Bíó og TV

Birt þann 20. desember, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Zardoz (1974)

Svartir sunnudagar sýndu vísindafantasíuna Zardoz í Bíó Paradís í byrjun desember. Myndin er frá árinu 1974 og fer enginn annar en Sean Connery með aðalhlutverkið í myndinni. Höfundur og leikstjóri myndarinn er John Boorman, en hann hefur einnig leikstýrt myndum á borð við Excalibur frá 1981 og The General frá 1998.

Byrjum strax á því að segja að Zardoz er… spes.
Við það eitt að kynna sér nokkur plaköt fyrir myndina fer hugurinn strax á reik. Sean Connery? Með fléttu? Klæddur rauðum sundbol og kúrekastígvélum? Fljúgandi steinhaus í bakrunninum? Hvað er eiginlega í gangi?!

Dífum okkur út í þennan súrelíska graut sem heitir Zardoz.

Myndin gerist árið 2293 þar sem miklar breytingar hafa átt sér stað og skiptist fólk í tvo hópa; villimenn og siðmenntaða. Villimennirnir ríða um á hestum, drepa, tilbiðja sinn guð og haga sér, tjah, eins og villimenn. Þeir siðmenntuðu búa á öðrum stað og lifa miklu lúxuslífi, auk þess sem þeir búa yfir andlegum kröftum. Villimaðurinn Zed (Sean Connery) endar fyrir tilviljun í heimi þeirra siðmenntuðu og stefnir jafnvægi þeirra í voða.

Það er rauður súrelískur þráður, eða band, eða segjum frekar rauður þykkur kaðall, sem gengur í gegnum alla myndina. Á köflum líður manni eins og áhorfanda á listasýningu, frekar en áhorfanda á hefðbundinni mynd. Sum atriði í myndinni eru svo furðuleg að það er erfitt að lýsa þeim með orðum. Leyfum þessu broti úr tilvitnun úr myndinni að gefa ykkur hugmynd um súrleika hennar;

The gun is good! The penis is evil!

Súrealískur og listrænn blær myndarinnar gerir hana áhugaverða á köflum og snertir ýmsa fleti, s.s. heimspeki, samfélagsrýni, húmor og kynlíf. Sem listræn mynd má segja að hún sé þokkalega skemmtileg. Sem hefðbundin skemmtun er hún ansi slöpp og hættir þessi súrelíski furðuleiki að vera fyndinn og áhugaverður og endar á því að verða svæfandi.

Það má að einhverju leiti segja að Zardoz sé sérkennileg samblanda af Hunger Games og Barbarella, þar sem hún sýnir mismunin á fólki á svipaðan hátt og Hunger Games og er klædd svipuðu erótísku sýrutrippi og finnst í Barbarellu. Zardoz er klárlega költ mynd, en er frekar slöpp költ mynd.

Í stuttu máli má finna nokkra gullmola í Zardoz en á heildina litið er hún ansi þreytt og býður upp á takmarkaða skemmtun. Myndin er mjög súrealísk og á köflum listræn og gera þessir þættir myndina áhugaverða til að byrja með, en í lokin breytist Zardoz í ágætis svefnmeðal.

 

Höfundur er Bjarki Þór Jónsson,
ritstjóri Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑