Birt þann 28. mars, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Leikjarýni: God of War: Ascension (2013)
God of War III var einn af uppáhaldsleikjum mínum 2010 og allt var á svo stórum skala að það var ekki hægt annað en að spyrja sig; hvernig á Santa Monica að fylgja þessu eftir? Ég er að berjast við gríska guði forkræingátlád! God of War:Ascension nær ekki álíka flugi og leikurinn olli mér vonbrigðum. Þetta er alls ekki alslæmur leikur og harðir aðdáendur fá áræðanlega talsvert úr honum en þeir þurfa að vera viljugir að líta framhjá göllunum.
Sagan
Ascension skyggnist inn í fortíð Kratos og gerist fyrir hina God of War leikina eða sex mánuðum eftir þann örlagaríka atburð sem gerði Kratos krónískt reiðan þ.e.a.s. þegar Ares olli því að hann drap fjölskyldu sína. Kratos lifir samt í einhvers konar draumkenndu ástandi og á erfitt með að greina raunveruleika frá ofsjónum. Hann fær að vita að ástæðan eru álög þriggja illra gyðja eða „furies“ sem reyna að brjóta hann niður því að hann hefur svikið stríðsguðinn Ares. Orkos (sem er fyrrverandi „fury“) aðstoðar Kratos við að reyna að losna undan þessum hremmingum og endurheimta frelsið.
Leikföng Kratosar
Spilunin í Ascension er samskonar og áður. Þetta er þriðju-persónu bardagaleikur þar sem myndavélinni er stillt upp sjálfkrafa. Bardagakerfið hefur alltaf verið fínt en það eru nokkrar minni háttar breytingar. Þú ert með Blades of Chaos sem eru gömlu góðu sverðin fest með keðjum en þau geta tekið á sig ferns konar galdraform (sem þú færð aðgang að snemma í leiknum). Þau eru eldingar Seifs, eldur Aresar, ís Póseidons og sálar Hadesar. Það er hægt að bæta hvern galdur fyrir sig með rauðum hnöttum (orbs) sem maður fær fyrir að drepa andstæðinga og opna rauðar kistur og opna möguleika fyrir fleiri tegundir árása og öflugri vopn. Einnig fær Kratos fleiri hluti sem eru nauðsynlegir til að leysa ýmsar þrautir s.s. möguleikann á að endurreisa það sem er í rúst og byggja það upp í upprunalega mynd. Þannig er hægt að endurreisa t.d. brýr eða heilu þorpin á mjög sjónrænan hátt. Einnig finnur maður heilmikið af hlutum sem maður getur aðeins notað í næsta leik sem er sérstök aðferð til að fá mann til að spila leikinn aftur.
„It’s-a-me, Kratio!“
Framgangur leiksins er frekar staðlaður og kunnuglegur GoW spilurum. Skrímsli ráðast á þig og hlið lokast eða þú þarft að leysa einhverja þraut. Sumar þrautirnar reyna frekar á þolinmæði spilarans frekar en hæfni og sumt bendir til að leikurinn hafi verið hannaður í flýti. Það eru til dæmis nokkrir kaflar sem keyra hratt áfram og maður þarf að hoppa eða beygja mörgum sinnum á réttum stöðum til að drepast ekki. Þetta eru einstaklega pirrandi kaflar og ekki það sem GoW leikir snúast um. Til þess að sigrast á þeim þarf maður nánast að leggja borðin á minnið sem minnir mig á gamla leiki eins og Dragon’s Lair.
Sumar þrautirnar reyna frekar á þolinmæði spilarans frekar en hæfni og sumt bendir til að leikurinn hafi verið hannaður í flýti.
„Psych!“
Tvö önnur dæmi eru lýsandi fyrir hve spilunin getur verið pirrandi í Ascension. Þetta eru tvær aðferðir til að komast áfram í leiknum og það ótrúlega er að þær gerast bara einu sinni! Það er eins og einhver starfsmaður hafi sett þetta inn gagngert til að vera með leiðindi. Eitt tengist gagnvirku myndskeiði (QTE eða Quick Time Event) og hitt því að klifra áfram upp styttu. Annað tekur of langan tíma að lýsa svo ég tek það að klifra upp styttu fyrir. Alls staðar í leiknum einfaldlega hoppar maður upp og grípur í brúnir og slíkt eða þá að maður notar keðjuna á vopninu sínu til að sveifla sér áfram. En á einum stað þarf maður að lemja í eitthvað drasl til að búa til fótfestu. Ekkert að því einu og sér en ef þú kemur með svona seint í leiknum og notar það bara einu sinni þá þjónar það engum öðrum tilgangi en að skemma flæðið.
„Hef ég ekki verið hérna áður?“
Leikurinn er álíka langur og God of War III (um 10 tímar fyrir flesta spilara) en reyndar er frekar leiðigjarnt hversu oft sömu svæðin eru notuð. Sem dæmi þá er einn kafli þannig gerður að maður þarf að ferðast um á einhvers konar mekanískum risaslöngum aftur…og aftur. Ég átti mjög erfitt með að komast í gegnum það borð. Það hjálpar ekki að sagan er ekki eins áhrifamikil og í fyrri leikjum; verurnar sem maður hittir eru minni persónur í grískri goðafræði (Hecatonshires, Orkos og reiðigyðjurnar eru ekki mjög þekkt nöfn) og það er ekki mikið drama bakvið leikinn.
Fjölspilun
Fjölspilunin fannst mér einkar óspennandi. Þú velur Hades, Póseidón, Ares eða Seif sem þinn guð og færð samsvarandi vopn og hæfileika. Því næst spilarðu staðlaðan fjölspilunarleik með fullt af gulrótum í formi þess að uppfæra kappann þinn. Þetta á einhvern veginn ekki við þennan leik og finnst mér leikjahönnuðir gera of mikið af því að troða inn fjölspilun í hvern einasta leik eins og t.d. fyrir nýjasta Tomb Raider. God of War bardagakerfið er þannig að þetta verður of kaótískt og óskemmtilegt.
Það góða sigrar (ef Kratos leyfir því að lifa)
Endum á því góða. Ég er svona harður á GoW: Ascension því að maður býst við miklu meira. Ég vona bara að þeir séu að vinna í einhverju stærra og betra og hafi hent þessum leik út sem einhvers konar millileik. Ascension er með stórkostlega grafík og gamla PS3 vélin hreinlega öskraði af áreynslu og var farinn að hljóma eins og 360 (PS4 má fara að drífa sig, manni hálfkvíður fyrir að láta þá gömlu spila Bioshock Infinite). Talsetning og hljóð í GoW leikjunum hefur alltaf verið til fyrirmyndar og það er engin breyting hér. Bardagakerfið er enn skemmtilegt og fer langt með að hífa leikinn upp í 7. Ef þig klæjar í nýjan God of War leik þá er í lagi að grípa þennan.
Höfundur er Steinar Logi Sigurðsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.