Bíó og TV

Birt þann 27. september, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Love, Marilyn (2012) [RIFF]

„Marilyn Monroe skóp sína opinberu persónu á kostnað þess að dylja sitt raunverulega sjálf  sem aðeins hennar nánustu þekktu. Leikstjórinn Liz Garbus byggði á persónulegum gögnum leikkonunnar, dagbókum og bréfum sem hafa aldrei sést áður og vann með þekktum leikkonum til þess að ná fram mismunandi hliðum hinnar raunverulegu Marilyn – ástríðu hennar, metnaði, sálarleit, afls og ótta. Þessi skjöl sem eru hér færð til lífs á hvíta tjaldinu með hjálp samtímadýrlinga og stjarna, færa okkur nýjan og afhjúpandi skilning á Monroe.“ (RIFF)

Á opnunardegi RIFF síðastliðinn fimmtudag skellti ég mér á heillandi heimildarmynd um líf og störf Marilyn Monroe. Þetta er ekki fyrsta heimildarmyndin sem ég sé um þessa frægustu konu kvikmyndasögunnar en ég myndi hiklaust segja að hún sé sú besta af þeim. Það eina sem ég vissi um myndina þegar ég settist í sæti mitt í Háskólabíó var að myndin væri að miklu leyti byggð á nýjum persónulegum gögnum, dagbókum og bréfum Marilyn og ég hlakkaði til að fá innsýn í hugarheim leikkonunnar. Að fá annað sjónarhorn en hið hefðbundna sjónarhorn áhorfenda, misgóðra vina, fjölmiðla og fólks sem vann með henni.

Formgerð myndarinnar kom mér því nokkuð á óvart og til að byrja með var ég mjög efins um hversu vel hún myndi virka. Í myndinni kemur fram fjöldinn allur af leikurum, meðal annarra Marisa Tomei, Uma Thurman, Glenn Close, Jennifer Ehle, Viola Davis, Evan Rachel Wood, Oliver Platt og Adrien Brody, sem túlka á listrænan máta brot úr dagbókum og bréfum Marilyn sem og úr ævisögum þeirra sem hana þekktu. Eins og við má búast heppnast túlkunin misvel og einnig nálgast leikararnir verkin á ólíkan máta. Sérstaklega á þetta við um brot úr bréfum og dagbókum Marilyn sjálfrar en margar leikkonur skiptust á að túlka þau. Þar sem rituð orð gefa litlar upplýsingar um tóntegund, hugarástand og fleira var áhugavert að sjá hvernig ólíkar leikkonur túlkuðu Marilyn á mismunandi hátt. Þessi ólíka nálgun gaf orðum Marilyn aukna vídd og krafðist þess að áhorfandi íhugaði sjálfur hvaða túlkun hann myndi beita. Þessi formgerð var því vel heppnuð – svo vel heppnuð að ég get varla ímyndað mér að myndin hefði gengið upp öðruvísi.

Eins og ég sagði áður hef ég séð fleiri heimildarmyndir um líf og störf Marilyn en samt komu fram í myndinni upplýsingar, aðrar en úr dagbókum og bréfum, sem ég hafði ekki heyrt áður, sem og myndefni sem ég hafði ekki séð. Þetta er þó algjör aukaatriði, stórstjarna myndarinnar eru orð Marilyn sjálfrar. Þar koma fram upplýsingar sem varpa nýju ljósi á stormasamt líf og hugarheim Marilyn, án þess að setja hana í hlutverk fórnarlambsins sem svo gjarnan er gert. Í myndinni er Marilyn ekki viðfangsefni annarra heldur segir hún sína sögu sjálf með hjálp leikkvennanna, hún er lifandi persóna uppfull af þrám, vonum, tilfinningum og plöguð af djöflum fortíðar sinnar. Framúrskarandi lestur kvennanna, sérstaklega Jennifer Ehle, Violu Davis, Marisa Tomei og Evan Rachel Wood, sem allar sýndu ólíka en trúverðuga túlkun á Marilyn, gæddu myndina lífi. Af þeim fjórum er Jennifer Ehle eftirminnanlegust, hér er komin leikkona sem vert er að fylgjast með í framtíðinni.

Myndin er góð viðbót í flóru þess gríðarlega efnis sem birt hefur verið um stórstjörnuna. Hún sýnir áhorfanda nýtt og áhugavert sjónarhorn á nýstárlegan og heillandi hátt. Þetta er mynd sem hver sá sem áhuga hefur á Hollywood, Marilyn Monroe, sálarlífi mannskepnunnar eða nýstárlegum heimildarmyndum ætti ekki að láta framhjá sér fara.

 

Höfundur er Védís Ragnheiðardóttir,
nemi í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands.

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑