Bíó og TV

Birt þann 8. júní, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Sjónvarpsþáttarýni: Day Break (2006-2007)

Hvað ef…?

Flestir hafa einhvern tímann dreymt um að upplifa sama daginn aftur til að breyta einhverju til hins betra. En hvað ef maður myndi upplifa sama daginn aftur og aftur, væri sá eini sem vissi þetta og að það væru engar vísbendingar um að það myndi nokkurn tímann hætta?

Kvikmyndir og sjónvarpsþættir hafa í gegnum tíðina fjallað um þetta tiltekna fyrirbæri sem er tímalykkjan; þekktasta dæmið er klárlega gamanmyndin Groundhog Day með Bill Murray. En það hafa verið fleiri dæmi eins og 12:01 (smásaga sem var gerð bæði sem stuttmynd og sjónvarpsmynd), sjónvarpsþættirnir Tru Calling og myndir á borð við Primer, Source Code og Timecrimes.

Day Break er sjónvarpssería frá 2006 sem var sýnd á ABC sjónvarpstöðinni í Bandaríkjunum. 13 þættir voru pantaðir en hætt var að sýna þættina eftir aðeins 6 þætti vegna lélegs áhorfs; seinni þættirnir 7 voru hins vegar til sýnis á netsíðu ABC sem var óvenjuleg leið til þess að leyfa áhorfendum að sjá þættina enda með sómasamlegum hætti. Þættirnir voru sýndir sumarið 2007 á RÚV. Það mætti segja að þættirnir séu samblanda af Groundhog Day og 24.

Það mætti segja að þættirnir séu samblanda af Groundhog Day og 24.

Brett Hopper (Taye Diggs) er rannsóknarlögreglumaður í fíkniefnadeildinni og hann getur lítið kvartað yfir lífinu þar sem hann vaknar með gullfallegu kærustu sinni, Ritu (Moon Bloodgood). Á leiðinni heim til sín bjargar hann konu frá því að verða fyrir rútu og eftir það fer dagurinn versnandi. Hann er ekki fyrr kominn heim þegar hurðinni er sparkað upp og hann er ákærður fyrir morðið á einum saksóknara borgarinnar. Brett er handtekinn, yfirheyrður og færður í fangelsi; um nóttina er hann rotaður og tekinn á afvikinn stað þar sem honum er hótað öllu illu og sagt að gera það sem honum er sagt. Hann er svæfður og þegar hann vaknar er hann uppí rúmi hjá Ritu og smásaman rennur upp fyrir honum að hann er að upplifa sama daginn aftur… og hann mun endurtaka daginn aftur og aftur.

Það er ekki hægt að saka þessa þætti um leti né miklar endurtekningar enda er auðvelt að detta í þann pakka þegar þættir nota stór hugtök. Fólkið á bakvið þættina vildu einmitt ekki sjá það sama gerast mörgum sinnum því þeir vildu ekki að fólk fengi leið á þáttunum. Brett þarf að komast að því hver eða hverjir standa á bakvið þetta stóra samsæri og vona að það muni breyta deginum. Hann reynir allt í bókinni en þetta virðist engan endi ætla að taka og hann á erfitt með að treysta öðrum fyrir vandamálum sínum þar sem enginn trúir honum. Bara ef hann hefði sagt að þetta væri mjög svipað og Groundhog Day með Bill Murray, það hefði verið mjög góð útskýring.

Það þarf að fylgjast vel með í þáttunum því Brett þarf að halda mörgum boltum á lofti í einu þar sem hann stendur að mestu leyti einn í þessu. Sem betur fer, fyrir áhorfandann, skyggnumst við inní hugsanir Bretts þar sem hann man eitthvað sem kom fyrir hann áður en samt á sama deginum. Það er ekkert slórað í þessum þáttum, það er stanslaus keyrsla og því auðvelt að komast í gegnum nokkra þætti í röð. Þrátt fyrir að þetta séu spennuþættir er smá húmor í þeim sem er ávallt plús. Það sem sker Day Break frá öðrum þáttum mætti segja að væri klippingin en það er oft reynt að komast inn og útúr senum sem fyrst því það gerist svo mikið í hverjum þætti. Þegar er verið að minna áhorfendur á eitthvað fáum við nokkur örstutt skot svo allir séu á sömu blaðsíðunni.

DVD útgáfan

Day Break hefur aðeins verið gefin út á DVD í Bandaríkjunum og eru til tvær útgáfur af sama pakkanum. Serían var upprunalega gefin út af BCI Eclipse en eftir að það fyrirtæki fór á hausinn var hún seinna gefin út af Mill Creek Entertainment. Ég á fyrri útgáfuna sem á að vera betri útgáfan þar sem seinni útgáfan treður öllu efninu á 2 diska í staðinn fyrir 4 auk þess sem umbúðirnar hafa verið gagnrýndar fyrir að vera illa hannaðar.

Þættirnir eru sýndir í breiðtjaldsforminu 1.78:1, endurkóðuð fyrir öll sjónvörp, og er hægt að velja á milli tveggja enskra hljóðrása, Dolby Digital 5.1 eða Dolby Surround 2.0. Engan texta er að finna á diskunum. Það er í raun ekki hægt að segja neitt slæmt um myndgæðin né hljóðið; litirnir og myndatakan er stundum ýkt en það er bara stíllinn og hljóðsviðið miðast að mestu leyti við fram hátalarana en dýptin er þó meiri á 5.1 rásinni.

Day Break DVDFyrir fólk sem elskar yfirlestur á kvikmyndum eða þáttum þá er af nógu að taka því það eru 15 umtöl, sem sagt eitt umtal á hverjum einasta þætti og fyrstu tveir þættirnir fá tvö umtöl. Áhugaverðast fyrir mig var að heyra hvernig stíllinn varð til, þannig að umtölin með leikstjóranum Rob Bowman, sem hefur leikstýrt fjöldan allan af X-Files þáttum, og klipparanum Martha Evry voru stútfull af áhugaverðum sögum. Leikarar og handritshöfundar koma líka við sögu en þá er meira sprellað og kannski ekki eins uppfullt af innihaldsríkum sögum og hin umtölin. Nokkrir skemmtilegir punktar komu upp varðandi ýmsar reglur sem sumar sjönvarpsstöðvar og ritskoðunarnefnd halda úti; það er t.d. viss fjöldi byssuskota sem má heyrast í einum þætti, má ekki beina byssu upp að höfði fólks og fólk verður að vera í bílbelti þó bíllinn sé ekki á ferð. Eitt fannst mér hálf móðgandi, skapari þáttarins bendir á að það sé einn rammi í síðasta skotinu til að auðvelda áhorfendum að átta sig á hvaða persóna er sýnd á mynd. Ég í rauninni hafði aldrei tekið eftir þessum ramma, fyrr en ég heyrði umtalið. Vissulega tekur maður eftir því þegar maður veit af því en þá lítur þetta út eins og villa. Eftir allt talið um hversu gáfaðir áhorfendur séu orðnir, eftir hversu lítinn skjátíma þeir þurfa að sýna upplýsingar um það sem gerðist fyrr eða í öðrum þáttum, að þeir skulu halda að fólk myndi ekki átta sig á því hvaða persóna þetta sé.

Restin af aukaefninu er frekar slappt en allavega hægt að renna yfir það einu sinni.

Það eru viðtöl við helstu leikarana sem er allt í allt um 12 og hálf mínúta að lengd. Einnig eru viðtöl við framleiðendur þáttanna og sumir þeirra eru einnig handritshöfundar eða leikstjórar. Þetta er frekar stutt, fer rétt yfir 4 mínútur.

Maður fær að fylgjast með tökum á einni senu úr fimmta þættinum og myndatöku til þess að kynna og auglýsa þættina og það er í raun frekar leiðinlegt að horfa á. Þetta er oftast kallað „B-Roll“ á flestum DVD diskum en hérna er þetta kallað „Behind the Scenes“ og því ákveðin vonbrigði. Maður fær að fylgjast með þessu í rúmlega 4 mínútur.

Í lokin er svo myndaalbúm sem inniheldur 50 myndir og tekur 2 og hálfa mínútu að rúlla í gegn um.

Ef það er verið að leita af spennuþáttum sem eru aðeins öðruvísi þá er Day Break alveg málið. Hraðir og skemmtilegir en auðvelt að fylgjast með – sérstaklega ef horft er á þá í nokkrum skömmtum. Ef fólk er hrætt við vísindaskáldskapinn í þessu, þ.e.a.s. tímalykkjuna þá þarf ekki að örvænta því það er ekkert kafað dýpra í þau mál. Engar skýringar eru gefnar á tímalykkjunni og þættirnir eru bara betri fyrir vikið að útskýra það ekki. Í aukaefninu er lauslega farið í hvar önnur serían myndi byrja og þar sem það eru nokkrir lausir endar þá hefði verið gaman að sjá aðra seríu. En miðað við það sem þeir sögðu þá er kannski best að þetta endaði svona. Þetta er líklegast í 3 eða 4 skipti sem ég horfi á seríuna frá byrjun til enda og ég hef alltaf jafn gaman að fylgjast með Brett Hopper glíma við 47 daga tímalykkjuna (en hugsanlega gætu þetta verið 49 dagar, því það er óljóst í 2 þáttum hvort um nýjan dag sé að ræða um eða beint framhald).

 

Höfundur er Jósef Karl Gunnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑