Fréttir1

Birt þann 16. nóvember, 2012 | Höfundur: Kristinn Ólafur Smárason

0

Úrslitin í Battle.net Heimsmeistaramótinu hefjast um helgina

Á morgun hefjast úrslit mótsins sem margir aðdáendur Blizzard tölvuleikja hafa beðið eftir, en það mun vera Battle.net heimsmeistaramótið í Starcraft II og World of Warcraft: Arena, sem er haldið í Shanghai í Kína. Rúmlega 600 spilarar frá 60 mismunandi þjóðum hafa tekið þátt í mótinu til þessa, en nú standa aðeins 32 Starcraft II spilarar og 30 World of Warcraft: Arena spilarar eftir. Ljóst er að hart verður barist í úrslitaviðureignum mótsins, enda er samanlagt verðlaunafé mótsins hvorki meira né minna en 500.000$ (64 milljónir króna), og hafa spilararnir því til mikils að vinna.

Í Starcraft II hluta mótsins mætast 32 bestu Starcraft II spilarar heims, en til að byrja með munu þeir spila móti hvor öðrum í átta, fjögurra manna riðlum, þar sem tveir spilarar úr hverjum riðli komast áfram. Þeir 16 spilarar sem komast upp úr riðlakeppninni munu takast á í útsláttarkeppni þar sem sigurvegari mótsins gengur burt með 100.000$ í verðlaunafé. Hér fyrir neðan má sjá lista yfir þáttakendur Starcraft II hluta mótsins og riðlanna sem þeir keppa í (smellið á myndina fyrir betri upplausn). Það kann að vekja athygli að aðeins 4 Terran spilarar taka þátt, á meðan Zerg og Protoss spilarar dreifast nokkuð jafnt með 15 og 13 spilara á mótinu.

Í World of Warcraft: Arena hluta mótsins mætast 10 þriggja manna lið samkvæmt svokölluðu Round Robin fyrirkomulagi, en þá munu öll 10 liðin keppa við hvert annað alla vegana einu sinni. Eftir það munu sjö af liðunum komast áfram í útsláttarkeppni þar sem sigurliðið gengur burt með 105.000$ í verðlaunafé. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá Round Robin fyrirkomulagið og liðin sem taka þátt í mótinu (smellið á myndina fyrir betri upplausn), en frekari upplýsingar um mótsfyrirkomulagið, liðin og spilarana má finna á heimasíðu Battle.net heimsmeistaramótsins.

Spennandi verður að sjá hvernig úrslit Battle.net mótsins ráðast, en hægt verður að fylgjast með mótaröðinni um helgina í beinni útsendingu á heimasíðu Battle.net heimsmeistarmótsins.

– KÓS

Deila efni

Tögg: , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Comments are closed.

Efst upp ↑