Bíó og TV

Birt þann 26. júní, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: God Bless America

Ég ætla að fjalla um nokkuð grófa gamanmynd sem hefur ef til vill ekki fengið mikla athygli hér á landi, en mun eflaust gera það bráðlega. Myndin heitir God Bless America og var frumsýnd seinasta haust í Bandaríkjunum á kvikmyndahátíð í Toronto. Hún var svo sýnd á nokkrum stöðum í Bandaríkjunum í vor og í gegnum VOD sjónvarpsleigur. Myndin er ekki komin í bíó hér á landi og ég veit ekki hvort það muni gerast. Vonandi samt, því þegar þetta er skrifað er mynd í bíó með 1,8 í einkunn á IMDb. Ef það er pláss fyrir slíkar myndir í bíó hlýtur að vera hægt að troða inn einni skemmtilegri sem skilur eitthvað meira eftir sig en poppmylsnur.

Leikstjóri myndarinnar, Bobcat Goldthwait, leikstýrði einnig svörtu kómedíunni World’s Greatest Dad (2009) þar sem Robin Williams leikur misheppnaðann rithöfund sem nýtir sjálfsmorð sonar síns til að skrifa falsaða dagbók hans sem nær svo metsölu. Í þessari mynd er hann í svipuðum hugleiðingum, enda um svarta kómedíu að ræða og nokkuð svipaða aðalpersónu. Joel Murray, bróðir Bill Murray, er aðallega þekktur fyrir aukahlutverk en í God Bless America er hann í aðalhlutverki sem skrifstofublókin Frank. Hann er fráskilinn og nær litlu sambandi við dóttur sína sem fær lítið sem ekkert uppeldi frá móður sinni. Honum gengur illa í samböndum og á sama sem enga vini. Heima hjá sér horfir hann á sama sorpið og restin af þjóðinni gerir en telur sig þó yfir það hafinn. Þegar hann sér samstarfsfólk sitt tala um aulann sem lét eins og fáviti í raunveruleikaþætti svipuðum American Idol byrjar hann að dagdreyma um að skjóta þá. Svipaða drauma fær hann um nágranna sína sem sýna honum algjört tillitsleysi með hávaða og fleiru. Eins og það sé ekki nóg þá fær hann slæmar fréttir sem umturna lífi hans og þá kemst hann nálægt því að gefast upp. Þá birtist hin sextán ára Roxy (leikin af Tara Lynne Barr) sem hefur svipaðar hugmyndir og hann um galla nútímasamfélags. Hún gengur til liðs við hann og þau fara saman í ferð um Bandaríkin til að bæta samfélagið eftir sínu höfði …með byssum.

Ég veit ekki með ykkur, en sem temmilega bitur manneskja fær þessi söguþráður mig til hoppa af gleði. Ekki vegna þess að ég telji að gjörðir þeirra séu réttar, heldur vegna þess að þetta býður upp á frábæra skemmtun. Það er einmitt sterkasta hlið myndarinnar. Þrátt fyrir að vera hárbeitt félagsleg og pólitísk ádeila væri hún lítið meira  ef ekki væri fyrir þann frábæra húmor sem birtist í myndinni. Joel Murray stendur sig fantavel sem gagnrýnisrödd meðalmannsins og Tara Lynne Barr á fína spretti sem kjaftfor og uppreisnargjörn stelpa sem telur sig vera fullvaxna konu. Saman minna þau á Bonnie og Clyde, Mickey og Mallory eða jafnvel The Crimson Bolt og Boltie úr hinni bráðskemmtilegu Super (2010). Þar sem mikill aldursmunur er á milli þeirra skapast stundum óþægileg kynferðisleg spenna, en ekkert sem hverfur ekki með því að klára byssukúluhylki eða tvö. Á meðan þau laga heiminn eftir sínu höfði er yfirleitt glaðlegt undirspil sem ýtir undir skemmtanagildi myndarinnar og þó það sé mikil klisja þreytist það seint.

Joel Murray stendur sig fantavel sem gagnrýnisrödd meðalmannsins og Tara Lynne Barr á fína spretti sem kjaftfor og uppreisnargjörn stelpa sem telur sig vera fullvaxna konu. Saman minna þau á Bonnie og Clyde, Mickey og Mallory eða jafnvel The Crimson Bolt og Boltie úr hinni bráðskemmtilegu Super (2010).

Undir lokin fer þó að draga úr krafti myndarinnar og tel ég það helst vera orsök þess að hún fer að taka sig of alvarlega og dettur jafnvel í sömu gildrur og hún gagnrýnir. Frank og Roxy telja t.d. upp þá hópa sem þeim finnst réttdræpir og þá kemur í ljós hversu þunn línan getur verið á milli manna sem eiga skilið að lifa eður ei. Í fyrstu virðast slík atriði vera gallar á meginboðskapi myndarinnar en eru það alls ekki í öllum tilfellum. Persónusköpunin verður þannig að vissu leyti raunsærri og hvetur áhorfandan til að líta í eigin barm í stað þess að gagnrýna aðeins hina auðséðu galla nútímasamfélags.

Auðvitað er það frekar kaldhæðnislegt að fólk ætli að betrumbæta samfélagið með því að breyta sjálfum sér í enn eitt vandamálið. Skotárásir eru til dæmis allt of algengt vandamál í Bandaríkjunum, en Frank og Roxy eru bæði nægilega sturluð til þess að geta framkvæmt slíkar hreinsunaraðgerðir. Talandi um hreinsunaraðgerðir, þá vitum við öll hvað gerðist þegar að hópur manna kom saman í Þýskalandi á fjórða áratugi seinustu aldar til að betrumbæta heiminn, að sínu mati. En engu að síður er þetta skemmtiefni nútímans. Við viljum sjá pirrandi fólk deyja á hvíta tjaldinu. Það þýðir samt ekki að við samþykkjum morðin á neinn siðferðislegan hátt, enda vitum við að þetta er ekki raunveruleikinn. Auðvitað dreymir fólk um hversu betri heimurinn væri ef ekki væri fyrir ákveðið fólk sem fer í taugarnar á þeim. En áður en maður hleður haglarann og labbar niður Laugaveginn er gott að velta fyrir sér hvar mörkin liggja og hvort maður eigi ekki frekar að líta í eigin barm og byrja á því að leysa vandamálið þar.

Burtséð frá öllum slíkum boðskap er eitt á hreinu. God Bless America er meinfyndin og skemmtileg mynd sem hentar bæði fyrir heilalaust gláp og nánari athugun með tilfallandi vangaveltum. Þar sem við erum öll að einhverju leyti hluti af gagnrýni myndarinnar, en jafnframt sammála söguhetjunum í ýmsum atriðum, ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi við áhorf myndarinnar. Þó að boðskapur hennar eigi vissulega erindi við okkur er myndin fyrst og fremst góð skemmtun og því mæli ég hiklaust með henni. Ef þú ert ekki enn seld(ur) þá geturðu horft á stikluna hér fyrir neðan. Góða skemmtun!

Andri Þór Jóhannsson

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑