Bíó og TV

Birt þann 3. desember, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Rýnt í stiklu: Man of Steel

Christopher Nolan hefur svo sannarlega haft áhrif á ofurhetjumyndagreinina á undanförnum árum. Hann endurvakti Batman og lagði mikla áherslu á persónusköpun í myndunum og skapaði James Bond fíling, en Nolan er víst harður Bond aðdáandi. Um leið og hann hefur endurvakið Bond fílingin í myndunum þá er hann líka að leita til upprunans enda var fyrsta Bond myndin kveikjan að hasarmyndum eins og við þekkjum þær í dag og hasarmyndir grunnur ofurhetjumynda.

Sú mynd sem vekur mikla eftirvæntingu hjá undirrituðum er nýja Superman myndin Man of Steel sem kemur út næsta sumar. Síðasta Superman myndin kom út 2006 og vakti litla hrifningu. Ég hef tilfinningu fyrir því að Man of Steel muni slá í gegn, því það virðist vera að Nolan sé eins og Mídas konungur í Hollywood, allt sem hann snertir breytist í gull.

Það er þó ekki Nolan sem er í leikstjórastólnum í Man of Steel heldur Zack Snyder sem er þekktur fyrir ofurhlaðnar brellumyndir eins og 300 (2006), Watchmen (2009) og Sucker Punch (2011). Nolan hefur séð mikla hæfileika í Znyder og án efa gefið honum ákveðið frelsi í leikstjórastólnum, eitthvað sem Znyder hefur eflaust ekki fengið í fyrrnefndum myndum. Það er nokkuð ljóst að áhrif Nolan eru þó til staðar þegar horft er á stikluna fyrir myndina. Hún er greinilega tekin á filmu, eins og Nolan kýs að gera og handhelda tökuvélin gefur þeim stuttu brotum sem sjást í myndinni ákveðin raunsæisblæ. Þó má búast við því að blandað sé saman handheldum skotum og statískum eins og venjan er hjá Nolan.

Það er ekki stórstjarna í hlutverki Superman nánast óþekktur leikari, Henry Cavill. það er alltaf ákveðin áhætta að setja óþekkta leikara í svona stórmynd en vonandi stendur hann undir væntingum. Það er allavega á hreinu að framleiðendur munu vekja mikla athygli á honum með ýmsum hætti fyrir frumsýningu myndarinnar.

Það vekur athygli að í þessari einu stiklu úr myndinni, en von er á nýrri þann 14. desember næstkomandi, þá er lítið sem ekkert gefið upp. Enda er söguþráður myndarinnar óljós og ekkert hefur lekið út um hann.

Þegar horft er á byrjun stiklunnar þá mætti halda að hér væri á ferðinni önnur Shipping News (2001) mynd eftir Lasse Hallström eða jafnvel ný mynd frá Baltasar Kormáki. Það er eitthvað mjög skandinavískt við upphaf myndarinnar. Sjávarþorp, mávar og skítug skip og náttúrulega handhelda tökuvélin allsráðandi og kornótt filman fær að njóta sín.

Þegar ég horfði á stikluna í fyrsta skipti bjóst ég allt eins við því að sjá Ólaf Darra koma upp á dekki, það kom mjög á óvart að sjá svo rólega og lágstemmda stiklu fyrir ofurhetjumynd. Þetta er náttúrulega með vilja gert svo næsta stikla verði stærri og hlaðnari stórum senum til að vekja ennþá meiri athygli. Þessi stikla minnir um margt á eina stikluna fyrir Batman: The Dark Knight Rises.

Það er greinilegt að Superman vinnur fyrir sér sem sjómaður og má gera ráð fyrir því að hann búi einhversstaðar á austurströnd Bandaríkjanna þar sem krabbaveiðar eru hvað mest stundaðar.

Þó svo að það sé lítið þekktur leikari sem er í hlutverki Superman þá eru stórstjörnur í öðrum hlutverkum. Verður forvitnilegt að sjá Kevin Costner í hlutverki föður Superman á jörðinni. En hann leikur Jonathan Kent. Það er orðið langt síðan að Costner kom fram í almennilegri kvikmynd. Russell Crowe fer með hlutverk  Jor-El, sem er raunverulegi faðir Superman, frá plánetunni Krypton. Í öðrum hlutverkum eru leikarar á borð við: Amy Adams sem fer með hlutverk Lois Lane, Diane Lane, Laurence Fishburne og Richard Schiff.

Stutt brot kemur svo í lok stiklunnar þar sem sjá má Superman ferðast um himininn eins og honum einum er lagið og brjóta hljóðmúrinn á mjög raunsæjan hátt. Það verður svo áhugavert að fylgjast að sjá nýju stikluna sem kemur þann 14. desember. Man of Steel verður svo frumsýnd 14. júlí í Bandaríkjunum.

 

Stiklan í heild sinni

 

 

Höfundur er Ragnar Trausti Ragnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins og nemi í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands.

 

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑