Bíó og TV

Birt þann 7. október, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: GMO OMG (2013) [RIFF]

„EBM GMG [GMO OMG] segir leynda sögu þess að risavaxin efnafyrirtæki hafa tekið yfir fæðuframboð okkar; landbúnaðarlegu hættuástandi sem er orðið að menningarlegu hættuástandi. Myndin fylgist með baráttu leikstjórans og fjölskyldu hans fyrir því að lifa og borða án þess að taka þátt í óheilbrigðu, ósanngjörnu og eyðileggjandi fæðukerfi. Er yfirtaka fæðukerfis heimsins óafturkræf? Eða er enn tími til að endurheimta hreinleikann, bjarga líffræðilegri fjölbreytni og okkur sjálfum?“ (RIFF)

GMO OMG er persónuleg heimildarmynd um erfðabreytt matvæli (Genetically modified organism, eða GMO). Í mörgum löndum, þ.á.m. Bandaríkjunum, ber fyrirtækjum ekki skylda til að merkja erfðabreytt matvæli sérstaklega og þar af leiðandi er engin leið fyrir neytendur að átta sig á því hvað er erfðabreytt og hvað ekki. Myndin undirstrikar hvernig kapítalismi getur tekið framúr heilbrigðri skynsemi og siðferði þar sem breytt matvæli fá að fara á markað án þess að búið sé að rannsaka almennilega mögulega skaðsemi þeirra. Myndin vekur upp spurningar um siðferði matvælafyrirtækja og hve hættulegt of lítið eftirlit getur haft í för með sér. Sambærilegar umræður hafa átt sér stað í garð notkunar sætuefna og „heilsuvara“ sem innihalda óhóflegt magn af sykri.

Myndin er séð út frá augum Bandaríkjamannsins Jeremy Seifert, sem er jafnframt leikstjóri og framleiðandi myndarinnar. Jeremy er þriggja barna faðir og segir stóran hluta sögunnar í gegnum börnin sín þar sem hann útskýrir ýmislegt fyrir þeim sem tengist erfðabreyttum matvælum. Þessi leið eykur tengslin við áhorfandann og ná börnin hans að gefa myndinni sterkan blæ. Mér þótti myndin eiga það til að fókusa of mikið á börnin og hefði ég helst viljað sjá minna af þeim (ekki illa meint Jeremy!). Efniviður myndarinnar er heldur alvarlegur og umfangsmikill og stundum þótti manni heldur skrítið að blanda börnunum í þetta ferðalag hans. Sama hvort þetta hafi verið listræn nálgun eða hræðsla Jeremy við að áhorfendur myndu ekki skilja efnið nema þeir yrðu mataðir líkt og lítil börn, að þá fannst mér þetta ekki virka neitt voðalega vel til lengdar.

GMO OMG

GMO OMG nær að tækla stórt efni nokkuð vel á 90 mínútum. Eins og áður sagði er horft á heiminn út frá augum Bandaríkjamanns og fókusinn settur á Bandaríkin, en Jeremy heimsækir einnig Haítí, Noreg og Frakkland. Jeremy er augljóslega á móti erfðabreyttum matvælum og er afstaða hans nokkuð ljós frá upphafi myndarinnar. Andrúmsloftið skapar ákveðinn ótrúverðugleika, sérstaklega þegar hann setur gasgrímur á krakkana áður en þau fara út að hlaupa um á erfðabreyttum akri. Mjög sérstakt atriði.

Kvikmyndatakan er falleg og einlæg og tónlistin fylgir vel á eftir og ýtir undir dramatískt ívaf myndarinnar. Þó svo að efniviður myndarinnar sé alvarlegur er myndin bæði áhugaverð og falleg í senn. Stundum líður manni eins og að Jeremy Seifert vilji frekar fókusa á persónulega skoðunar sínar en hlutlausar staðreyndir. Vissulega er vitnað í vísindamenn og bændur sem þekkja málið vel, en það vantar meira um hina hlið málsins sem verður til þess að heimildarmyndin verður á köflum of einhliða og nær persónulegri dagbók frekar en fagmannlega unninni heimildarmynd.

Þrátt fyrir galla myndarinnar varpar hún fram nauðsynlegum spurningum og gerir það á mjög ákveðin hátt. Sama hvort erfðabreytt matvæli geta skaðað okkur eða ekki, höfum við sem neytendur ekki rétt á því að vita hvernig vara var framleidd og hvað hún inniheldur? Eigum við ekki að fá að ákveða sjálf hvað við borðum og hvað ekki?

 

Höfundur er Bjarki Þór Jónsson,
ritstjóri Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑