Loka valmynd
    Facebook Instagram YouTube Spotify TikTok Twitch
    Nörd Norðursins
    Facebook Instagram YouTube Spotify Bluesky TikTok Twitch
    • Fréttir
    • Greinar
    • Leikjarýni
    • Íslenskt
    • Leikjavarpið
    • Viðburðir
    Nörd Norðursins
    Heim»Bíó og TV»Kvikmyndarýni: Sinister (2012)
    Bíó og TV

    Kvikmyndarýni: Sinister (2012)

    Höf. Nörd Norðursins8. febrúar 2013Uppfært:26. maí 2013Engar athugasemdir5 mín. lestur
    Facebook Twitter LinkedIn Reddit WhatsApp Tölvupóstur Bluesky Afrita hlekk
    Deila
    Facebook Tölvupóstur Afrita hlekk

    Nýlega kom hryllingsmyndin Sinister í kvikmyndahús hérlendis, en hún er nýjasta afurð Scott Derrickson, leikstjóra hinnar ágætu The Exorcism of Emily Rose (2005). Einnig eru um borð framleiðendur myndanna Insidious (2010) og Paranormal Activity (2007), en sú fyrrnefnda er að mínu mati ein ef betri hryllingsmyndum síðustu ára. Sinister notfærir sér ýmsar aðferðir sem hafa skelft hrollvekjuaðdáendur síðustu ár, t.d. fundnar upptökur, yfirnáttúruleg fyrirbæri og litla óhugnanlega krakka. Þessar aðferðir hafa reyndar orðið fyrir nokkurri ofnotkun upp á síðkastið, en stundum kemur út mynd sem nýtir þær vel og það er að mestu leyti tilfellið í Sinister.

    Myndin segir frá sannsögusakamálahöfundinum Ellison Oswalt (Ethan Hawke) sem flytur með fjölskyldu sinni á nýtt heimili og hyggst skrifa þar nýja bók. Hann fær fljótt viðvörun frá lögreglustjóra bæjarins að honum sé fyrir bestu að flytja annað, en hann hlustar ekki. Það sem fjölskylda hans veit ekki er að morðin sem hann hyggst skrifa um gerðust í bakgarði nýja hússins. Þegar Ellison skoðar háaloft hússins finnur hann sporðdreka og kassa með sýningartæki og myndböndum af morðunum sem gerðust í bakgarðinum ásamt mörgum fleirum. Hann íhugar að skila þeim til lögreglunnar en leggur svo eigin hagsmuni fyrir og ákveður að nota þau til að hjálpa sér við skrifin. Bækur Ellisons hafa ekki notið velgengni í nokkurn tíma og gefið er í skyn að vegna hans hafi lögreglumál farið úrskeiðis þar sem að rannsókn hans hafi óbeint hjálpað morðingjanum. Með nýju bókinni ætlar Ellison sér að endurheimta velgengnina og orðspor sitt. Hann vinnur oft langt fram á nótt og þegar hann horfir á myndböndin, sem eru vægast sagt truflandi, byrjar hann að sjá ógnvæginlega hluti gerast í kringum sig. Hann kemst sífellt nær því að leysa ráðgátuna um morðingjann, en hættir lífi sínu og fjölskyldu sinnar í leiðinni.

    Sinister

    Það sem er áberandi vel gert í þessari mynd eru „fundnu upptökurnar“ sem teknar voru upp á Super 8 tökuvél til að sýna hversu langt aftur hægt er að rekja morðin. Myndefnið vekur svo sannarlega upp óhug hjá áhorfanda og tónlistin sem spiluð er undir gerir hryllinginn þúsund sinnum kraftmeiri. Christopher Young er mikill reynslubolti í tónsmíði fyrir hryllingsmyndir og hefur meðal annars samið tónlist fyrir A Nightmare on Elmstreet 2 (1985), Hellraiser (1987), The Grudge (2004) og The Uninvited (2009). Í þessu tilviki eru það óhugnalegar „lúppur“ með óskýrum röddum sem vekja að öllu jöfnu mestan hroll og þær snarvirka, a.m.k. á mig. Upptökurnar spila mikinn þátt í myndinni og eru sumar spilaðar aftur og aftur. Þó að hér sé um að ræða eins konar snuff myndbönd er lítið um blóð og ofbeldi, heldur er einhver sjúkleg ró yfir þeim sem gerir þau áhrifameiri fyrir vikið. Filmurnar eru svo merktar með í stíl við sakleysislegar fjölskyldumyndir til að undirstrika andstæðuna við innihaldið.

    Sagan er nokkuð góð sem hjálpar áhorfandanum að upplifa hryllinginn, en hún er alls ekki gloppulaus og sum atriði hefði klárlega mátt bæta.

    Sagan er nokkuð góð sem hjálpar áhorfandanum að upplifa hryllinginn, en hún er alls ekki gloppulaus og sum atriði hefði klárlega mátt bæta. Þegar maður sér „vonda kallinn“ fyrst áttar maður sig ekki almennilega á hvað maður er að horfa á og það gerir hann svo miklu hryllilegri. Þegar líður á myndina verður hann því miður greinilegri og missir næstum áhrifamáttinn algjörlega undir lokin. Á myndböndunum virðist einhver ójarðnesk vera birtast en þegar hún sést svo utan þeirra sér maður lítið annað en mann með grímu. Gítarleikarinn í Slipknot hefði alveg eins geta staðið þarna og þess vegna virka bregðuatriðin misvel. Pælingarnar á bak við vonda kallinn, eða Mr. Boogie eins og hann er kallaður, eru hins vegar nokkuð áhugaverðar. [Restin af þessari efnisgrein inniheldur smávægilega spilla svo ekki lesa ef þú vilt ekki fræðast meira um veruna.] Eftir að Ellison fær hjálp frá dulspekisprófessor til að rýna í tákn sem birtist ítrekað í myndböndunum kemst hann að því að Mr. Boogie er í rauninni heiðið goð að nafni Bughuul sem rænir krökkum og tekur þá inn í eigin heim. Útlit þess er sótt í hefðbundið útlit svartmálmshljómsveita og andlit þess ekki ólíkt líkmálningunni sem þær nota. Goðið kemst í tæri við okkar heim í gegnum myndbandsupptökur og þess vegna verður það öflugra með auknu áhorfi Ellison. Myndböndin virðast meira að segja taka upp á því að spila sig um miðja nótt án hjálpar hans.

    Sinister

    Það sem heldur sögunni uppi er m.a. leikurinn hjá Ethan Hawke, sem stendur sig vel sem rithöfundur í von um að endurheimta forna frægð. Þó hann meini vel, sinnir hann fjölskyldu sinni nokkuð illa með að flytja þau inn í slíkt húsnæði og það hefur sérstaklega slæm áhrif á krakkana. Á tímabili minnir hann nokkuð á Jack Torrance úr The Shining (1980), en fer þó aldrei yfir strikið líkt og sú persóna gerði. Michael Hall D’Addario á líka hrós skilið fyrir frammistöðu sína sem sonurinn Trevor og á hann heiðurinn af einu af óhugnalegri atriðum myndarinnar. Eiginkonan Tracy er leikin af Juliet Rylance og persóna hennar er ef til vill sú ómerkilegasta. Hún birtist rétt svo inn á milli til að minna á tilvist sína og þegar hana grunar að nýja húsið sé í nánd við morðvettvang vill hún ekkert heyra og kýs að búa í afneitun.

    Sinister

    Þrátt fyrir smávægilega galla í sögu myndarinnar og misgóða birtingu á vonda kallinum þá finnst mér myndin vera vel heppnuð og tekst meira að segja að bregða vönum hrollvekjuáhorfanda stöku sinnum. Það mikilvægasta er að hún skildi eitthvað eftir og það var enn hrollur í mér þegar ég fór að sofa eftir myndina, en það gerist mjög sjaldan í mínu tilfelli. Ég rek það aðallega til fundnu upptakanna og tónlistarinnar, en þetta tvennt gerir myndina að því sem hún er. Sinister tekst að byggja upp virkilega óhugnalegt andrúmsloft og færir okkur dularfullan morðingja, en eins og allt of margar myndir tekst henni ekki að halda dampi til loka. Hún verður hins vegar aldrei slæm og þrælvirkar fyrir þá sem velta sér ekki upp úr smáatriðum.

     

    Höfundur er  Andri Þór Jóhannsson,
    fastur penni á Nörd Norðursins.

     

    2012 Andri Thor Johannsson Christopher Young Ethan Hawke hrollvekja kvikmyndarýni Sinister
    Deila. Facebook Twitter Reddit Tölvupóstur Bluesky Afrita hlekk
    Fyrri færslaFöstudagssyrpan #29 [STIKLUR]
    Næsta færsla UTmessan 2013 [MYNDIR]
    Nörd Norðursins
    • Facebook

    Birt af ritstjórn

    Svipaðar færslur

    Secret Level

    10. desember 2024

    RIFF kvikmyndahátíðin 2024

    27. september 2024

    Hvað ef Squid Game leikirnir væru íslenskir?

    13. nóvember 2021

    Austin Powers heimsækir Mass Effect

    19. október 2021

    Íslensk mynd um vináttu í Eve Online hlýtur verðlaun

    14. júní 2019

    Skaparar It’s Always Sunny in Philadelphia búa til þætti um leikjahönnun

    10. júní 2019
    Nýtt á Nörd Norðursins

    The Game Awards í beinni 11.-12. desember

    4. desember 2025

    Leikjavarpið #63 – Icelandic Game Fest og The Game Awards

    2. desember 2025

    Durtar og yfirnáttúruleg öfl í IKEA og Nexus

    23. nóvember 2025

    Fyrsti hálftíminn í Master Lemon: The Quest for Iceland

    20. nóvember 2025

    Vefur Samtaka leikjaframleiðenda uppfærður

    19. nóvember 2025
    Leikjarýni
    8

    Anno 117: Pax Romana

    11. nóvember 2025
    9

    Áttum við að tengjast?

    15. júlí 2025
    8

    Skemmtilegt nostalgíu ferðalag í nýjum búningi

    7. maí 2025
    8

    Indiana Jones and the Great Circle: Enn betri á PlayStation 5 og PS5 Pro

    2. maí 2025
    6

    Krúttleikurinn Hello Kitty Island Adventure dalar hratt

    21. mars 2025
    Nýjast á Youtube
    https://youtu.be/84R6rYZR0nQ

     Um okkur 

    Leita á vef
    Nýjar færslur
    • The Game Awards í beinni 11.-12. desember
    • Leikjavarpið #63 – Icelandic Game Fest og The Game Awards
    • Durtar og yfirnáttúruleg öfl í IKEA og Nexus
    • Fyrsti hálftíminn í Master Lemon: The Quest for Iceland
    • Vefur Samtaka leikjaframleiðenda uppfærður
    Facebook Instagram YouTube Spotify Bluesky TikTok Twitch
    © 2025 Nörd Norðursins.

    Skrifaðu fyrir ofan og ýttu á Enter til að leita. Ýttu á Esc til að hætta við.