Bíó og TV

Birt þann 22. júlí, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: The Funhouse (1981)

Tobe Hooper er nafn sem flestir hryllingsmyndaaðdáendur ættu að kannast við því hann leikstýrði tímamótaverkinu, The Texas Chain Saw Massacre frá 1974. Blómaskeið leikstjórans spannar áttunda og níunda áratuginn, eftir það hefur hann aðallega leikstýrt sjónvarpsþáttum hér og þar. Aðrar myndir sem hann hefur komið að og eru vel þekktar má meðal annars nefna sjónvarpsmyndina Salem’s Lot frá 1979, byggða á skáldsögu Stephen King, og Poltergeist frá 1982. Aðrar myndir eru ekki eins vel þekktar af einhverjum ástæðum, The Funhouse frá 1981, er ein af þeim og gerði Hooper hana á milli hinna fyrrnefndu mynda.

The Funhouse er alls ekki flókin mynd, hún fjallar um tvö pör sem fara á tvöfalt stefnumót í farandstívólíi sem ákveða síðar að gista yfir nóttina í draugahúsinu. Þau verða vitni að morði, uppgötva að þau séu læst inni og þá eru góð ráð dýr. Að vissu leyti er hún keimlík The Texas Chain Saw Massacre ef maður tekur meginatriðin saman: hópur af unglingum fer eitthvert sem þau ættu ekki að vera og er slátrað af stórskrítinni fjölskyldu. Nema það að yngri bróðir einnar stelpunnar laumast út svo hann geti líka farið í tívólíið.

Funhouse

Það merkilega við myndina er hversu mikill tími fer í uppbyggingu í staðinn fyrir stanslaus dráp sem einkenndi slægjumyndirnar sem urðu svo vinsælar í kjölfarið á Halloween og Friday the 13th. Fókus myndarinnar er meiri á tívólíð heldur en sjálfar aðalsögupersónurnar, sem lætur manni líða eins og maður hafi farið í tívólí. Það er farið í þessi dæmigerðu leiktæki en svo er það hið undarlega sem tekur völdin, stökkbrigði, galdrasýningar og lófaspár. Það er ekki erfitt að hrífast með og heillast þegar stemmningunni er náð svo vel með tónlistinni og litagleðinni.

Funhouse

Maður spyr sig, hver er vondi maðurinn? Eru það þeir sem unglingarnir mæta í draugahúsinu eða þau sjálf? Þetta er ekki eins svart og hvítt eins og í flestum hryllingsmyndum. Unglingarnir sýna starfsfólkinu litla virðingu og finnst þetta allt fyndið. Svo er það „fjölskyldan“ sem samanstendur af eiganda tívólísins og syni hans sem eru í raun að verja sjálfan sig, eins og þeir einir kunna. Sonurinn er kallaður skrímsli og auðvitað hegðar hann sér eins og skrímsli því þannig vill fólk sjá hann. Það er sjaldgjæft að sjá hryllingsmynd þar sem maður finnur til með „vonda manninum“.

Á yfirborðinu virðist þetta vera dæmigerð og lauflétt mynd en hún er aðeins dýpri en það og kemur jafnvel á óvart nokkrum sinnum. Það þarf ekki annað en að nefna byrjunaratriðið sem er ekkert nema snilld, þar er vísað í tvær þekktar hryllingsmyndir, Halloween og Psycho, og svo aðeins ruglað í áhorfandanum. Útkoman úr þeirri senu hefur síðan bein áhrif á framvindu sögunnar seinna í myndinni; þrátt fyrir það að þessi fyrsta sena var aðeins bætt við eftir á, fyrir tilstuðlan yfirmanna hjá Universal vegna þess hversu hæg myndin var að komast að draugahúsinu.

Eins snjöll og þessi mynd er þá verð ég að segja að endakaflinn er frekar slappur, ætli það sé ekki vegna þess hversu opið umhverfið er í myndinni. Það er engin innilokunarkennd þrátt fyrir það að þau séu læst inní draugahúsinu og það hefði örugglega verið hægt að gera meira úr læðupúka leiknum milli feðganna og unglinganna.

 

Blu-ray diskurinn

Funhouse Blu-rayBlu-ray diskurinn umræddi er frá Shout! Factory sem er hluti að nýlegri línu, sem einblínir á útgáfur af hryllingsmyndum og er kölluð Scream! Factory. Diskurinn er læstur á A-svæðið og því þarf fjölkerfa Blu-ray spilara (eða í mínu tilviki, bandaríska PlayStation 3 leikjatölvu). Á flestum, ef ekki öllum, útgáfum á þessari línu eru tvö plaköt í hulstrinu; það er hægt að velja um upprunalega plakatið eða nýtt sérhannað plakat til að prýða hulstið.

Myndin er í breiðtjaldsforminu 2.35:1 og er hægt að velja á milli tveggja hljóðrása, hins vegar 5.1 eða 2.0 DTS-HD Master Audio. Það fylgir einnig enskur texti með kvikmyndinni.

Það er ekki hægt að kvarta yfir mynd-og hljóðgæðunum, enda er þetta Blu-ray diskur og það er vel að honum staðið. Staðallinn er hár í þessari nýju línu þar sem hver mynd fær að skína og vonandi að ná til nýs hóps í kjölfarið.

Myndgæðin eru stórgóð, miðað við aldur myndarinnar, og það sem skín í gegn er litagleðin sem kvikmyndatökustjórinn heitinn Andrew Laszlo á heiðurinn að. Hooper hreifst af sterku litunum í kvikmyndinni The Warriors og það var ástæðan að hann var fenginn í verkið. Hljóðgæðin eru ekkert síðri og er það tónlistin eftir John Beal sem stelur senunni. Framleiðendur myndarinnar vildu alvöru tónverk með sinfóníuhljómsveit, sem var á undanhaldi í kjölfar byltinga og vinsælda á hljóðgervlum. Beal nær að skapa drungalegan tónheim fullkomlega sem margir tengja við tívólí og sirkusa.

Aukaefnið sem er í boði er vel þegið, þrátt fyrir að það líti ekki út fyrir að vera mikið þá er alltaf eitthvað áhugavert sem kemur fyrir í hverjum hluta. Allt aukaefni er ótextað og er í háskerpu.

Funhouse

Tobe Hooper, leikstjórinn, er með yfirlestur á myndinni og með honum er kvikmyndagerðarmaðurinn Tim Sullivan sem heldur honum við efnið sem spyrill. Þeir ná vel saman þrátt fyrir að þetta hljómi á köflum stirt og þurrt þá koma nokkrar góðar sögur fram; til dæmis má nefna að við tökur á einni senu sem tók nokkrar tökur og þar sem hringekkja var ekki stöðvuð inná milli taka þá voru statistar byrjaðir að æla undir lokin þannig að tökuliðið hélt að það væri byrjað að rigna.

The Barker Speaks! er 11:15 mín. langt viðtal við Kevin Conway sem er frekar stutt. Hann hefur ekkert nema góðar minningar um tökurnar og það áhugaverðasta var að hann ákvað að gera myndina bara ef hann fengi að leika alla þrjá kynnana (og einn af þeim er faðir skrímslisins).

Something Wicked This Way Comes er 8:44 mín. langt viðtal við Mark L. Lester sem vann sem framleiðandi á þessari mynd. Það helsta sem kemur upp hér er ferðalagið sem þessi mynd fór í, frá því að vera lítil sjálfstæð mynd yfir í nokkuð stóra kvikmynd á vegum Universal kvikmyndaversins.

Carnival Music er 10:01 mín. langt viðtal við John Beal, tónlistarskáld myndarinnar. Hann fer hratt og örugglega yfir allt það helsta sem viðkom hans þætti við gerð myndarinnar, en hann samdi tónlistina eftir að myndin hafði verið tekin upp. Það sem kemur ekki fram en kom mér á óvart, þegar ég grenslaðist fyrir um hann á imdb.com, er að hann sérhæfir sig í tónlist fyrir stiklur og á hann þátt í mörgum þekktum stiklum á borð við Star Wars, Ghost og The Matrix.

Það er síðan 2:30 mín. stutt viðtal á hljóðrænu formi við leikarann William Finley, sem lék í einni senu í myndinni sem töframaður. Upprunalega viðtalið er mun lengra en þetta er hljóðbúturinn sem viðkemur The Funhouse. Í lokin kemur nokkuð áhugavert sem kemur ekki fram í yfirlestrinum, það er eins og að leikstjórinn hafi átt í einhverjum vandræðum eða að minnsta kosti ósáttur þar sem handritið hafi verið klippt niður eða honum hafi verið sagt að flýta sér.

Það eru 6 ónotaðar senur, samtals 5 mín. að lengd, sem voru notaðar þegar myndin var sýnd í sjónvarpi í Bandaríkjunum til þess að ná lágmarks lengd í staðinn fyrir nekt og ofbeldi sem var klippt úr. Í rauninni ekkert sem er ómissandi en áhugavert að sjá.

Í restina eru nokkrar sjónvarps-og útvarpsauglýsingar fyrir myndina, samtals rúmar 4:30 mín. að lengd. Það má sjá glitta í nokkur skot sem ekki er að finna í lokaútgáfunni af myndinni. Í lokin er líka að finna upprunalegu stikluna sem er 1:28 mín. að lengd.

Funhouse

Til gamans má nefna að það er til önnur útgáfa af The Funhouse á Blu-ray, en hún er frá Arrow Wideo sem er starfrækt í Bretlandi og er að gera góða hluti varðandi hryllingsmyndir á DVD og Blu-ray. Þeirra útgáfa var upprunalega ólæst, en endurpressun er læst á B-svæði. Það er mikið aukaefni á þeim disk og er það allt óskyllt þessari útgáfu. Hugsanlega er sá diskur eigulegri en þessi, en báðir eiga að vera mjög sambærilegir varðandi myndgæðin.

Þrátt fyrir smá vonbrigði varðandi myndina, þá er ég samt ánægður með diskinn og að hafa séð myndina. Aukaefnið skemmir alls ekki fyrir og gefur mann nasaþef að því sem gerðist við gerð myndarinnar.

 

Höfundur er Jósef Karl Gunnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑