Bíó og TV

Birt þann 7. desember, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Freaks (1932)

Fjórða myndin sem Svartir Sunnudagar sýndu í Bíó Paradís var myndin Freaks frá 1932. Að þessu sinni fengu þeir Pál Óskar til liðs við sig og var myndin fengin úr 8 millimetra filmusafni hans, en áður en aðalmynd kvöldsins var keyrð í gang fengu áhorfendur einnig að sjá 17 mínútna útgáfu af Dracula frá 1931 úr sama filmusafni.

Páll Óskar byrjaði á því að kynna gestum fyrir leikstjóra myndarinnar; Tod Browning (1880-1962) og hvatti sem flesta til að kynna sér myndirnar hans, sérstaklega þær þöglu. Margar þeirra væru afskaplega sérkennilegar og oftar en ekki með „frík“ í aðalhlutverki, sem falla ekki vel inn í samfélagið með einum eða öðrum hætti – líkt og „fríkin“ í Freaks.

Freaks er ein þekktasta mynd Tod Browning. Í henni er fylgst með sirkushópi sem er skipt í tvo augljósa flokka; „venjulegt fólk“ og „frík“. „Venjulega fólkið er auðveldlega samþykkt inn í samfélagið og verður ekki fyrir aðkasti, enda er það fólk „eðlilegt“. Það sýnir listir sínar í sirkus og hefur hæfileika sem það notar til að heilla áhorfendur. „Fríkin“ aftur á móti eru sýningargripir sem þykja merkilegir fyrir það eitt að vera öðruvísi – að vera ekki eins og „við hin“. Dvergurinn Hans, sem er einn af „fríkunum“, fellur fyrir hávöxnu þokkadísinni Kleópötru. Í gegnum samband Hans og Kleópötru sér áhorfandinn alla þá mismunun sem á sér stað og hvernig „venjulega fólkið“ heldur sig frá „fríkunum“. Þrátt fyrir að líta öðruvísi út en telst eðlilegt að þá bera „fríkin“ sömu mennsku tilfinningar og aðrir. Í lokin spyr maður sig svo að því hvað gerir fólk að „fríki“ í raun og veru, er það útlit þeirra eða gjörðir?

Þrátt fyrir að Freaks hafi lengi vel verið flokkuð sem hryllingsmynd má segja að hún beini spjótum sínum að samfélaginu. Myndin er fyrst og fremst einstaklega vel heppnuð samfélagsgagnrýni þar sem athyglinni er beint að misrétti mismunandi samfélagshópa.

Það vekur athygli að alvöru „frík“ voru fengin til að leika í myndinni. Til dæmis fer Prince Randian, einnig þekktur sem „The Living Torso”, maður án útlima (eða svona nánast, hann eignaðist nokkur börn í gegnum tíðina, en var með engar hendur og enga fætur). Einnig fer fótalaus maður með hlutverk, dvergar, síamstvíburar, hálfa konan og hálfi maðurinn og fleiri. Mikið af þessu fólki vann í raun og veru í sirkusum sem „frík“.

Mér fannst ótrúlegt að 80 ára gömul mynd skyldi ná jafn vel til mín og hún gerði. Myndin er svarthvít, hljóðið er ekki fullkomið, leikurinn með öðruvísi brag á sér, en sagan og sögupersónurnar eru einstaklega vel heppnaðar og auðvelt að skilja grípandi boðskap myndarinnar. „Fríkin“ í myndinni eru táknmynd allra þeirra hópa sem litið er niður á í gær, í dag og á morgun, og því má segja að myndin sé í raun tímalaust verk.

Hljóðið sem fylgdi filmunum hans Páls Óskars gaf myndinni enn meiri sjarma og myndaði ákveðna stemningu sem fylgdi manni í gegnum alla myndina. Einnig flökkti myndin stundum til og nóg af rispum sem gerðu sýninguna eftirminnilegri en ef um hefðbundna stafræna útgáfu væri að ræða.

Það er einnig vert að minnast á að eftir að sýningunni á Freaks lauk í Bíó Paradís gátu gestir virt fyrir sér skartgripi sem Helga Ósk Einarsdóttir (hjá Milla Design) hannaði sérstaklega fyrir aðila úr myndinni. Til dæmis var þessi gripur hannaður með  „The Living Torso“ í huga (sjá mynd til hægri), en hann notaði munninn mikið, meðal annars til þess að kveikja sér í sígarettur með eldspýtu án hjálpar.

Í hnotskurn er Freaks mynd sem kemur á óvart, sérstaklega ef tekið er tillit til þess hve gömul hún er. Myndin er u.þ.b. einn klukkutími að lengd og kemur sögu sinni og skilaboðunum frábærlega vel á framfæri. Þú skalt ekki búast við hrollvekju sem reynir að hræða úr þér líftórununa, heldur mynd sem gagnrýnir misrétti og mismunun sem ríkti, og ríkir enn, í okkar samfélagi.

 

Höfundur er Bjarki Þór Jónsson,
ritstjóri Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑