Bíó og TV

Birt þann 12. október, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Dauði filmunnar

when you hear the camera whirring, you know that money is going through it.

Edgar Wright

Þú sest í myrkvaðan bíósalinn með popp og kók. Finnur besta sætið og eftir rúllandi stiklur og auglýsingar byrjar kvikmyndin. Í lok myndarinnar gengur þú út og ert annað hvort ánægður með myndina eða hefur gleymt henni jafn óðum. Það sem þú hefur þó eflaust ekki hugleitt þegar þú horfðir á myndina er hvort myndin var tekin upp með stafrænni tækni eða á filmu. Í kvikmyndaheiminum er barátta háð á milli þeirra sem vilja notast við stafrænu tæknina, sem er ódýr, sparar tíma og auðvelt er að sýna um allan heim og þeirra sem vilja notast við filmuna, hefðbundna sniðið sem eru 35mm og hafa verið notaðar nánast frá upphafi kvikmyndasögunnar.

Rétt fyrir jólin 2011 bauð leikstjórinn Christopher Nolan nokkrum lykilfígúrum Hollywood á forsýningu á fyrstu sex mínútum nýjustu Batman myndarinnar, The Dark Knight Rises. Í hópnum voru Michael Bay, Bryan Singer, Edgar Wright, Jon Favreau, Eli Roth, Duncan Jones og Stephen Daldry. Hefði orðið sprenging í húsinu hefðu helstu áhrifavaldar í Hollywood verið þurrkaðir út. Til allrar hamingju gerðist það þó ekki. Þegar gestirnir höfðu sest niður ávarpaði Nolan hópinn og sagði: „Ég bauð ykkur ekki hingað til að horfa á myndina“. Svo biðlaði hann til viðstaddra að halda í 35mm filmuna og benti á að The Dark Knight Rises er tekin á filmu en ekki með stafrænni tækni. Hann vonaðist til þess að stóru kvikmyndaverin myndu íhuga að halda í filmuna, ekki bara gæðanna vegna heldur vegna þess að filman geymist betur.

Á þessu ári verða kaflaskil í kvikmyndasögunni þegar fleiri kvikmyndahús munu notast við stafræna tækni við sýningar heldur en filmu-sýningarvélar. Talið er að í kringum 2015 verði 35mm filman nánast útdauð.

Á þessu ári verða kaflaskil í kvikmyndasögunni þegar fleiri kvikmyndahús munu notast við stafræna tækni við sýningar heldur en filmu-sýningarvélar. Talið er að í kringum 2015 verði 35mm filman nánast útdauð. Ástæðan fyrir því að stafræna tæknin er mun vinsælli hjá framleiðendum og mörgum kvikmyndagerðarmönnum er sú að mun ódýrara er að senda myndirnar í kvikmyndahús á hörðum disk eða gegnum netið og þannig beint í kvikmyndahúsin heldur en að senda stóra filmukassa um allan heim í fleiri þúsund kvikmyndahús. Afleiðingarnar sem þessi hneigð í kvikmyndaheiminum mun hafa geta þó orðið hrikalegar.

Af hverju er stafræna þróunin svona slæm? Jú í fyrsta lagi þá mun verða mun erfiðara að sýna gamlar kvikmyndir sem eru einungis til á filmu og margar hverjar munu aldrei verða settar á stafrænt format. Annað er að kvikmyndir geta hreinlega þurrkast út ef þær eru ekki prentaðar á filmu. 35mm filma er talin geta enst í 1.000 ár en stafræna tæknin er viðkvæm. Formöt breytast mjög ört og ef hlutir eru ekki uppfærðir þá geta þeir glatast að eilífu. Á síðustu 10 árum höfum við farið í gegnum 20 formöt og í hvert skipti þarf að uppfæra yfir í hið nýja format og kvikmyndir sem reiða sig engöngu á stafræna tækni eins og tölvuteiknaðar kvikmyndir geta hreinlega gufað upp. Ef þú heldur að þetta geti ekki gerst þá er nóg að nefna dæmi frá þeim sem stóðu á bakvið Toy Story, eina vinsælustu teiknimynd síðari ára og mynd sem breytti teiknimyndagerð til frambúðar. Þegar myndin skyldi sett á DVD fimm árum eftir að hún kom út í kvikmyndahúsum var farið í að sækja frumútgáfuna í tölvur Pixar fyrirtækisins. Það kom þó á daginn að mörg skjöl og atriði sem búið var að vinna fyrir myndina höfðu hreinlega eyðilagst og því þurfti að endurgera sum atriðin. Þetta atvik breytti þó því hvernig þeir hjá Pixar geyma upplýsingar hjá sér í tölvum. Eeeh, nei reyndar ekki, því þegar vinnu var lokið á framhaldinu, Toy Story 2, þá voru allar upplýsingar um myndina geymdar á Linux tölvu og fyrir algjöra slysni var starfsmaður hjá fyrirtækinu sem gerði þau mistök að eyða myndinni af tölvunni. Til allrar hamingju þó og fyrir algjöra tilviljun hafði listrænn stjórnandi myndarinnar tekið með sér heim eina eintakið af fullgerðu myndinni til að sýna dóttur sinni og því bjargaðist myndin.

Það hefur sýnt sig að þó svo að sumir í kvikmyndaheiminum telji að stafræna tæknin sé ódýr þá er hún í raun og veru dýrari þegar allt kemur til alls. Það er að sjálfsögðu rétt að það er ódýrt að gera kvikmynd með stafrænni kvikmyndatökuvél, og notast við harðan disk og enga filmu, en þegar kemur að því að geyma myndefnið þá fara vandamálin að hrannast upp og varðveisla stafrænna mynda er mun dýrari en að varðveita myndefnið á filmu sem þarf aðeins myrkur, rétt hitastig og rétt rakastig. Því veldur það áhyggjum að komandi kynslóðir gætu hugsanlega aldrei fengið tækifæri til að sjá margar af þeim kvikmyndum sem gerðar hafa verið á síðustu tíu árum því stafræna tæknin hefur tekið öll völd við gerð kvikmynda.

Tekið upp úr greininniMovie Studios Are Forcing Hollywood to Abandon 35mm Filmá LA Weekly.

Forsíðumynd: Myndblanda (35mm filma (Wikimedia Commons) og stilla úr Psycho (1960)).

 

Höfundur er Ragnar Trausti Ragnarsson,
nemi í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands.

 

 

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑