Spil

Birt þann 10. september, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

Spilarýni: Timeline

Spilarýni: Timeline Nörd Norðursins

Samantekt: Timeline er skemmtilegt sunnudagsspil, það er rólegt án þess að vera óspennandi.

4

Skemmtilegt


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

 

> Aldur 8+
> Leikmenn 2-8
> Spilatími 15 mínútur+

Védís Ragnheiðardóttir skrifar:

Timeline frá Asmodée er í senn auðvelt og skemmtilegt spil, það hentar öllum aldurshópum en reynir skemmtilega á þekkingu spilara og minni. Í stuttu máli sagt gengur spilið út á að raða spjöldum með uppfinningum, uppgötvunum, sögulegum atburðum og atburðum úr tónlistar- og kvikmyndasögunni í röð eftir tíma. Sá er krýndur sigurvegari sem nær fyrstur að leggja öll sín spjöld niður á réttum stöðum í mannkynssögunni. Til eru fimm Timeline spil með ólíkum áherslum; Inventions, Discoveries, Historical Events, Music & Cinema og Diversity sem blandar saman spjöldum úr mörgum flokkum. Kaupi maður sér fleiri en eina útgáfu er hægt að blanda þeim saman til að gera leikinn erfiðari og fjölbreyttari.

 

Gangur leiksins

Ekki er erfitt að læra leikreglur spilsins enda eru þær sáraeinfaldar. Allir spilarar fá 4-6 spjöld (fer eftir fjölda spilara) sem þeir leggja niður á borð fyrir framan sig með réttri hlið upp, hina hlið spjaldanna má ekki skoða. Yngsti leikmaðurinn hefur leikinn með að velja eitt af spjöldunum sínum og leggja á miðju borðsins – hann snýr því við og þá sést ártal tengt við uppfinninguna, uppgötvunina eða atburðinn.

Segjum sem svo að um hafi verið að ræða spjaldið The 1st Appearance of Sherlock Holmes – veist þú hvenær það var? 1887 segir spjaldið okkur. Nú er komið að næsta leikmanni. Hann hefur fyrir framan sig fjögur spjöld, segjum sem dæmi The Revolt of Spartacus, The Venus de Milo og The Invention of GPS. Nú reynir á minni leikmannsins. Hann þarf að velja eitt af þessum spjöldum og setja það í tímasamhengi við The 1st Appearance of Sherlock Holmes, annað hvort fyrr eða seinna í tíma. Takist honum það þá fækkar spjöldunum hans sem um nemur því sem hann lagði út – setji hann spjaldið á rangan stað fer það í ruslbunka en leikmaður þarf að draga nýtt spjald. Eftir því sem á líður leikinn verður erfiðara að finna réttan stað í tímalínunni enda verða atburðirnir nær hvorum öðrum í tíma og spjöldin sem leikmenn hafa úr að spila fækkar. Að lokum stendur einn uppi sem sigurvegari – sá sem fyrstur leggur sitt síðasta spjald niður á réttan stað.

Timeline spjöld

 

Niðurstaða

Timeline er skemmtilegt sunnudagsspil, það er rólegt án þess að vera óspennandi, það hentar vel í sumarbústaðinn eða ferðalagið enda umbúðirnar lítill og nettur álkassi sem þægilegt er að pakka niður. Spilið hentar fyrir mjög breiðan aldurshóp og geta ungir sem aldnir leikið það saman. Spjöldin eru á ensku en hana er auðvelt að þýða fyrir unga krakka auk þess sem lýsandi myndir eru á spjöldunum. Einnig má benda á að gerð hefur verið íslensk útgáfa af spilinu og gengur hún undir nafninu Tímalína.

ASTRA 2013Nýlega fékk Timeline Diversity verðlaun sem besta spil ársins í aldursflokknum 8+ frá bandarísku samtökunum American Speciality Toy Retailing Association, en þau samtök leggja áherslu á að verðlauna spil sem reyna á ímyndunarafl og sköpunargáfur barna. Það er þó ekki svo að skilja að þetta sé eingöngu barnaspil. Persónulega finnst mér gaman að grípa í spilið í góðra vina hópi, maður er ekki alltaf í stuði fyrir partíspil!

Helsti gallinn við spilið er að maður getur verið nokkuð fljótur að læra utan að ártöl atburðanna (meiri þekking er reyndar varla svo alvarlegur galli) enda ekki nema rúmlega 100 spjöld í kassa. Þetta er hægt að leysa með því að kaupa fleiri kassa og blanda þeim saman en kostur við Timeline er að miðað við mörg önnur borðspil er það alls ekki svo dýrt.

Ég get vel mælt með þessu spili fyrir þá sem gaman hafa að rólegum sunnudagsspilum, fyrir foreldra sem hafa gaman af að spila við börnin sín eða vilja hvetja þau til að leika leiki sem krefjast hugsunar og efla þekkingu.

 

Spilið fæst í Spilavinum.
Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Efst upp ↑