Bíó og TV

Birt þann 31. júlí, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: World War Z (2013)

Zombímyndin Zombieland sló heldur betur í gegn árið 2009 og sannaði eitt skipti fyrir öll að Hollywood getur framleitt góðar zombímyndir. Hollywood hefur líka sýnt okkur hve mikið er hægt að afbaka kvikmyndir sem eru byggðar á skáldsögum (eins og t.d. I Am Legend) og segja margir sem hafa lesið bókina að lítið sé skylt með World War Z bókinni og kvikmyndinni – nema titillinn sjálfur og einhver örfá atriði. Burt séð frá því mun ég dæma myndina sem kvikmyndaverk, óháð því hve vel eða illa hún náði að aðlaga sig að skáldsögunni.

Í World War Z er fylgst með Gerry Lane (Brad Pitt), fjölskylduföður og fyrrverandi starfsmanni Sameinuðu þjóðanna, sem hætti nýlega í starfi sínu til að eyða meiri tíma með fjölskyldunni. Fljótlega skellur á mikil ringulreið í heimaborg hans, Fíladelfíu, þar sem nýr vírus sem breytir fólki í hlaupandi „zombía“ (já, ég set orðið í gæsalappir þar sem þessir zombíar eru ansi óhefðbundnir og örugglega margir sem myndu seint flokka þá sem zombía) hefur breiðst hratt út. Gerry Lane gerir allt til að vernda fjölskyldu sína og um leið kynnist hann nýjum heimi sem nú er troðfullur af zombíum.

World War Z byrjar söguna með sprengingum og býður upp á nokkra spennandi spretti. Spenningurinn helst þó ekki í gegnum alla myndina og með tímanum verður viðfangsefnið þreytt og sagan gloppótt. Þrátt fyrir að zombíarnir séu hraðskreiðir og brjálaðir í myndinni ná þeir ekki að byggja upp hræðslu til að gera myndina spennandi. Það vantaði trúlega meira blóð og meiri splatter til að uppfylla mína zombíþörf, en World War Z er aðeins bönnuð börnum innan 12 ára á meðan flestar aðrar zombímyndir eru bannaðar innan 16 ára.

World War Z

Myndin er samt sem áður ágætis afþreying og á nokkra góða kafla (sérstaklega í fyrri hluta myndarinnar) en byggir á frekar veikum grunni. Persónulega fannst mér zombíarnir líka frekar leiðinlegir – trúlega vegna þess að þeir náðu ekki að vekja upp ótta og vegna þess hve lítið hlutverk þeir spiluðu í raun og veru í myndinni.

Zombímyndir bjóða yfirleitt upp á sterkan kokteil af hryllingi, blóði og jafnvel vibjóði og virðist World War Z eiga meira skylt með spennumynd en hryllingsmynd. Hver zombímynd hefur sín einkenni en World War Z virtist ekki bjóða upp á neitt sem skilur eitthvað eftir sig. Lítill sjarmi var yfir myndinni og litið var óvenju hátt upp til yfirvalda, stofnanna og hervalds, sem er oftar en ekki einmitt helsta gagnrýnisefni í mörgum zombímyndum.

Á heildina litið er myndin ákveðin vonbrigði og mun seint birtast á lista yfir bestu zombímyndirnar. Það er áhugavert að skoða zombíana í myndinni og skemmtilegt að sjá sjálfan Brad Pitt stúta nokkrum þeirra, en ekki búast við zombímynd sem skilur eitthvað eftir sig.


 

Höfundur er Bjarki Þór Jónsson,
ritstjóri Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑