Bækur og blöð

Birt þann 23. nóvember, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Vampíra – Ný íslensk myndasaga

Sirrý og Smári voru að gefa út íslensku myndasöguna Vampíra, sem fjallar um 16 ára stelpur sem á í hatursrömmum átökum við sjálfsmyndina og samfélagið. Myndasagan er fáanleg í Nexus, Ranimosk, IÐU og Bókabúð Máls og menningar.

 

 

 

Fréttatilkynning frá útgefanda:

„Helvíti er líf sextán ára unglings sem lifir á milli þess að nenna ekki að gera neitt og að nenna ekki aðgera ekki neitt.“

Vampíra er glæný íslensk myndasaga—einstakt innlegg í (vonandi) vaxandi heim íslenskra myndasagna. Útgáfa íslenskra myndasagna er afar fátíð og því hvetjum við fólk til að fagna á götum úti. Sagan er teiknuð og útfærð af Sirrý Margréti en Smári Pálmarsson skrifaði söguna og ljáði persónunum rödd með handskrifuðu letri. En hvernig saga er Vampíra og af hverju í fjandanum ætti einhver að lesa hana?

Í stuttu máli fjallar sagan um Krissu, 16 ára stelpu úr Reykjavík sem á í hatursrömmum átökum við sjálfsmyndina og samfélagið. Svona eins og flestir fást við á sínum unglingsárum. En er Vampíra unglingasaga? Nei, ekkert frekar—því inni í okkur öllum býr öskrandi unglingur sem syrgir fortíðina og missir svefn yfir því að hafa ekki gert fleiri heimskuleg mistök þegar hann/hún var enn þá nógu vitlaustil að hafa afsökun.

Unglingadrykkja og sjálfsfróun
Við reynum ekki að fegra unglingsárin eða fela óþægilegan sannleika. Í Vampíru eru taumlausar tilfinningar og hvatir allsráðandi. Er ekki annars staðreynd, að þegar unglingar eru ekki blindfullir úti á róló sitja þeir heima við og runka sér? Þeir hafa nú samtímis uppgötvað á sér kynfærin og áfengi—þá springur allt í loft upp. Þessi óþægilegi sannleikur er meira og minna hunsaður þegar við hugsum um unglingana. Enn frekar þegar fólk rifjar upp sín eigin unglingsár.

Séríslensk rúnkhljóð
Myndasögur nota letur til að miðla hljóðum til lesandans og því þurftum við að spyrja okkur: Hvernig eru runkhljóð? eða réttara sagt, hvernig eru íslensk runkhljóð? Það er ákveðinn gæðastimpill að eitthvað sé „séríslenskt,“ eins og t.d. hönnun eða handverk. Reyndar eru séríslensk rúnkhljóð bein afleiðing af íslensku handverki. Við erum ákaflega spennt fyrir því að kynna þessi kynlegu hljóð fyrir fólki.

Hver erum við?
Við erum Sirrý og Smári—sögusmiðir; kuklarar í máli og myndum, með óstöðvandi ástríðu fyrir myndasögum. Markmið okkar með Vampíru er fyrst og fremst að segja sögu. Rætur sögunnar lyggja í íslenskum veruleika og við teljum hana búa yfir bæði menningarlegu og bókmenntalegu gildi. Með því að gera myndasögu sameinum við hæfileika okkar og nýtum okkur miðil sem hefur verið stórlega vanmetin hérlendis. Margir lifa í þeirri blekkingu að myndasögur takmarkist við skopmyndir og grín en það eru illa grundvallaðir fordómar. Við tökum miðilinn alvarlega og vonum að fleira fólk fari að opna augun fyrir myndasögum. Vægi miðilsins er ekki síðra en annarra bókmennta eða kvikmynda—og hann á skilið sömu umfjöllun og gagnrýni.

Samstarf okkar nær aftur til ársins 2004 en síðan þá höfum við varið öllum stundum saman. Myndasögur voru sameiginlegt áhugamál okkar. Smári lék sér að orðum og Sirrý teiknaði daginn út og inn og þaðan var leiðin lítið annað en augljós. Saman hófum við framhaldsskólanám þar sem við lærðum á myndlistarbraut. Þaðan héldum við létt í lund til náms í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands. Þar vorum við (samkvæmt bestu vitund) fyrsta parið til að vera innritað á sama tíma á sömu námsbrautina. Þaðan útskrifuðumst við með BA gráðu vorið 2012. Við búum enn yfir nægilegri bjartsýni til að trúa því að lífið sé leikur og að ekkert geti stöðvað þá sem vinna af sönnum innblæstri.

Árið 2010 gáfum við út myndskreytta barnabók. Hún varð til sem eins konar andsvar við heiftarlegu framboði lesefnis til barna sem upphefur hefðbundin kynjahlutverk og vafasamar staðalímyndir. Sú bók heitir Askur og prinsessan og kom út á vegum Ókeibæ. Um er að ræða óhefðbundið ævintýri þar sem hefðinni er sagt stríð á hendur. Vampíra er okkar fyrsta útgefna myndasaga og einnig fyrsta bókin sem við gefum út sjálf. Metnaðarfull myndasögugerð er og verður okkar markmið. Við erum með fjölda sagna í smiðju og næstu verkefni okkar eru ekki langt undan. Við erum rétt að byrja.

Myndasagan Vampíra er fáanleg í Nexus, Ranimosk, Bókabúð máls og menningar og IÐU. Hægt er aðfinna Vampíru og fylgjast með á facebook.com/vampiracomic.

– Sirrý & Smári

 

Sýnishorn

BÞJ

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑