Bíó og TV

Birt þann 6. október, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Airplane! (1980) [RIFF]

Bandaríska gamanmyndin Airplane! hefur endað á fjölda lista yfir fyndnustu kvikmyndir allra tíma, og ekki að ástæðulausu. Myndin var sýnd á hinu árlega sundbíói kvikmyndahátíðarinnar RIFF í innilaug Laugardalslaugar sem var breytt í flugvöll auk þess sem boðið var upp á veitingar.

Myndin segir frá Ted Striker sem áður flaug í flughernum en sökum skelfilegrar reynslu hefur hann ekki þorað að stíga fæti aftur upp í flugvél. Flugfreyjan Elaine Dickinson, kærasta Teds, hefur fengið nóg af óstöðugleika og óvissu í fari Teds, en hann er ekki tilbúinn til að missa  Elaine og tekur það djarfa skref að kaupa flugmiða í flugi sem hún er flugfreyja í. Myndin gerist að mestu leiti í flugvélinni sem er stútfull af steríótýpum, vitleysingum, kjánum og óvæntum atburðum.

Robert Hays og Julie Hagerty fara með aðalhlutverkin í myndinni. Einnig fara þau Leslie Nielsen, Robert Stack, Lloyd Bridges, Peter Graves, Kareem Abdul-Jabbar og Lorna Patterson með hlutverk í myndinni. David Zucker, Jim Abrahams og Jerry Zucker skrifuðu handritið og leikstýrðu.

Airplane

Í raun er sagan algjört aukaatriði þar sem sjarmi myndarinnar felst fyrst og fremst í ótrúlegum fjölda hágæða fimm-aura-brandara sem eru líklega fleiri en hárin á höfði mér. Grínið virkar enn mjög vel þrátt fyrir að myndin sé frá árinu 1980. Þeir lesendur sem hafa séð klassískar gamanmyndir eftir Mel Brooks, Naked Gun myndirnar eða Top Secret! með Val Kilmer í aðalhlutverki vita í hvaða pakka þeir eru að detta í hér. Brandararnir eru ótrúlega grunnir og kjánalegir – það kjánalegir að þeir svínvirka!

Airplane! er ein af þeim myndum sem þú verður að sjá! Klassísk gamanmynd sem hefur staðist tímans tönn og er sannkallaður gullmoli fyrir þá sem elska hágæða og tímalausan aulahúmor.

Rumack: Can you fly this plane, and land it?
Ted Striker: Surely you can’t be serious.
Rumack: I am serious… and don’t call me Shirley.

 

RIFF sundbíó!

Airplane RIFF sundbíó

 

Höfundur er Bjarki Þór Jónsson,
ritstjóri Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑