Birt þann 20. desember, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins
Spilarýni: Skrípó
Samantekt: Ef þú ert brandarakall og skortir aldrei nýjar hugmyndir er þetta spil fullkomið fyrir þig. Fyrir okkur hin sem erum ekki alveg jafn óþrjótandi brandarabankar er spilið heldur takmarkað.
3.5
Sniðug hugmynd
Aldur 10+
Leikmenn 3-6 eða fleiri í liðum
Spilatími 40 mínútur+
Skrípó er nýtt íslenskt borðspil eftir höfunda Fimbulfambs (2010). Spilið gengur út á að þátttakendur noti hugmyndaflug sitt til að semja hnyttna myndatexta við skrípómyndir eftir Hugleik Dagsson, Halldór Baldursson, Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur og Sigmúnd.
Gangur leiksins
Skrípó er hreint ekki flókið spil, það er í raun sáraeinfalt. Í hverri umferð er einn spilari dómari, í fyrstu umferð er dómarinn yngsti spilari og svo færist hlutverkið koll af kolli réttsælis þar til spilinu lýkur. Dómarinn dregur neðstu skrípómyndina úr bunka og lætur í þar til gerða klemmu á borðinu. Því næst snýr hann stundaglasinu við og setur tímann í gang. Nú eiga aðrir spilarar að drífa sig að skrifa fyndnustu myndalýsinguna sem þeim dettur í hug á þar til gert blað og skila þeim að lokum til lesara. Lesarinn er sá sem situr dómara á hægri hönd. Þegar allir hafa skilað sínum texta til lesara les hann þá upphátt og á dómari að velja þann texta sem honum þótti bestur. Einnig á dómari að reyna að para saman texta og spilara. Sá spilari sem átti besta textann fær fjögur stig en dómari getur fengið eitt stig fyrir hverja rétta ágiskun. Pari dómari engum spilara rétt við texta fær lesarinn eitt stig. Svona gengur spilið áfram þar til komið er á leiðarenda og einn spilari stendur uppi sem sigurvegari.
Myndirnar
Með spilinu fylgja 150 myndir eftir fjóra listamenn; þau Hugleik Dagsson, Halldór Baldursson, Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur og Sigmúnd. Það verður að viðurkennast að myndirnar eru mjög misskemmtilegar og misopnar fyrir bröndurum. Persónulega þótti mér auðveldast að skrifa hnyttinn texta við myndir Hugleiks enda myndirnar hans ekki mjög flóknar og bjóða því upp á margvíslegar túlkanir. Myndir Halldórs eru sumar hverjar ansi pólitískar og litaðar af því kreppuástandi sem einkennt hefur síðastliðin ár. Myndir Lóu geta verið hreint út sagt undarlegar og myndir Sigmúnds eru margar hverjar margra áratuga gamlar og sumar álíka pólitískar og lokaðar fyrir túlkunum og myndir Halldórs, þegar maður er í kringum þrítugt áttar maður sig ekki endilega á vísununum – hvað þá þegar maður er yngri.
Að mínu mati hefði mátt vanda betur við myndaval og jafnvel velja aðra myndasöguteiknara að einhverju leyti. Það hljóta að vera fleiri sem teikna myndasögur á Íslandi?
Kostir og gallar
Einn mikilvægur kostur við Skrípó er að hægt er að spila það þótt leikmenn séu 3 eða 5. Að mínu mati eru of mörg spil á markaðnum sem gera út á að spilað sé í hópum sem samanstanda af jöfnum tölum. Þetta getur verið mjög takmarkandi þegar manns helsti spilahópur samanstendur af 5 einstaklingum. Annar kostur er að spilaborðið er með hæfilega mörgum reitum. Það er hvorki of stutt þannig að manni finnst það endasleppt né of langt svo maður sé komin með leið áður en yfir lýkur. Þriðja kostinn sem nefna mætti er að spilið reynir á skapandi hluta heilabúsins – hver hefur ekki gott af smá heilaleikfimi? Að lokum virðist sem spilið geti enst vel. Í þau tvö skipti sem ég hef spilað það hafa að meðaltali 13 myndir verið notaðar. 150 myndir fylgja með svo þau duga í tæplega 12 skipti. Gefið að spilið sé ekki spilað daglega og ekki alltaf í sama hópi má gera ráð fyrir að nýir einstaklingar komi inn með ferskar hugmyndir og þótt myndirnar bjóði mismikið upp á túlkun er margar þeirra það opnar að þær eru endalaus uppspretta ólíkra brandara.
Gefið að spilið sé ekki spilað daglega og ekki alltaf í sama hópi má gera ráð fyrir að nýir einstaklingar komi inn með ferskar hugmyndir og þótt myndirnar bjóði mismikið upp á túlkun er margar þeirra það opnar að þær eru endalaus uppspretta ólíkra brandara.
Þá er það að göllunum. Helst þótti mér sem myndirnar væru margar hverjar hreinlega ekki fyndnar eða bjóða upp á sérlega fyndna túlkun. Eflaust eru einhverjir brandarakallar þarna úti sem gætu gert drepfyndna texta við allar myndirnar en spilið verður að miða við meðaljón ef það á að höfða til allra. Nú hef ég spilað Skrípó tvisvar og í hvorugt skiptið höfum við legið í hlátrasköllum. Það var flissað og stöku sinnum var eitthvað virkilega fyndið en ekki nógu oft. Tíminn sem tekur að skoða myndina og skrifa textann dregur líka niður stemninguna einhvern veginn. Nú hugsa eflaust einhverjir að ég sé bara húmorslaus eða hafi spilað með leiðinlegum hóp. Að sjálfsögðu skiptir máli hverjir spila en hér er ég að tala um hóp sem spilar mikið og hefur gaman af spilum eins og Heilaspuna, Fimbulfambi og Fíaskó, spilum sem ganga út á virka þátttakendur sem nota hnyttni sína eða gáfur til að koma sér áfram.
Niðurstaða
Skrípó byggir á mjög sniðugri hugmynd, þetta er spil sem ætti að geta virkað mjög vel en því miður virðist það ekki hafa tekist nógu vel upp hér. Myndirnar sem spilinu fylgja eru mjög misgóðar og misopnar fyrir túlkunum, of margar þeirra einkennast af kreppuklisjubröndurum sem ég er í hið minnsta löngu komin með leið á. Myndir Sigmúnds eru svo sumar hverjar hátt í fjögurra áratuga gamlar og óvíst hversu vel þær eiga upp á pallborðið árið 2012, sérstaklega þær sem augljóslega vísa í einhverjar fornar pólitískar deilur. Myndir Hugleiks bjarga spilinu algjörlega fyrir horn enda eru þær bráðskemmtilegar og margar hverjar geta verið endalaus uppspretta ólíkra brandara. Ég held að spilið hefði grætt mikið á því að valdir hefðu verið nokkrir yngri íslenskir myndasöguteiknarar og þeim gefinn frjáls boltinn í stað þess að endurnýta gamla brandara upp úr blöðum.
Þrátt fyrir vissa galla held ég að Skrípó geti verið bráðskemmtilegt þegar maður er temmilega léttur, með bjór í hönd og í góðum félagsskap. Maður þarf bara að sleppa hugarfluginu lausu og reyna að losna úr viðjum vanans. Ef myndin sýnir kreppubankastjóra að hitta djöfsa þarf að grafa sig út úr staðalímyndinni og ímynda sér einhverja allt aðrar aðstæður. Ég get í hið minnsta vottað fyrir það að þrír nauðalíkir brandarar um bankastjóra í helvíti eru bara ekkert fyndnir!
Til að draga saman: Ef þú ert brandarakall og skortir aldrei nýjar hugmyndir er þetta spil fullkomið fyrir þig. Fyrir okkur hin sem erum ekki alveg jafn óþrjótandi brandarabankar er spilið heldur takmarkað.
– Höfundur er Védís Ragnheiðardóttir