá mjólkurkirtlum Bantha dýranna. Það er kannski ekki auðvelt að átta sig á því hvernig mjólkin smakkast enda eru Banthar ekki til en það er auðvelt að búa sér til svona mjólk, sjálfum sér og öðrum til gamans. Uppskriftina að Bantha drykknum má finna hér ásamt nokkrum öðrum skemmtilegum uppskriftum. Bon appetit!

 

Bantha mjólkurhristingur úr Star Wars: A New Hope (1977)

Bantha

Það er ótrúlegt að svona góður drykkur komi frá svona ljótu dýri. Vinsamlegast leggið frá ykkur geislasverðin áður en þið byrjið að búa þennan til.

Innihald:
150 g bláber
500g bláberjajógúrt eða venjuleg jógúrt
2 msk haframjöl
1 tsk engifer
smá dass af mjólk

Aðferð:
Allt sett í blandara og blandað vel. Drekkist í hvítu plastglasi. Megi mátturinn vera með þér!

 

Pan Galactic Gargle Blaster úr The Hitchhiker´s Guide to the Galaxy (2005)

Við höldum áfram með drykkina og nú er komið að áfengum drykk. Vélmennið Marvin vill þó koma eftirfarandi fram áður en þú drekkur þennan drykk: ,,I´ve calculated your chance of survival, but I don´t think you´ll like it.“

Innihald:
1 cl vodki
1 cl hvítvín
1 cl ískalt gin
Tónik með lime til að fylla glasið
1 tsk sýróp
lime börkur til að skreyta

Aðferð:
Takið kokteil hristara og fyllið hann með klaka. Setjið vodkan, hvítvínið, ginið og sýrópið í og hristið vel. Hellið í glas og fyllið með tónik. Notið síðan lime börkin til að skreyta. Drekkist varlega.

 

Pierogi (fylltir koddar) úr Man in Black (1997)

MIB

Það muna kannski einhverjir eftir atriðinu þegar Mr. Rosenberg og skartgripasalinn setjast niður á matsölustaðinn í myndinni og Edgar ber fram subbulegan Pierogi rétt á borðið þeira. Hér er uppskriftin, án kakkalakkanna.

Smjördeigið:
300 g hveiti
smá salt
1 egg
2 msk sýrður rjómi
6 msk volgt vatn

Fyllingin:
50g brætt smjör
hálfur laukur, saxaður
300 g kaldar stappaðar kartöflur
150 g kotasæla
salt og svartur pipar

Aðferð:
Setjið hveitið og salt í skál og gerið smá holu. Þar setjið þið eggið og sýrða rjómann. Notið gaffal til þess að hræra öllu varlega saman. Hellið síðan vatni smátt og smátt út í á meðan þið blandið öllu saman. Hnoðið deigið vel og setjið síðan inn í ísskáp á meðan þið gerið fyllinguna. Setjið smjörið á heita pönnu og steikið laukinn. Setjið kartöflurnar og kotasæluna í skál og hrærið vel saman, takið síðan laukinn af pönnunni og setjið út í skálina og hrærið vel. Því næst fyllið þið pott af vatni með smá salti út í og hitið að suðu. Á meðan vatnið er að hitna þá hnoðið þið deigið út í 3mm þykkt lag og notið síðan glas eða annað til að skera út hringi. Því næst setjið þið fyllinguna í hringina og lokið með því að nota gaffal á endunum. Ætti að líta út eins og hálfhringur. Því næst setjið þið koddana í sjóðandi heitt vatnið og sjóðið í 3 til 4 mínútur. Berið fram með grænmeti og smá parmesan.

 

Steikt lifur með baunum úr Silence of the Lambs (1991)

,,A census taker once tried to test me. I ate his liver with some fava beans and a nice Chianti“ – Hannibal Lecter

Innihald:
250 g strengjabaunir
skál af köldu vatni
smá olívuolía
350 g lambalifur
2 msk smjör
salt og svartur pipar
flaska af góðu Chinati

Aðferð:
Sjóðið baunirnar í 2 mínútur og kælið niður. Skerið síðan lifrina í sneiðar og steikið á pönnu með olíu. Hafið háan hita á og steikið í stutta stund, saltið og piprið. Lifrin ætti að vera vel steikt að utan en bleik að innan. Takið lifrina af pönnunni og bætið smá smjöri út á pönnuna Steikið baunirnar stutta stund á pönnunni. Berið fram lifrina og baunirnar á heitum disk með Chianti.

 

Hér hef ég aðeins gefið ykkur smjörþefinn. Fleiri uppskriftir er hægt að finna meðal annars á heimasíðu 3 Guys 1 Movie og svo er bókin Movie Dinners mjög skemmtileg uppskriftabók. Þær uppskriftir sem ég hef bent á hér eru einmitt úr þeirri bók.

 Myndir: Wookieepedia og MIB

 

Höfundur er Ragnar Trausti Ragnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑