Bíó og TV

Birt þann 30. nóvember, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Big Trouble in Little China (1986)

Big Trouble in Little China í leikstjórn John Carpenter er þriðja myndin sem sýnd var á Svörtum sunnudögum í Bíó Paradís. Myndin fjallar um vörubílstjórann Jack Burton (Kurt Russell) sem ákveður að sækja unnustu vinar síns, Wang Chi (Dennis Dun), á flugvöllinn. Upp úr þurru birtist hópur af mönnum úr einni alræmdustu glæpaklíku Kínahverfsins og rænir unnustunni og ákveða Jack og Wang að elta þá uppi og reyna að bjarga henni. Fljótlega hitta þeir Lo Pan (James Hong), sem er 3.000 ára illur galdramaður og í kjölfarið hefst ævintýri sem er út úr þessum heimi!


Myndin byrjar nokkuð vel þar sem áhorfandinn fær að kynnast helstu sögupersónum myndarinnar. Kurt Russell er líkur sjálfum sér í myndinni og leikur einskonar amerískt hörkutól og gúmmítöffara, en þrátt fyrir klisjulega persónu passar Kurt Russell vel í hlutverkið. Einnig fer Kim Cattrall með stórt hlutverk í myndinni, en hún er líklega þekktust fyrir leik sinn sem Samantha Jones í Sex and the City. Leikurinn í myndinni er frekar slappur og að mínu mati er leikur Kim áberandi slæmur og jafnvel furðulegur á köflum. En ef það er einhver mynd sem hentar 80’s gúmmítöffaranum Kurt Russell og slæmum leik Kim Cattrall að þá er það Big Trouble in Little China! Það má segja að slæmur og furðulegur leikur sé hluti af sjarma myndarinnar.

Myndin tengist göldrum og kínverskum glæpaklíkum sem berjast við drauga og aðrar yfirnáttúrulegar verur. Það er nóg um hasar og ævintýrum í myndinni, sem er á köflum ansi súrealísk. Einnig er mjög einkennandi yfirbragð af níunda áratugnum í gegnum alla myndina, sem hentar leikstíl Kurts og Kims einstaklega vel.

Ólíkt Black Sunday (1960), er Big Trouble in Little China mun hefðbundnari mynd sem býður ekki upp á áhugaverðar tökur, klippingar eða sögulegt eða listrænt gildi. Myndin er fyrst og fremst súrrealísk hasar- og ævintýramynd frá níunda áratugnum sem lætur poppið og kókið bragðast betur. Ágætis afþreying með nokkrum skemmtilegum atriðum. Ég varð var við nokkra dauða kafla í sögunni, og þá sérstaklega í endanum þar sem mér fannst myndin vera orðin heldur langdregin þrátt fyrir mörg hasaratriði.

Í stuttu máli sagt er Big Trouble in Little China fínasta skemmtun fyrir þá sem elska (súrrealískar) ævintýramyndir frá níunda áratugnum. Myndin er ekki beint framúrskarandi á neinn hátt, en býður upp á nokkur skemmtileg atriði og áhugaverðar tæknibrellur.

 

Höfundur er Bjarki Þór Jónsson,
ritstjóri Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑