Leikjarýni

Birt þann 6. nóvember, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: Mists of Pandaria (World of Warcraft)

Hvað næst? Kærleiksbirnirnir?

Þegar Blizzard tilkynnti viðbótina Mists of Pandaria voru margir ekki ánægðir. Áherslan var ekki lengur á hluti eins hamfarir og vonda kalla heldur akuryrkju, gæludýraslagi og Kung Fu pöndur. Hvað í helv..!? Við það ákvaðu margir að gefast upp á World of Warcraft. Þetta væri orðið of barnalegt og það á meðan keppinautarnir gerðu flottari og svalari leiki. En Blizzard vita hvað þeir eru að gera enda reyndir í bransanum. Þetta sýna nýlegar sölutölur sem hafa skv. Blizzard ýtt fjölda áskrifenda aftur yfir 10 milljónir (en varðandi sölutölur þá er sumt enn óljóst, t.d. fengum við að vita að MoP hafði selst í 2,7 millj. eintökum á móti 3,3 millj. fyrir Cataclysm en ekki hafa verið talin eintökin sem seldust í gegnum netið (digital downloads) sem eru eflaust mun fleiri í þetta sinn þar sem lögð var áhersla á þannig sölu). Sölutölur fyrir Kínamarkað eiga líka eftir að bætast við.

Þeir gera sér samt grein fyrir að leikurinn þarf átök enda er nafn leiksins Heimur Stríðsiðjunnar svo ég komi nú með hræðilega þýðingu. Það er ekkert leyndarmál að Theramore er t.d. komin í eyði og þeir lofa meira stríði og sársauka í framtíðinni fyrir þá blóðþyrstu. Reyndar er hin friðsæla Pandaria (nýja meginland WoW) ekki það friðsæl þegar lengra er komið.

En í meginatriðum þá er Mists of Pandaria nokkurs konar afturhvarf til upprunalega World of Warcraft þar sem gleðin fólst í að skoða nýja staði, kynnast nýjum heimi og litadýrðin og áherslan á smáatriði var áberandi. Leikurinn er meiri afþreying nú en áður sem felst aðallega í því að það er svo mikið að skoða og dunda sér við að safna, hvort sem það er virðing ákveðinna hópa (factions), sjaldgæf gæludýr eða faldar bókrollur (scrolls) víðs vegar um heiminn. Í raun er Mists of Pandaria meira fyrir „casual“ spilara þ.e.a.s. þá sem vilja rólega spilaupplifun. Þrátt fyrir það geta harðkjarna spilarar einnig fundið eitthvað við sitt hæfi. Ég vil meina að munurinn á MoP og Cataclysm sé sá að miðað við útgáfudag hvors leiks fyrir sig, þá leit Cataclysm betur út en MoP í markaðssetningunni, en MoP er aftur á móti hreinlega betri viðbót.

Ain’t nuttin’ but a Panda party

Tölum aðeins um Pöndurnar (sem í raun heita Pandaren en til einföldunar og til að pirra WoW pjúrista þá nota ég orðið pöndur). Þær voru reyndar til í Warcraft heiminum (Warcraft III) áður en Kung Fu Panda myndir Dreamworks komu út en hugsanlega hefur Blizzard fengið eitthvað lánað til baka hvað varðar t.d. útlit og hegðun (annars er það að manngera risapöndur ekkert nýtt og enginn hefur einkaleyfi á því).

Pöndurnar hafa sitt eigið byrjunarsvæði sem er lítil eyja. Verkefnin eru frekar einföld og ekki mjög frumleg til að byrja með en hvílík lokasena! Eftir byrjunarsvæðið (um hæfnistig (level) 10) þá er hægt að velja hvort að pandan þín gangi í lið með Alliance eða Horde sem er skemmtileg nálgun því að byrjunarsvæðið er að hluta til kynning á báðum hliðunum. Ég spila lítið Horde en prófaði núna og það er einkennilegt að vera lítil sæt panda inn á milli allra þessara trölla, orka og uppvakninga. Nýjasta spilatýpan er munkur (monk) sem nær allir kynþættir geta spilað, ekki bara pöndur. Munkarnir eiga að geta fyllt öll hlutverk hinnar heilögu þrenningar í MMORPG leikjum þ.e.a.s. lækna, taka við höggum og úthluta sársauka.

Stærsti hluti MoP er meginlandið Pandaria sem er aðgengilegt (nema með krókaleiðum) spilurum sem hafa náð hæfnistigi 85. Í viðbótinni þá er mest lagt í þetta meginland og greinilegt að andstætt Cataclysm þá er meira verið að höfða til vanari spilara (í Cataclysm voru öll byrjunarsvæðin endurhönnuð).

Nýju svæðin í leiknum líta betur út en þau hafa nokkurn rétt á miðað við svona gamla leikjavél. Það er meira að gerast á hverjum fermetra í Pandaria en í fyrri viðbótum og litadýrðin er algjör. Há fjöll, fossar, akrar út um allt með risastóru grænmeti, margs konar trétegundir, lækir og ár, skraut og hús með austrænum blæ og þannig mætti lengi telja áfram. Það er ekki síðan í Burning Crusade sem kom út 2007 að ég hef fundið fyrir þörf til að taka reglulega myndir af umhverfinu þ.e.a.s. taka skjáskot.

Í klóm pöndunnar

Þú kynnist fljótt hversu vel verkefnin (quests) eru uppbyggð í Pandaria. Blizzard hefur síðustu ár verið að gera tilraunir með svokallað „phasing“ þar sem heimurinn birtist á mismunandi hátt út frá hverjum og einum. Tveir spilarar gætu verið á sama svæði í heiminum en séð tvo ólíka hluti. Þannig geturðu t.d. verið með þinn eigin garð undir berum himni sem enginn annar sér. Í MoP þá er takmarkið greinilega að gera verkefni fjölbreyttari, frumlegri og skemmtilegri en áður og það hefur svo sannarlega tekist. Eftirminnileg verkefni eru t.d. að vera í læri hjá gömlum meistara og þjálfa þar í anda slagsmálamynda eða vera „sniper“ þar sem þú þarft að miða á og skjóta óvini til að vernda einn bandamann þinn (þeir sem hafa spilað Max Payne 3 kannast við álíka atriði). Þannig mætti lengi áfram telja en staðreyndin er sú að Blizzard hafa virkilega tekið sig á við að gera sem flest verkefni sem skemmtilegust og haft frumleikann að leiðarljósi. Söguhlutinn er mjög sterkur og það kemur fyrir að maður þurfi að hreinsa smá rykkorn úr augunum eða blikka hratt nokkrum sinnum. Auðvitað eru ennþá verkefni inn á milli sem krefjast þess að maður drepi tíu snigla eða safni 17 gulrótum; þetta er ennþá sama WoW að því leyti en bætingin er veruleg.

Það að spila frá 85-90 tekur hlutfallslega meiri tíma en í Cataclysm (80-85). Þegar maður nær svo hæfnistigi 90 þá er hægt að kaupa Pandaríu flugleyfi. Þá opnast líka mjög margir möguleikar, næstum yfirþyrmandi margir möguleikir, sérstaklega ef tekið er tillit til daglegra verkefna (dailies) en núna eru engin takmörk fyrir hve mörg dagleg verkefni maður getur gert (var áður 25). Það tekur semsagt við það sem kunnugir þekkja sem „grind“ eða endurtekningar yfir tíma til að vinna sér inn góðvild hjá hópum innan leiksins en það er eðli skepnunnar.

Ákveðið var að breyta „Talents“ þ.e.a.s. hæfileikatrjánum í WoW í tengslum við útgáfu MoP. Áður fyrr höfðu allar spilatýpur þrjú tré með fullt af hæfileikum sem hægt var að pússla saman. Núna færðu bara val um einn hæfileika af þremur hvert fimmtánda hæfnisstig. Það eru ekki allir sammála um að þetta hafi verið góð breyting en mín skoðun er að svo var ekki. Hæfileikatrén voru nokkurn veginn í jafnvægi eftir margra ára þróun og þetta er ofureinföldun. Það skemmtilega við að byggja upp nýjan karakter var að hluta til uppbyggingin á hæfileikatrjánum en núna fær maður ekki þetta hæfileikastig í hvert sinn sem maður styrkist heldur aðeins hvert fimmtánda hæfnisstig. Á móti kemur að það er mun auðveldara að byggja upp karakter en áður (sem hefur verið stigvaxandi þróun hjá Blizzard).

Blizzard hefur gert bardagana aðeins fjölbreyttari. Óvinirnir koma stundum með árásir sem beinast ákveðnum stað á jörðinni þannig að þú þarft að hreyfa þig; ekki vera alltaf kyrr. Þetta er í stíl við aðra leiki eins og Guild Wars 2 og The Secret World en eðlilega meira áberandi þar en í WoW. Það er skemmtilega mikið af nýjum óvinategundum og hafa þeir ýmsa eiginleika t.d. geta apar stokkið á þig úr trjám og meira er af fljúgandi óvinum en áður.

Tvö ný PvP (player versus player) svæði koma með MoP og nýlega byrjaði tólfta PvP tímabilið. Stórar breytingar hafa verið á PvP klæðum í MoP; Resilience og Spell Penetration var fjarlægt og í staðinn höfum við PvP Power og PvP Resilence. Tilgangurinn er að minnka vægi PvE (player versus environment) klæða og aðskilja PvP og PvE klæði frekar (mér finnst það athyglisvert að sem skraddari (tailor) þá eru bestu klæðin mín PvP-gerðar; allt sem ég hef fundið í PvE umhverfi hefur ekki nálgast það ennþá). Að öðru leyti er PvP að mestu leyti óbreytt en væntanlega verður einhver þróun á þegar Blizzard reynir að koma á jafnvægi.

Pöndukökur

Það er búið að endurhugsa ýmislegt gamalgróið. Þar sem pöndur eru mikið matfólk þá hefur Blizzard ákveðið að leggja meiri áherslu á eldamennsku (cooking). Núna er semsagt hægt að þróa eldamennskuna í 6 mismundandi áttir með nöfnum eins og „The way of the Steam“ eða „The way of the Brew“. Matur gefur hlutfallslega meiri bónus núna en áður.

Gæludýrabardagar er skemmtileg viðbót og nú er ástæða til að nota öll gæludýrin sem maður hefur sankað að sér í gegnum tíðina og þjálfa þau upp í að verða drápsvélar.

Gæludýrabardagar er skemmtileg viðbót og nú er ástæða til að nota öll gæludýrin sem maður hefur sankað að sér í gegnum tíðina og þjálfa þau upp í að verða drápsvélar. Þetta virkar þannig að eftir að þú hefur fengið þjálfun og borgað 10 gull (var fyrst 50 gull en fólk kvartaði og því var það lækkað) þá geturðu séð gæludýr sem hægt er að berjast við víðs vegar í heiminum. Dýrin eru með styrkleika á milli 1-25. Það er búið að skipta þessum litlu gæludýrum upp í flokka eins og fljúgandi, drekakyns, vélræn og þar fram eftir götunum. Sum eru sterkari á móti einni tegund en veikari á móti annarri (t.d. eru vatns-gæludýr sterk á móti þeim ódauðu, drekakyns sterk á móti fljúgandi o.s.frv.). Einnig er hægt að keppa við aðra spilara (nokkurns konar PvP gæludýrakeppnir). Þar að auki eru tölvustýrðir gæludýraþjálfarar sem þú getur skorað á víðs vegar um heiminn sem opna fleiri möguleika og ýmis verðlaun.

Gæludýrabardagar endurspegla það sem maður elskar og hatar við Blizzard. Þeir kunna að búa til góðan leik en þeir vita líka nákvæmlega hvernig þeir fá þig til að ánetjast einhverju. Leikir eins og t.d. Diablo leikirnir sem eru einnig frá Blizzard, byggja á einu meginatriði; hvernig er hægt að fá spilarann til að endurtaka sömu hlutina aftur og aftur, eins oft og mögulegt er, áður en maður hættir vegna leiðinda. Djöfullega snilldin hjá Blizzard kemur líka fram í því að þeir sem hafa spilað WoW lengi eiga fullt af gæludýrum og þá hafa þeir frekari þörf til að byggja upp öll sín sérstæðu gæludýr og eyða því á endanum meiri tíma í þetta. En þetta er ansi skemmtilegt.

Áður talaði ég um að Blizzard væri að höfða til „casual“ hópsins. Spilunarmöguleikar eins og gæludýrabardagar (sem eru greinilega undir áhrifum frá Pokemon) og það að geta ræktað plöntur og hugsað um garðinn sinn (Farmville á Facebook) sanna það svo um munar. Það er hægt að ímynda sér í framtíðinni að maður geti keypt smáforrit á símann sinn eða spjaldtölvu þar sem maður getur einmitt ræktað garðinn sinn og farið í gæludýraslagsmál og þróað þessa þætti án þess að vera í leiknum sjálfum. Blizzard hugsar langt fram í tímann og eru áræðanlega farnir að slefa yfir þessum möguleikum og peningunum sem fylgja.

Grúppu..fimm

Þeir staðir sem maður ferðast til í fimm manna hópi, þ.e.a.s. „dungeons“, fylgja sömu formúlu og áður en maður tekur strax eftir því að áhersla hefur verið lögð á að gera þetta sem skemmtilegast og alls ekki of langt. Það er búið að minnka talsvert það sem þekkist sem „trash mobs“ eða skepnur sem maður þarf að drepa í hrönnum til að komast áfram (sem getur verið mjög leiðinlegt til lengdar). Í staðinn eru fjölbreytileg stórskrímsli (bosses) og litlir atburðir sem fylgja handriti. Fyrsta reynslan mín af hópstað var í staðnum Stormstout Brewery. Þar fór ég með hóp valinn af handahófi og enginn okkar hafði verið þar áður. Þrátt fyrir marga dauða þá héldum við áfram, lærðum af reynslunni, breyttum aðferðum og að lokum kláraðum við dæmið. Þetta var stórskemmtileg leikjaupplifun og staðurinn er vel hannaður. WoW hefur haft orð á sér fyrir að hafa frekar erfiðan spilarahóp (ef við getum orðað það þannig) sem gera svona reynslur sjaldgæfar og því hef ég annað hvort verið heppinn eða hlutirnir eru að batna. Reyndar hef ég líka verið að spila með öðrum á Hrekkjavökuatburðinum að eltast við Hauslausa Hestamanninn og hef heldur ekki fengið slæma reynslu.

Önnur tegund hópstaða eru svokölluð „Scenarios“ sem er kannski hægt að þýða sem Kringumstæður. Þar getur maður tekið tvo félaga með sér en uppbyggingin er öðruvísi en í þessum hefðbundnu 5-manna stöðum; sem dæmi þá ertu yfirleitt á opnu svæði þar sem þú sérð langt í allar áttir. Það er ekki nauðsynlegt að hafa kjötskjöld (tank) eða lækni (healer). Áherslan er á söguna sem berst frá einum stað til annars. Yfirleitt hittir þú einhverja tölvustýrða persónu sem kynnir þig fyrir staðnum og fylgir þér áfram. Þú færð takmörk sem þú þarft að uppfylla til að halda áfram með söguna. Þetta finnst mér einstaklega skemmtilegt og fljótlegt afbrigði af hópstöðum en á móti kemur að verðlaunin eru ekki eins góð. Áherslan er á stutta en góða skemmtun sem hefur tekist.

Blizzard hefur ekki gleymt þeim hörðu. Eins og áður þá eru svokallaðir hetju-hópstaðir (Heroic Mode) til staðar þegar maður nær 90 en einnig er hægt að keppa við tímann í „Challenge Mode“. Þar er hægt að fá brons, silfur eða gull og verðlaun metin út frá því en um leið keppir maður á móti öðrum spilurum um besta tímann (leaderboards).

„Finish him“

Mists of Pandaria er betri en flestir bjuggust við en þetta er samt ennþá World of Warcraft. Sem dæmi ef þú ert algerlega dottinn inn í Guild Wars 2 eða The Secret World þá eru enn hlutir sem eiga eftir að pirra þig því að margir leikir er tæknilega betri. En fyrir þá sem vilja rólega og þægilega spilaupplifun ásamt einstaka áskorunum, ef maður er í þannig skapi, þá mæli ég sterklega með Mists of Pandaria. Fyrir þann hóp sem hefur þekkt WoW lengi er ansi mikið sem hægt er að gera og bendir allt til að líftími þessarar viðbótar verði langur. Það er meira að gera strax í byrjun en áður hefur verið og þetta er eins og gamall vinur sem þú hittir aftur eftir langa fjarveru. Allt bendir líka til að Blizzard sé ekki að slappa af og séu strax farnir að fínpússa leikinn og munu fljótlega þróa söguna með uppfærslum.


EINKUNN

8,8

 

 

Höfundur er  Steinar Logi Sigurðsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑