Leikjarýni

Birt þann 14. ágúst, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

Leikjarýni: Magic: The Gathering – Duels of the Planeswalkers 2013

Magic: The Gathering – Duels of the Planeswalkers 2013 (hér eftir Magic 2013) er nýjasta afurðin í leikjaröð byggðri á borðleiknum Magic: The Gathering. Hann kom út á PC, Xbox Live Arcade og iPad en þessi rýni miðast við Xbox360 útgáfuna.

Að ætla að lýsa því í smáatriðum hvernig Magic: The Gathering er spilað væri of stór biti fyrir þessa litlu leikjarýni en í stuttu máli sagt er leikurinn spilaður af tveimur eða fleiri leikmönnum (sem geta verið tölvustýrðir í þessu tilfelli) og hver hefur sinn spilastokk og sinn lit (eða liti). Litirnir hafa mismunandi veikleika og styrkleika en sem dæmi er rauði liturinn tákrænn fyrir eld (góð sókn, lakari vörn), græni fyrir náttúruna (stærstu skrímslin), hvíti fyrir engla og aðrar verur (mörg fljúgandi og erfiðara að verjast þeim), blái fyrir vatn (sterkur í göldrum, getur t.d. stöðvað galdra andstæðingsins) og svarti fyrir hið djöfullega (hægt að éta líf andstæðings smátt og smátt, dýrin er eins og úr Hellraiser o.s.frv.).

Hver spilastokkur samanstendur að miklu leyti af svokölluðum löndum sem er grunnur allra hinna spilanna og svo hin spilin; verur eða galdrar. Löndin þarf að leggja niður til að geta spilað verurnar eða galdrana sem kosta mismörg lönd. Leikmennirnir byrja með 20 í lífi og keppandi hefur tapað þegar líf hans fer í 0 eða minna. Sigurvegararnir vinna spil frá andstæðingnum og geta þannig bætt við sig góðum spilum en eitt aðalmarkmið Magic 2013 er einmitt að ná fullum stokkum. Keppendur byrja með 20 lífsstig og sá tapar sem lendir fyrst í 0 eða neðar.

Allt hér að ofan er samt mikil einföldun því að reglurnar eru mjög margbreytilegar. Það er ekki úr lagi að líkja M:TG við skák; engir tveir leikir eru eins og oft þarf að nota mikla taktík og útsjónarsemi til að sigra leikina. Rétt eins og skák hefur skákþrautir þá hefur Magic 2013 sambærilegar þrautir í þessum leik. Ólíkt skák hjálpar heppni oft ansi mikið í Magic 2013 en hæfileikar og þekking á reglunum skiptir líka miklu máli.

Þessir leikir koma út á hverju ári með lítilsháttar breytingum og það sem ég tek eftir frá 2011 (ég spilaði ekki 2012) er að útlitið er flottara, það eru meira að gera þ.m.t. fleiri spil, fleiri stokkar, fleiri andstæðingar og fjölbreytilegri spilunaraðferðir svo sem áðurnefndar þrautir.

Ein skemmtileg viðbót er svokallað „Planechase“ þar sem að fjórir keppa en þetta er flóknara afbrigði af Magic þar sem aukastokkur er í miðjunni sem allir keppendur geta dregið svokölluð „Plane cards“ sem geta haft stór áhrif á gang leiksins. Leikirnir eru langir og krefjast annars konar útsjónarsemi en í hefðbundnu Magic spili.

Tölvugreindin er ekki alltaf fullkomin, stundum gerir tölvan skrýtin mistök en að öðru leyti stendur hún sig vel.  Afrek (achievements) eru frekar auðveld fyrir þá sem hafa áhuga á að safna slíku og talsvert er af litlum verðlaunum sem halda manni við efnið og það er alltaf gaman að fá nýtt spil í stokkinn sinn eftir hvern sigur.

Magic 2013 er mjög skemmtilegur leikur og einn af þessum leikjum sem gott er að grípa í þegar maður vill drepa smá tíma. Fyrir aðdáendur Magic er ekki spurning að þessi á eftir spilast mikið og fyrir aðra sem hafa gaman af smá taktískum spilaleik þá mæli ég með þessum, sérstaklega þar sem verðið er ekki hátt. Leikurinn sjálfur þ.e.a.s. Magic: The Gathering spilið sem þessi tölvuleikur er gerður eftir er einstaklega vel hannað og uppbyggt spil sem fleiri ættu að kynna sér.

 

EINKUNN

9,0

Steinar Logi

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnEfst upp ↑