Leikjarýni

Birt þann 11. júlí, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: Quantum Conundrum

Leikurinn Quantum Conundrum er fyrstu persónu þrautaleikur sem fer ótroðnar slóðir. Hann er framleiddur af Airtight Games og gefinn út af Square Enix en var hannaður af Kim Swift, sem eins og margir vita er einn aðalhöfunda þrautaleiksins Portal.

Karakter spilarans er tólf ára frændi snarklikkaða en fluggáfaða vísindamannsins Professor Fitz Quadwrangle og fjallar leikurinn um heimsókn drengsins til frænda síns, sem verður fljótt áhugaverð. Í byrjun leiksins verður sprenging og hinir skrýtnustu hlutir fara að gerast í stórsetri Fitz. Húsgögn og allt lauslegt fer að fljóta og hreyfast um herbergin. Eftir stutta stund heyrist í vísindamanninum í gegnum einskonar kallkerfi  þar sem að hann útskýrir lauslega hvað hefur gerst.

Síðasta tilraun hans misfórst og hann endaði í vídd sem hann sér ekki leið út úr og þarf því þína aðstoð til að komast til botns í málinu. Fritz leiðbeinir spilaranum að hanska sem gerir honum kleift að nýta sér þær víddir sem fundið hafa verið, en þær eru:

  • Dúnmjúka víddin (the Fluffy Dimension), þar sem hlutir eru tíu sinnum léttari en venjulega, spilarinn getur nánast tekið upp alla lausa hluti.
  • Þunga víddin (the Heavy Dimension), þar sem hlutir eru tíu sinnum þyngri en venjulega. Spilarinn getur ekki lyft hlutum og eyðileggjast þeir ekki ef þeir verða fyrir lasergeislum.
  • Hæga víddin (the Slow Dimension), þar sem að tíminn líður tíu sinnum hægar en venjulega, þrátt fyrir það ferðast spilarinn á venjulegum hraða.
  • Öfugt-þyngdarafls víddin (the Reverse Gravity Dimension), þar sem þyngdaraflið snýst við, en spilarinn er ónæmur fyrir því.

Quantum Conundrum snýst um það að nýta þessar víddir til þess að leysa þrautir og þar með keyra söguþráðinn áfram. Ekki eru allar víddir aðgengilegar í öllum þrautunum og þarf því oft að hugsa vel og lengi.

 

Gagnrýni

Quantum Conundrum er fljótur að fanga athygli spilarans með áhugaverðum stíl, bæði með grafík,viðmóti og umhverfi. Auðvelt er að læra á stjórntæki leiksins og þarf ekki að hafa fyrir því að hafa góð tök á öllum hreyfingum og skiptum á víddum.

Eins og fyrr var minnst á er þetta þrautaleikur og því snýst þungamiðja leiksins um það að finna lausnir á vandamálum. Fyrsta ferð mín í gegnum leikinn tók 7 klukkutíma og var það á nokkurra daga tímabili. Þrátt fyrir það fannst mér ég aldrei vera að leysa sömu þrautina aftur og því verður að hæla hönnuðum borðanna fyrirmikla fjölbreytni. Nýjar víddir bætast við meðan farið er í gegnum sögu leiksins og því lærir maður vel á þær víddir sem fyrir eru áður en nýjar eru fengnar.

Sem dæmi um lausn á þraut þarf að taka upp peningaskáp (með því að nota Dúnmjúku víddina), kasta honum og breyta strax yfir í Hægu víddina, hoppa ofaná peningaskápinn og ferðast á honum yfir stórt gap sem ekki er hægt að hoppa yfir, lenda peningaskápnum hinum megin og setja síðan Öfugt-þyngdarafls víddina í gang til þess að peningaskápurinn lendi á takka sem er staðsettur í loftinu. Ef þér fannst ég skrifa orðið peningaskápur oft þá hefurðu rétt fyrir þér, því peningaskápar koma mikið fyrir í leiknum og spilarinn þarf að nýta þá í lausn þrauta. Peningaskápur.

Grafíkin og umhverfi leiksins er æðisleg og skemmtilegt að sjá hvernig hlutir, húsið og þrautir spila saman til að búa til þennan fallega leik. Góður húmor hvort sem er í tali eða umhverfi (mæli með að skoða málverk og titla á bókum).

Sumar þrautirnar gátu verið erfiðar en við því var að búast frá þrautaleik. Leikurinn skilar góðri skemmtun og lengri spilunartíma því hægt er að fara í hverja þraut fyrir sig aftur og reyna við að leysa þær á sem stystum tíma og/eða sem fæstum skiptum á víddum.

Leikurinn Quantum Conundrum veldur því ekki vonbrigðum sem leikur sem reynir að ná tánum þar sem Portal hefur hælana. Quantum Conundrum er leikur sem ég mæli með að þú prufir (það á að koma út leiklingur (e. Demo)).

Vonandi skemmtir þú þér jafn vel og ég gerði, því það varheilmikið.

 

SAGA
GRAFÍK
HLJÓÐ
SPILUN
8,0
8,5
8,0
9,0

SAMTALS

8,3

Daníel Páll

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑