Birt þann 5. nóvember, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Kvikmyndarýni: The Shining [Svartir sunnudagar]
Svartir sunnudagar sýndu eina vinsælustu hrollvekju allra tíma, The Shining í leikstjórn Stanley Kubricks, síðastliðinn sunnudag í fullum bíósal í Bíó Paradís. 119 mínútna útgáfan var sýnd og var búið að endurbæta hljóð og mynd verulega fyrir háskerpu-kynslóðina. Sýningin heppnaðist ótrúlega vel og var þetta einstakt tækifæri að sjá myndina á hvíta tjaldinu eftir öll þessi ár. En nóg um sýninguna, dembum okkur í sjálfa myndina!
The Shining er frá árinu 1980 og byggir á samnefndri bók eftir hrollvekjuhöfundinn Stephen King. Þar er sagt frá þriggja manna fjölskyldu sem flytur í risavaxið hótel yfir vetrartímann. Faðirinn og eiginmaðurinn Jack Torrance (leikinn af Jack Nicholson) hætti nýlega störfum sem kennari og áveður að þiggja starfstilboð sem felur í sér að sjá um og viðhalda hótelinu yfir veturinn, en þá hafa allir starfsmenn yfirgefið hótelið vegna ófærðar, óveðurs og einangrunar sem fylgir vetrarhörkunni á þessum slóðum. Svo heppilega vill til að Jack hefur lengi ætlað að skrifa skáldsögu og er þetta því tilvalið tækifæri fyrir verðandi höfund. Eiginkona Jacks, Wendy Torrance (leikin af Shelley Duvall) og sonur hans Danny (leikinn af Danny Lloyd), fylgja honum og búa þau þrjú saman á þessu risastóra hóteli sem á sér blóðuga forsögu. Danny býr yfir yfirnáttúrulegum hæfileika sem kallast The Shining og sér truflandi sýnir sem virðast tengjast hótelinu og fortíð þess. En er eitthvað að óttast?
Það er ekki að ástæðulausu að The Shining er í 49. sæti á topplista IMDb. Myndin nær að tvinna saman marga einstaklega vel heppnaða hluti í eina stórkostlega heild. Myndin er fyrst og fremst sálfræðihrollvekja sem nær gífurlega góðum tökum á áhorfanda frá upphafi til enda. Tónlistin spilar stóran þátt í að mynda drungalega stemningu með skrækju fiðluspili og höggvandi hjartslætti í bakgrunni. Mörg atriði eru í raun afskaplega róleg og yfirveguð, en klippingin, myndatakan og tónlistin ná í sameiningu að mynda ógnvekjandi og taugastrekkjandi stemningu. Myndramminn er vel nýttur og mörg skot sem eru afskaplega fallega uppsett. Löng skot og myndræn framsetning eru hluti af sérkennum og kostum myndarinnar. Að lokinni mynd verður hótelið, og herbergi 237, að ógleymanlegum stað.
Burt séð frá tæknilegum atriðum og framsetningu, þá er The Shining löngu orðin að klassískri kvikmyndaperlu. Í henni er að finna heldur fáar tæknibrellur og hefur myndin því staðist tímans tönn og í raun ótrúlegt að sjá hversu vel myndin hefur elst á þessum 33 árum. Lítið er um ýkt, ógeðfelld og blóðug atriði (sérstaklega miðað við flestar hrollvekjur í dag) en myndin er aftur á móti full af taugastrekkjandi atriðum sem heldur manni allan tímann við efnið. Svo má ekki gleyma leikurum myndarinnar en það er hann Jack Nicholson sem fer algjörlega á kostum og er hlutverk hans í The Shining klárlega eitt af eftirminnilegustu hlutverkum leikarans.
Ef þú hefur ekki séð The Shining skaltu sjá hana, og ef þú hefur séð The Shining muntu að öllum líkindum horfa á hana aftur! The Shining er einfaldlega ein af betri sálfræðihrollvekjum kvikmyndasögunnar og einstaklega eftirminnileg. Skylduáhorf!
Næsta sunnudag ætla Svartir sunnudagar að sýna Logan’s Run (1976). Sjáumst í Bíó Paradís!
Höfundur er Bjarki Þór Jónsson,
ritstjóri Nörd Norðursins.