Bíó og TV

Birt þann 5. nóvember, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Áhrifamáttur Star Wars

Á dögunum ákvað George Lucas að selja Lucasfilm til Disney-fyrirtækisins. Þessi ákvörðun hefur eflaust komið mörgum á óvart og þá sérstaklega sú ákvörðun Disney að framleiða aðra Star Wars mynd sem á að frumsýna árið 2015. Hægt er að velta því fyrir sér hvaða stefna verður tekin í þeirri mynd en eitt er þó víst að áhrifamáttur fyrstu Star Wars myndanna er óumdeilanlegur og verður ekki leikið eftir.

Það eru margir þarna úti sem hafa aldrei séð Star Wars myndirnar (eða geim-sápuóperu George Lucas), þó vita flestir eitthvað um myndirnar; þekkja Svarthöfða eða kannast við upphafsstefið, sem kvikmyndatónskáldið John Williams gerði ódauðlegt. Þessi þekking á myndunum án þess að hafa jafnvel séð þær hefur væntanlega eitthvað með það að gera að vitnað er í myndirnar í auglýsingum, kvikmyndum, pop-listaverkum, sjónvarpsþáttum, textum og svo mætti lengi telja.

Leikstjóri Lance Acord fyrir Volkswagen.

Star Wars er orðið póst-modernískt táknmyndasafn sem hægt er að sækja í og eru myndirnar sjálfar póst-módernískar. Leikstjóri myndanna leggur upp í ferðalag með gríðarlega stóran farangur af ímyndum sem eru í samræðum við menningarlega vitund áhorfenda og býr til úr þeim ævintýraveröld úti í geimnum.

Lykilspurningin í þessari grein er: Af hverju eru þessar myndir svona vinsælar? Það er kannski ekki til neitt eitt rétt svar við þeirri spurningu. Einhver myndi segja að það sé þessi óáþreifanlegi þáttur sem skýtur upp kollinum og ekki er hægt að útskýra sem geri þær vinsælar. Mjög loðið svar ekki satt? Það er þó hægt að reyfa hvaða þættir það eru sem útskýra vinsældir og mikilvægi myndanna í kvikmyndasögunni. Til þess verður að byrja á byrjuninni og hverfa aftur til fortíðarinnar.

George Lucas og Steven Spielberg voru samferðamenn í kvikmyndasögunni, seinna áttu þeir eftir að vinna náið saman við kvikmyndagerð. Þeir voru hluti af hinni svokölluðu Nýju-Hollywood. Þar sem leikstjórar höfðu aukið frelsi þegar kom að listrænni sköpun og voru undir áhrifum höfundarkenningarinnar (e. auteur theory). Þeir voru einnig af kynslóð sem hafði alist upp með sjónvarpinu og afþreyingarmenningunni sem þar lék lausum hala og hófst um miðbik sjötta áratugarins, án nokkurs vafa mætti einnig nefna myndasögur sem voru mikill áhrifavaldur (sem dæmi Flash Gordon myndasögurnar sem komu fyrst út árið 1934). George Lucas átti svo sannarlega eftir að verða réttur maður á réttum stað.

Margir vilja meina að áttundi áratugurinn sé seinni gullöldin í bandarískri kvikmyndagerð. Raunsærri myndir með alvarlegri undirtón komu fram á sjónarsviðið og spegluðu þjóðfélagsástandið og leikstjórar fengu meira frelsi til listsköpunar í skjóli höfundarkenningarinnar. Eini gallinn var sá að flest framleiðslufyrirtækin voru rekin með tapi. Svo gerðist það að ungur leikstjóri og lítt þekktur frumsýndi árið 1975 kvikmyndina Jaws. Myndin var fyrsti stórsmellurinn (e. blockbuster) í kvikmyndasögunni og Hollywood fékk dollara merki í augun. George Lucas frumsýndi síðan Star Wars tveimur árum eftir að Spielberg kom fram með Jaws.

Fyrsta ástæðan fyrir vinsældum Star Wars gæti verið sú að kvikmyndagerð hafði verið mjög raunsæ og mikil þjóðfélagsádeila í þeim á þessum tíma. Víetnamstríðið var nýafstaðið og höfðu margir eflaust þörf á því að gleyma sér í kvikmyndahúsinu…

Fyrsta ástæðan fyrir vinsældum Star Wars gæti verið sú að kvikmyndagerð hafði verið mjög raunsæ og mikil þjóðfélagsádeila í þeim á þessum tíma. Víetnamstríðið var nýafstaðið og höfðu margir eflaust þörf á því að gleyma sér í kvikmyndahúsinu og hvað var betra en að ferðast út í geim og það að sumri til, því sumarsmellurinn fæddist með Spielberg en Lucas nýtti sér þessa nýju markaðsaðferð einnig með Star Wars. Hann lagði mikla áherslu á söluvarning tengdum myndunum (fyrstur manna í Hollywood til að leggja svo stóra áherslu á söluvarning tengt kvikmynd) og mætti segja að allt sem framleitt var í kringum myndirnar sjálfar eigi stóran þátt í vinsældunum. Það er orðið frægt þegar Lucas samdi við framleiðendurna um að hann skyldi fá allan gróðann af söluvarningnum tengdum myndunum, framleiðendurnir höfðu nefnilega enga trú á að slíkt myndi skila inn einhverju í kassann. Þeir sáu líklega eftir því.

Star Wars sló tveggja ára aðsóknarmet Jaws og varð langvinsælasta kvikmynd allra tíma. Hún höfðaði til fólks á öllum aldri og þó margir hafi viljað meina að hún hafi verið barnaleg þá átti hún erindi við alla. En hvað var það í söguþræðinum sem kveikti í fólki til að vilja sjá hana aftur og aftur sumarið sem hún var frumsýnd? Til þess að skýra þetta verður að leita langt, langt aftur í tímann og staldra við goðsögur og þjóðsögur sem allar byggja á sama grunninum þegar kemur að formgerð frásagna.

George Lucas var mjög meðvitaður um skrif goðsögufræðingsins Joseph Campbell og bók hans Hetjan með þúsund andlit. Í þeirri bók fjallar Campbell um það sem hann kallar „ferð hetjunnar“. Hann benti á að sameiginlegt mynstur væri að finna í mörgum ef ekki öllum goðsögum fyrri alda. Hann sagði að þessar goðsögur ættu að endurspegla innra sálarlíf mannsins og þar sem goðsögur eru svo rótgrónar í menningu okkar þá er uppbygging þeirra nánast í genunum. Önnur ástæðan fyrir vinsældum myndanna gæti því verið sú að þær eru í raun goðsögur, þær sögur sem lifa hvað lengst í gegnum menningarsögu okkar. Það er nóg að slá inn á Google: „Star Wars mythic structure“ til að finna nánari umfjöllun um hvernig Star Wars er byggð nokkuð nákvæmlega á goðsögulegum strúktúr.

Eins og ég minntist á fyrr í greininni þá eru ýmsar táknmyndir sem Star Wars sækir í. Til þess að útskýra þær betur er best að myndirnar hér fyrir neðan útskýri það, en þriðja ástæðan fyrir vinsældum myndanna gæti verið sú að þær varpa fram á sjónarsviðið mjög áhrifamiklum ímyndum sem við tengjum vel við menningarsögu okkar:Fjórða ástæðan fyrir því af hverju þessar myndir eru svona vinsælar er sú staðreynd að tæknibrellurnar í henni áttu eftir að umbreyta kvikmyndagerð til frambúðar. Lucas stofnaði ILM (Industrial Light and Magic) í kringum myndirnar og beitti tölvutækni við gerð ýmissa skota í myndinni, en það hafði ekki áður verið gert í kvikmynd að ráði. ILM hannaði það sem átti eftir að vera kallað „motion control“ sem var tækni sem notuð var við kvikmyndun á geimskipunum í myndinni. Þó verður að taka fram að 2001: A Space Odyssey (1968) eftir Stanley Kubrick hafði rutt brautina því þar var að finna mjög raunveruleg skot af geimskipum þar sem beitt var „motion control“ tækni en þó ekki tölvustýrðri eins og ILM.

Það hefur oft verið sagt að tónlist séu krydd kvikmyndanna, sem lyftir bragðinu upp, eða réttara sagt lyftir tilfinningum áhorfenda upp. Því verður að lokum að nefna síðustu ástæðuna fyrir vinsældum myndanna og það er tónlistin, sem endurvakti notkun á sinfóníutónlist í kvikmyndum.

Margir vilja meina að myndirnar hefðu aldrei náð þessum gífurlegu vinsældum nema fyrir tilstilli tónheimsins sem John Williams skapaði í myndunum. Tónlistinni hefur verið líkt við stórbrotin verk tónskáldsins Richard Wagner og notkun hans á Leitmotiv, sem er að tengja viss stef við ákveðnar persónur, tók Williams beint frá honum. Þekktast að sjálfsögðu er leitmotivið þegar Svarthöfði birtist í fyrsta skipti.

Eftir frumsýningu Star Wars tóku við nýjir tímar í Hollywood, stórsmellurinn var kominn til að vera og kvikmyndaiðnaðurinn tók mikinn kipp og blómstraði aftur eins og hann hafði gert frá 1920 til 1950. Það var ljóst að kvikmyndalistin var nú komin í hring því á upphafsárum kvikmyndanna var ekki litið á kvikmyndina sem listgrein, hún var sjónarspil frá 1895 til ca. 1915. Áhorfendur voru að upplifa eitthvað nýtt og spennandi, líkt og að fara í rússíbana þá var kvikmyndin upplifun og í raun ekkert annað. Eins og kvikmyndafræðingurinn Tom Gunning orðaði það þá voru ármyndir: „cinema of attractions“.

Með Star Wars var kvikmyndin aftur orðin rússíbanareið og sjónarspilið var það sem trekkti að áhorfendur, því kemur það ekki á óvart að margir vilja meina að Spielberg og Lucas hafi eyðilagt kvikmyndina sem listgrein, en deila má um það.

 

Heimildir:
Heimur kvikmyndanna, ritstj. Guðni Elísson
Tom Gunning, „The ‘Cinema of Attractions’ in Relation to Early Film“, Authentic Society.
J.W. Rinzler, The Making of Star Wars: The Definitive Story Behind the Original Film.
Wikipedia, „Star Wars Music“.

Myndir:
Star Wars veggspjald (forsíðumynd)
Skjáskot úr Star Wars myndunum

 

Höfundur er Ragnar Trausti Ragnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins og nemi í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands.

 

Deila efni

Tögg: ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑