Birt þann 22. nóvember, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Mótmælum ritskoðun og styðjum frjálst internet
Þriðja desember næstkomandi mun WCIT-12, ellefu daga alþjóðleg ráðstefna á vegum International Telecommunication Union (ITU), vera haldin í Dúbai. ITU heyrir undir Sameinuðu þjóðirnar og mun stór hópur valdamanna víðsvegar að úr heiminum mæta á ráðstefnuna og munu m.a. ræða um stöðu og framtíð internetsins.
Margir netverjar óttast að ríki og stofnanir muni leggja áherslu á að ritskoða efni á netinu og njósnað verði um netverja í auknum mæli. Netrisinn Google er meðal þeirra sem hafa vakið athygli á stöðu mála og hvetja alla þá sem eru á móti ritskoðun og styðja frjálst internet að láta rödd sína heyrast með því að skrifa undir yfirlýsingu þess efnis. Nörd Norðursins tekur undir þetta og undirstrikar að internetið skuli halda áfram að vera í eigu fólksins og megi ekki færast yfir til yfirvalda sem stjórna því hvað við megum sjá og hvað ekki.
>> Smelltu hér til að lýsa yfir stuðningi við frjálst internet í eigu fólksins <<
Það er vert að minnast á að undanfarna mánuði hefur ritskoðun á netinu verið í kastljósinu og hafa yfirvöld ítrekað reynt að auka völd sín í netheimum með frumvörpum og samningum á borð við SOPA, PIPA, CISPA og ACTA sem við hjá Nörd Norðursins höfum vakið athygli á. Þökk sé öflugum mótmælum, bæði utan og innan internetsins, hafa yfirvöld ekki fengið sínu fram. Baráttunni er þó ekki lokið og nauðsynlegt að halda þrýstingnum gangandi.
Heimildir: ITU, og Google: Take Action
Forsíðumynd: Google: Take Action
– BÞJ