Birt þann 16. apríl, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Flóttinn til skýjanna – fyrsta íslenska gufupönkssagan
Flóttinn til skýjanna er ný íslensk gufupönkssaga eftir Kristján Már Gunnarsson sem kemur út í rafbókaformi í dag. Til gamans má geta að þá hefur Kristján nýlega birt efni á heimasíðu Nörd Norðursins, m.a. kynningu á ofurhetjuliðinu The Authority. Í tilefni útgáfunnar sendi bókaútgáfan Rúnatýr eftirfarandi fréttatilkynningu frá sér í dag:
Fyrsta skáldsaga Kristjáns Más Gunnarssonar segir frá ævintýralegum flótta, gufuvélum og sjóræningjum. Íslenskt gufupönk ryður sér til rúms.
Rómverska heimsveldið féll aldrei heldur óx og dafnaði. Flugskip svífa um himininn og landamæri veldisins þenjast út. Umsátursástand myndast um borgina Bushehr sem hrindir af stað atburðum sem munu skekja stoðir veldisins.
Segir sagan frá Trinius, sem er rómverskur og endar sem strandaglópur í borginni þegar umsátrið hefst. Hann tekur höndum saman við Júlíu, skipstjóra sjóræningjaskipsins Ariadne. Saman hrinda þau af stað flóttaáætlun sem er bæði stórhættuleg og snarbrjáluð.
En þegar hið mögulega þrýtur, reynirðu hið ómögulega.
Flóttinn til skýjanna er fyrsta bók í Rómarþríleiknum, þar sem loftskipssjóræningjar og leynifélög berjast um völd og áhrif. Leyndarmál úr fortíð veldisins koma í ljós og munu móta framtíð þess.
Gufupönk er vaxandi bókmenntagrein, þar sem vísindaskáldskapur rennur saman við fantasíu. Eins og nafnið gefur til kynna má finna þar vélar knúnar áfram af gufu og ævintýralega atburði. Sem dæmi um gufupönk mætti nefna bókina The Anubis Gates eftir Tim Powers, teiknimyndasöguna League of Extraordinary Gentlemen og tölvuleikinn Bioshock.
Sagan verður fáanleg í rafbókarformi í öllum helstu rafbókaverslunum landsins.
Kristján Már Gunnarsson er fæddur á Akranesi 1988 og útskrifaðist frá Háskóla íslands Með B.A í sagnfræði og B.A í ritlist 2012. Hann hefur skrifað smásögur og handrit frá því að hann man eftir sér og er staðráðinn í að gera það að ævistarfi sínu. Flóttinn til Skýjanna er fyrsta skáldsaga hans en eftir hann liggja sögur í nokkrum smásagnasöfnum.
– Fréttatilkynning frá Rúnatý