Birt þann 18. september, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Bókarýni: Old Man‘s War eftir John Scalzi
Nýverið kláraði ég bókina Old Man‘s War eftir John Scalzi og ákvað því að deila áliti mínu á bókinni. Þetta er vísindaskáldskapur sem ber með sér þemu póst-húmanisma og hernaðarvísindaskáldskaps og segir sögu. Eftir að hafa talað við nokkra vini og lesið nokkrar umfjallanir á netinu sé ég að margir vilja líkja þessari bók við Starship Troopers þar sem báðar segja sögu hermanns sem rís upp valdastigann sem fyrirfinnst í herjum framtíðar, en ég ætla ekki að byggja þessa umfjöllun á samanburði við Starship Troopers, það væri efni í sér umfjöllun útaf fyrir sig.
Í stuttu máli fjallar sagan um John Perry, sem gengur í herinn (Colonial Defense Force) til þess að verja mannkynið sem hefur dreift sér út fyrir jörðina. Ólíkt því sem lesandinn gæti hinsvegar búist við er það að John er 75 ára að aldri, ellismellur sem hefur engu að tapa og hefur allt að græða.
Á jörðinni er nefnilega sá orðrómur í gangi að að herinn búi yfir yngingartækni til að lífga aðeins upp á ellismellina sem eru jú að berjast fyrir þá. Sjötíu og fimm ára gamlir einstaklingar eru jú ekki beint sú ímynd sem kemur til hugar þegar þarf að taka á líkamlega við þær hættur sem steðja að mannkyninu, er það? John hefur hinsvegar ekki alveg rétt fyrir sér, en kemst brátt að því að herinn hefur jú sannarlega tól til að gera hann (og aðra) að ofurhermönnum. Hann verður sterkari, sneggri og hæfari en hann var nokkurn tímann á ævi sinni og er auk þess gefin ígrædd tölva sem inniheldur mikið af upplýsingum sem koma hvaða hermanni sem er að góðum notum.
John hafði ætlað sér að ganga í herinn með konunni sinni, en því miður dó hún áður en að hún gat gengið í herinn að fullu og þar með stígur John eins og svo margir einn inn í þennan nýja heim þar sem hann er sendur þvers og kruss í gegnum vetrarbrautina, fluttur af skipum búnum drifum sem geta staðsett sig hvar sem er í heiminum á augabragði, til að berjast við óvini mannkynsins sem eru ófáir; allt frá agnarsmáum verum sem svipa til hins mennska kynstofns til hræðilegra skordýra úr verstu martröðum mannsins.
Ég ætla að hætta mér út á hálan ís og segja að bókin sé í raun og veru ekki um neitt sérstakt.
Ég ætla að hætta mér út á hálan ís og segja að bókin sé í raun og veru ekki um neitt sérstakt. Eða kannski er betra að segja að bókin sé frásögn eða upplifun af byrjun ferils manns í hernum og hverjar hætturnar eru í heimi sem að hann hafði ekki vitneskju af áður. Vissulega gerast margir sniðugir hlutir í sögunni, þar á meðal þjálfun John‘s og heppileg snjallræði á vígvöllum, en tilgangur bókarinnar verður ekki mjög skýr fyrr en í endann. Það er ekkert eitt markmið, engin einn óvinur. Að mínu mati má segja að bókin sé um það hvernig gamall maður finnur eða sættir sig við nýtt líf.
Ég tel það ekki vera við hæfi að uppljóstra smáatriðum um söguatriði í umfjöllun sem þessari. í staðinn set ég hér fram álit mitt á bókinni. Mér þykir þetta vera nokkuð góð bók. Mér líkaði vel við John Perry ásamt aukapersónunum, flestum. Frásagnarstíllinn í bókinni gekk upp og mér leið í flestum tilfellum eins og ég væri að hlusta á veraldarvanann mann lenda í nýjum ævintýrum. Auk þess fannst mér bókin vera mjög fyndin á köflum; þeir sem hafa lesið bókina munu sennilega kannast við það sem ég er að tala um (nafngiftir á fyrrnefndum tölvum til dæmis).
Bókin var allavega svo góð að ég ætla mér að kíkja á restina af þeim bókum sem eru komnar í þessari bókaseríu. Ef ég ætti að gefa henni einkunn væri sú einkunn sirka 4 stjörnur af 5; skemmtileg og áhugaverð en ekki alveg fullkomin þá kannski sökum stefnuleysis.
Höfundur er Árni Brynjar Óðinsson,
nemi.