Birt þann 9. október, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Kvikmyndarýni: The Pervert’s Guide to Ideology (2012) [RIFF]
„Hann hefur verið nefndur „heimsins ólíklegasta kvikmyndastjarna“ af New York Times. Slóvenski heimspekingurinn Slavoj Žižek er stjarna myndarinnar Handbók hugmyndafræðiperrans eftir leikstjórann Sophie Fiennes. Sjáðu Žižek og Fiennes beita túlkunarhæfileikum sínum í tilraun til að ferðast um heim kvikmyndanna að hjarta hugmyndafræðinnar – draumanna sem móta sameiginlegar skoðanir okkar og gjörðir.“ (RIFF)
Handbók hugmyndfræðiperrans er nokkurs konar eintal slóvenska heimspekingsins, sálgreinisins og menningarfræðingsins Slavoj Žižek (sem fólk virðist líta ýmist á sem algjöran snilling eða algjöran vitleysing) við áhorfendur um þá hugmyndafræði sem umlykur okkur öll og hrærir. Til að útskýra hugmyndir sínar nota Žižek og Fiennes brot úr kvikmyndum hvaðanæva að úr heiminum og frá ýmsum tímum kvikmyndasögunnar, þar á meðal myndir sem ég persónulega hafði aldrei heyrt talað um áður, hvað þá séð. Hann tekur fyrir dæmi úr þekktum myndum eins og Jaws, A Clockwork Orange og The Dark Knight en einnig óþekktari myndum eins og áróðursmyndum Leni Riefenstahl, sovésku áróðursmyndinni Padeniye Berlina (e. The Fall of Berlin) og sæfæ myndinni They Live sem og úr mörgum öðrum myndum. Žižek talar til áhorfenda innan úr kvikmyndunum sjálfum þar sem myndin er tekin upp á sviðsmyndum kvikmyndanna sem fjallað er um, ýmist þeim upprunalegu eða nákvæmum eftirlíkingum. Žižek er einnig íklæddur fatnaði sem passar inn í söguþráð umræddu myndanna sem eykur á tilfinninguna um hann sem hluta myndanna.
En myndin fjallar ekki um kvikmyndirnar sjálfar, heldur hugmyndafræðina sem þær endurspegla. Hugmyndafræðihugtak Žižek er of flókið hugtak til að útskýra í kvikmyndarýni svo ég læt duga að birta tilvitnun í vef Hins íslenska bókmenntafélags þar sem fjallað er um hugmyndafræði í tilefni útgáfu bókar hans Óraplágan (The Plague of Fantasies):
Hugmyndafræðina má m.a. finna í hönnun klósettskála, ólíkum hefðum kvenna í skaphárarakstri, þeim kynlífsstellingum sem okkur eru hugleiknastar og öryggisleiðbeiningum í flugvélum. Í slíkum hversdagslegum fyrirbærum má finna þjóðareinkenni og hugmyndafræði sem skilur að okkur og hina, sem gera hlutina öðru vísi og geta því verið viðfang útskúfunar og ofsókna. Við kennum „hinum“ (sem getur vísað til hinna ýmsu minnihlutahópa) um það sem miður fer og höfum á tilfinningunni að þeir séu djöflar sem toga í spottana á bak við tjöldin. Óhugsandi er að flýja undan þessari hugmyndafræði (HÍB – Óraplágan).
Með áherslu á hugmyndafræðina fjallar Žižek um kapítalisma, nasisma, neysluhyggju, Anders Behring Breivik, samskipti hástétta við lágstéttir, hermennsku, skriffinsku og fleira og fleira.
Myndin er stórskemmtileg, heillandi en krefst algjörrar einbeitingar af hálfu áhorfanda. Persónulega tel ég þetta mynd sem nauðsynlegt sé að horfa á mörgum sinnum vilji maður skilja hana til fulls (ef það er þá hægt, við erum nú einu sinni að tala um Žižek). Þetta er ekki mynd fyrir alla, hún er ekkert léttmeti og engin skemmtun fyrir þá sem ekki hafa áhuga á pælingum um hugmyndafræði og menningu. Hluta umfjöllunarefnis myndarinnar er vel hægt að yfirfæra á heiminn eftir alþjóðlega fjármálakreppu, með upprisu þjóðernishyggju í hinum ýmsu kimum heimsins og er myndin því einnig mjög áhugaverð fyrir þá sem hafa gaman af að fylgjast með stjórnmálum. Ég bendi einnig á að myndin fylgir eftir fyrri mynd Slavoj Žižek og Sophie Fiennes Handbók kvikmyndaperrans (e. The Pervert‘s Guide to Cinema) sem kom út árið 2006 og gæti verið heillavænlegt að horfa á hana fyrst.
Höfundur er Védís Ragnheiðardóttir,
nemi í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands.