Loka valmynd
    Facebook Instagram YouTube Spotify TikTok Twitch
    Nörd Norðursins
    Facebook Instagram YouTube Spotify Bluesky TikTok Twitch
    • Fréttir
    • Greinar
    • Leikjarýni
    • Íslenskt
    • Leikjavarpið
    • Viðburðir
    Nörd Norðursins
    Heim»Tölvuleikir»Greinar»Þroskandi meginstraums leikir fyrir unga krakka
    Greinar

    Þroskandi meginstraums leikir fyrir unga krakka

    Höf. Steinar Logi2. september 2013Uppfært:1. maí 2017Engar athugasemdir7 mín. lestur
    Facebook Twitter LinkedIn Reddit WhatsApp Tölvupóstur Bluesky Afrita hlekk
    Deila
    Facebook Tölvupóstur Afrita hlekk

    Það eru ótal leikir sem börn á aldrinum 5-10 hafa gaman af s.s. Angry Birds, Wii leikir, Lego hitt og þetta, Mario leikir og svo mætti lengi telja. Hér verða teknir fyrir nokkrir leikir sem er hægt að færa rök fyrir að séu þroskandi (þetta þýðir ekki að aðrir leikir séu ekki þroskandi en þessir standa uppúr að einhverju leyti). Þetta er ekki sama og kennsluleikir heldur eru þetta hefðbundnir, vinsælir leikir sem eru um leið þroskandi fyrir börn hvort sem það tengist sköpunargleði, rökhugsun, skipulagsþjálfun eða einhverju öðru.

    Margir foreldrar sem leyfa börnunum sínum að grípa einstaka sinnum í tölvuspil hafa heyrt þetta frá einhverjum ættingja: „Viltu ekki fara út að leika þér í stað þess að spila tölvuspil?“ eða „hva, á að spila í allan dag?“ (skiptir engu máli þó að krakkinn hafi bara verið að spila í fimm mínútur). Hins vegar heyrist ekkert þegar verið er að horfa á Tomma og Jenna drepa hvorn annan. Þessir leikir henta vel til að stinga uppí þessa ættingja þegar þú bendir þeim á það góða sem börnin fá út úr þeim. Leikirnir eru í engri sérstakri röð.

     

    Thomas Was Alone

    Thomas Was Alone

    Þroskaþættir: Rökhugsun, viðbragðsflýtni, samhæfing augna og handa, þrautir
    Fáanlegur á: PC, Mac, PS3, Vita og Linux

    Ég hafði heyrt góða hluti um þennan leik en mig grunaði ekki hversu barnvænn hann er. Eins og margir góðir hlutir þá er hann mjög einfaldur, þú ert kassi sem hoppar. Of einfalt? Ok, það bætast við aðrir kassar, mismunandi í lögun, sem hafa sinn einstaka hæfileika og þurfa að vinna saman. Þetta er pallaleikur þar sem þú þarft að leysa þrautir til að komast á næsta borð. Fyrir börnin þá heillar einfaldleikinn og þrautirnar, fyrir hina fullorðnu þá eru það þrautirnar og mjög skemmtileg saga (sögumaður lýsir hugsunum hvers „kassa“ fyrir sig á mjög skemmtilegan hátt og ljáir þeim hver sinn persónuleika).

     

    Scribblenauts Unlimited

    Scribblenauts Unlimited

    Þroskaþættir: Ímyndunarafl, sköpunargleði, enskukennsla (foreldri/umráðamaður þarf að aðstoða við að skrifa orðin)
    Fáanlegur á: PC, Nintendo 3DS og Wii U

    Hugmyndin á bak við Scribblenauts virkar eins og að gömlu textaleikirnir hafi þróast þannig að í stað þess að nota einn ákveðinn hlut til að leysa eitthvað vandamál („unlock door with key“) þá getur maður notað hvaða hlut sem manni dettur í hug (t.d. „use bulldozer to smash door“, „dissolve door with acid“ eða „use transdimensional teleporter on door“). Leikurinn gengur semsagt út á það að leysa vandamál innan leikjaheimsins með því að nota hvaða hlut sem þér dettur í hug. Þú ert með þína sýndarskrifblokk og einfaldlega skrifar þann hlut sem þú vilt að birtist í leikjaheiminum. Þetta er einstaklega góður leikur fyrir íslensk börn því að þau læra bæði ensku og það að leysa vandamál (oftar en ekki á óvenjulegan hátt þ.e.a.s. að hugsa „út fyrir boxið“). Aðalsöguhetjan getur ferðast samstundis á milli ýmissa staða í heiminum svo að ef maður gefst upp á einni þraut þá eru margar aðrar í gangi. Sem dæmi úr leiknum þá vorum við lengi búnir að glíma við hvernig ætti að losa sig við geislavirkan úrgang. Það var sjávarskrímsli nálægt (ekki gefa því spegil, það verður hrikalega þunglynt) en það vildi ekki borða náttúruspillinn. Eftir nokkra umhugsun datt okkur í hug svarthol og það gekk! Við urðum hins vegar að henda því fljótlega því að það byrjaði að soga í sig alla fiskana í sjónum.

     

    Minecraft

    Minecraft

    Þroskaþættir: Ímyndunarafl, sköpunargleði
    Fáanlegur á: PC, Xbox360, iOS, Android, væntanl. á PS3, PS4 og Vita

    Það kemur væntanlega engum á óvart að sjá Minecraft á þessum lista. Minecraft er nokkurs konar kubbaheimur í 8-bita stíl þar sem spilarinn getur búið til nánast hvað sem er með réttu hráefnunum. Það er hægt að höggva tré til að fá timbur, veiða fisk, búa til gler með því að bræða sand, búa til hús og ýmsar byggingar, jafnvel borgir og endalaust fleira. Þessi tölvuspilanotkun er áræðanlega samþykkt af afa og ömmu því þetta kennir barninu gildi þess að vinna! Það vantar bara sýndarsvitann.

    Leikurinn ýtir undir sköpunargleði barna og hugmyndaflugið fær algerlega að njóta sín. Fyrir þau yngstu er best að notast við „Creative Mode“ því að þar birtast skrímsli ekki á næturna (og maður getur flogið um heiminn).

     

    Peggle

    Peggle

    Þroskaþættir: Samhæfing augna og handa, viðbragðsflýtni
    Fáanlegur á: Flestar tölvur og leikjatæki

    Peggle var fyrsti leikurinn sem sonur minn kynntist u.þ.b. þriggja ára og þar með heimi tölvuspila (bless, bless íþróttamaður ársins 2030, halló framtíðar Gabe Newell). Þetta er kúluspilaleikur með fjölda borða þar sem takmarkið er að klára appelsínugulu punktana og til þess hefur maður ákveðið magn af kúlum. Þetta er afbrigði af kúluspili en spilarinn getur stjórnað hvert hann skýtur kúlunni.

     

    LittleBigPlanet

    LBP

    Þroskaþættir: Sköpunargleði, samhæfing augna og handa, viðbragðsflýtni, samvinna
    Fáanlegur á: PS3 og PSP

    LBP er mjög skrautlegur og skemmtilegur leikur þar sem spilarar geta hannað sína eigin litlu fígúru sem reynir að komast í gegnum pallaborð, bæði þau sem fylgja leiknum og sem aðrir spilarar hafa búið til. Þetta er samt annað og meira en bara leikur, LBP er samfélag því að mikil áhersla er lögð á þann hluta. Eins og áður sagði þá er hægt að búa til borð sem inniheldur nánast allt sem manni dettur í hug og látið aðra spila. Þegar maður hefur spilað borðið er hægt að gefa því einkunn og því eru margir sem vanda sig mikið við að gera góð borð. Auðvelt er að spila með öðrum spilurum og fylgja þeim milli leikja. Þetta er því félagslyndur leikur sem reynir á sköpunargleði en er alltaf skemmtilegur. Sjálfur hef ég ekki reynslu af LBP 2 en hann er áræðanlega ekki síðri.

     

    Transformers: Fall of Cybertron

    Transformers - FoC

    Þroskaþættir: Samhæfing augna og handa, samvinna, viðbragðsflýtni
    Fáanlegur á: PC, PS3 og Xbox360

    Hernaðarleikir eins og Call of Duty serían er meðal þeirra vinsælustu í dag og ekki að ástæðulausu. Fyrir þá sem vilja stanslausan hasar og smá útrás þá eru svona fjölspilunarskotleikir tilvaldir. Þeir henta hins vegar ekki ungum krökkum en þó eru til nokkrir leikir eins og Transformers: FoC sem eru uppbyggðir á sama máta en innihalda ekki sömu blóðsúthellingar. Leikurinn hefur sína eigin sögu en fjölspilunarhlutinn er ennþá frekar vinsæll og ekki hefur verið erfitt að finna andstæðinga þó hann sé farinn að eldast. Þetta er tilvalinn leikur fyrir stráka sem elska risavélmenni. Það er nær ekkert um „ljót“ skilaboð eins og eru algeng í hinum fjölspilunarskotleikjunum og þetta virðist vera ágætis samfélag (PS3).

     

    Portal 2

    Portal2

    Þroskaþættir: Samvinna, þrautir, samhæfing augna og handa, viðbragðsflýtni
    Fáanlegur á: PC, Mac, PS3 og Xbox360

    Portal 2 komst nýlega á listann minn nær eingöngu vegna samvinnuleikjarins þ.e.a.s. „co-op“. Þar vinna tvö vélmenni saman og það sem gerir þetta einstaklega skemmtilegt fyrir börn er hvað vélmennin eru fyndin og skrýtin (Wall-E stemning). Það er góð skemmtun fyrir foreldra að spila þetta með börnum sem eru fljót að læra á svona leikjaheima og geta hjálpað með að leysa þrautir (þó að þau gleymi sér stundum við að gefa manni „high-five“ eða fara í „rock-paper-scissors“ endalaust).

     

    Kinect / Move / Wii leikir

    Kinect og PS Move

    Þroskaþættir: Hreyfing
    Fáanlegir á: PS3, Xbox360 og Wii

    Þegar barnið hefur ekki fengið að hreyfa sig nóg yfir daginn er oft gott að klykkja út með þessum leikjum og það eru margir í boði. Sjálfur þekki ég Kinect best og einstaka sinnum er gripið í Kinectimals eða Kinect Adventures (samt sorglega sjaldan).

     

    Þá er þessi listi minn búinn og ég veit að það er fullt af leikjum sem hægt er að bæta við (Fez þarf ég t.d. að prófa), endilega skiljið eftir athugasemdir.

    LBP Leikir fyrir krakka Minecraft Peggle portal 2 Steinar Logi Sigurðsson
    Deila. Facebook Twitter Reddit Tölvupóstur Bluesky Afrita hlekk
    Fyrri færslaBíó Paradís: Stafrænar sýningar taka við filmusýningum
    Næsta færsla Nýjar stiklur úr War Thunder og The Death Of Superman Lives
    Steinar Logi

    Svipaðar færslur

    Leikjavarpið #63 – Icelandic Game Fest og The Game Awards

    2. desember 2025

    Fyrsti hálftíminn í Master Lemon: The Quest for Iceland

    20. nóvember 2025

    Vefur Samtaka leikjaframleiðenda uppfærður

    19. nóvember 2025

    Leikjafyrirtækin á Íslandi aldrei fleiri en nú

    19. nóvember 2025

    Leikjavarpið #62 – Steam Machine og GTA VI seinkað

    17. nóvember 2025

    Minnist vinar síns í nýjum tölvuleik – „André dreymdi um að læra íslensku“

    14. nóvember 2025
    Nýtt á Nörd Norðursins

    The Game Awards í beinni 11.-12. desember

    4. desember 2025

    Leikjavarpið #63 – Icelandic Game Fest og The Game Awards

    2. desember 2025

    Durtar og yfirnáttúruleg öfl í IKEA og Nexus

    23. nóvember 2025

    Fyrsti hálftíminn í Master Lemon: The Quest for Iceland

    20. nóvember 2025

    Vefur Samtaka leikjaframleiðenda uppfærður

    19. nóvember 2025
    Leikjarýni
    8

    Anno 117: Pax Romana

    11. nóvember 2025
    9

    Áttum við að tengjast?

    15. júlí 2025
    8

    Skemmtilegt nostalgíu ferðalag í nýjum búningi

    7. maí 2025
    8

    Indiana Jones and the Great Circle: Enn betri á PlayStation 5 og PS5 Pro

    2. maí 2025
    6

    Krúttleikurinn Hello Kitty Island Adventure dalar hratt

    21. mars 2025
    Nýjast á Youtube
    https://youtu.be/84R6rYZR0nQ

     Um okkur 

    Leita á vef
    Nýjar færslur
    • The Game Awards í beinni 11.-12. desember
    • Leikjavarpið #63 – Icelandic Game Fest og The Game Awards
    • Durtar og yfirnáttúruleg öfl í IKEA og Nexus
    • Fyrsti hálftíminn í Master Lemon: The Quest for Iceland
    • Vefur Samtaka leikjaframleiðenda uppfærður
    Facebook Instagram YouTube Spotify Bluesky TikTok Twitch
    © 2025 Nörd Norðursins.

    Skrifaðu fyrir ofan og ýttu á Enter til að leita. Ýttu á Esc til að hætta við.