Birt þann 21. ágúst, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Kvikmyndarýni: Eden Lake (2008)
Eden Lake er hrollvekjutryllir frá árinu 2008. Í myndinni fylgjumst við með parinu Steve (Michael Fassbender) og Jenny (Kelly Reilly) sem eru í rómatísku ferðalagi um landið og ákveða að slappa af og njóta náttúrunnar í Eden Lake, afgirtri náttúruperlu út í sveit. Hópur vandræðaunglinga gerir þeim lífið leitt á ströndinni og myndast fljótt rígur á milli parsins og unglinganna. Í kjölfar afskipta parsins á unglingunum fer af stað atburðarrás sem sýnir hve langt hópurinn er tilbúinn að ganga til að hefna sín vegna afskiptanna.
Ólíkt mörgum öðrum hrollvekjum er Eden Lake nokkuð trúverðug. Þarna eru illmennin ekki ofurnáttúrleg öfl, raðmorðingjar með grímur eða dularfullar verur, heldur hópur unglinga. Illmennin eru mun mennskari og raunverulegri en gengur og gerist og undirstrika hvað mannfólkið getur verið ruglað og ólíkt.
Myndin er augljóslega í ódýrari kanntinum en B-mynda fílingurinn virkar ágætlega þrátt fyrir að myndin taki sig nokkuð alvarlega. Flestir leikarar koma sínum persónum vel til skila, en leikkonan Kelly Reilly er þar klárlega undantekning og tónar myndina vel niður. Ekki aðeins er leikur hennar slappur, heldur er persóna hennar í myndinni jafnframt frekar ótrúverðug.
Eden Lake er ódýr lítil mynd sem skilar flest öllu nokkuð vel frá sér. Hryllingurinn er ekki mikill í myndinni en það má finna nokkra spennandi kafla. Sagan er einföld og illmennið áhugavert, en það vantar meiri kraft og fleiri hátinda í myndina til að gera hana eftirminnilega.
Höfundur er Bjarki Þór Jónsson,
ritstjóri Nörd Norðursins.